2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sonur Ragnars Lýðssonar: „Frásagnir Vals Lýðssonar af kvöldinu örlagaríka eru orðnar ansi margar“

„Sannleikanum hafa ekki verið gerð næg skil,“ skrifar Ingi R. Ragnarsson, sonur Ragnars Lýðssonar sem lést af völdum bróður síns á bæn­um Gýgjar­hóli II í fyrra.

 

Þann 24. september var Valur Lýðsson dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að verða valdur að dauða bróður síns, Ragnars Lýðssonar, þann 31. mars 2018, á bæn­um Gýgjar­hóli II í Blá­skóga­byggð. Ríkissaksóknari áfrýjaði þeim dómi og hófst aðalmeðferð í máinu Landsrétti í gær.

Ingi R. Ragnarsson, sonur Ragnars Lýðssonar, tjáir sig um málið í langri færslu á Facebook. Færsluna skrifar hann undir yfirskriftinni „Morðið að Gýgjarhóli – Sannleikurinn“.

Svona hefst færsla Inga: „Frásagnir Vals Lýðssonar af kvöldinu örlagaríka eru orðnar ansi margar og mis skrautlegar. Upphaflega ætlaði hann að halda sig við að hann hefði komið að föður mínum um morguninn og að hann myndi óljóst eftir átökum. Hann minnti þó að faðir minn hefði átt upptökin og að þeir hefðu skilið sáttir um nóttina. Hann hefði svo komið að honum látnum um morguninn“.

AUGLÝSING


Ingi skrifar þá að blóðferlarannsókn á vettvangi og krufning á líki föður hans hafi leitt í ljós að fátt passaði við frásögn Vals.

„Lögreglan áætlaði mjög fljótlega að föður mínum hefði verið komið að óvörum, hann sleginn mjög þungu höggi og strax fallið niður á fjóra fætur. Það getur lögreglan ályktað út frá blóðslettum á vettvangi, meðal annars á þvottavél. Þar traðkar Valur á pabba sem liggur á fjórum fótum, þar til pabbi missir hendurnar undan sér og fellur í gólfið. Blóðslettur sem spýttust út um munnvik föður míns og áverkar á andliti sýna að Valur traðkar á höfði föður míns eftir að hann fellur. Höggin eru það mörg og það þung að andlit föður míns var mjög illa farið,“ skrifar hann meðal annars og vísar svo í niðursöður rannsóknar réttarmeinafræðingssins Sebastians Kunz.

„Réttarmeinafræðingur staðfesti að það voru engir áverkar, mar eða nokkur skapaður hlutur á föður mínum sem benti til þess að hann hefði slegið til Vals eða varið sig. Andlit föður míns var blátt og afmyndað. Pabbi liggur þvert í gegnum anddyrið á Gýgjarhóli og lögregluna grunaði strax í upphafi að hann hefði verið sleginn með barefli í upphafi atlögunnar. Gerð var ítarleg leit en henni var síðan hætt á þeim forsendum að réttarmeinafræðingur taldi mögulegt að hægt væri að valda áverkum föður míns með berum höndum og fótum. Þá er árásin talin svo ofboðslega heiftúðug að lögreglan taldi barefli hvort sem er ekki hafa mikið að segja við málsmeðferð.“

Ingi skrifar svo að þrátt fyrir að Valur hafi breytt frásögn sinni nokkrum sinnum þá hefur hún aldrei passað við það sem sönnunargögn hafa leitt í ljós. „Þrátt fyrir endalausar hagræðingar Vals á frásögn sinni þessa nótt, er hún ekki enn farin að ríma við sönnunargögnin á vettvangi og krufningu föður míns.“

Í lok færslunnar kemur þá fram að Inga hafi þótt mikilvægt að skrifa og birta grein um málið.

„Fólk hefur einnig ekki meðtekið að um væri að ræða tilhæfulausa árás á mann sem var á förum þessa nótt.“

„Fólk hefur keypt sögusagnir af atburðum þessarar nætur og hefur ekki ennþá meðtekið að Valur sé fær um svona ofbeldisverk. Fólk hefur einnig ekki meðtekið að um væri að ræða tilhæfulausa árás á mann sem var á förum þessa nótt. Eins ótrúlegt og það kann að hljóma þá er siðblindur einstaklingur undantekningin á því að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Þegar annar einstaklingurinn er siðlaus þá þurfa tveggja hliða deilur ekki að koma til. Heiðarlegri og réttsýnni menn en pabbi eru vandfundnir, þó hann hafi haft nóg af göllum eins og hver annar. Sannleikanum hafa ekki verið gerð næg skil opinberlega og þrátt fyrir allt sem á undan er gengið þá get ég ekki látið síðustu orðin um föður minn vera nafnlausan rógburð frá Val Lýðssyni og fylgjum hans og því settist ég við skriftir.“

Færslu Inga má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is