• Orðrómur

Sorgleg örlög dýranna í Sædýrasafninu – Stálu kengúru og tóku með í partí

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Í maímánuði árið 1969 var opnaður dýragarður í Hafnarfjarðarhrauni, sunnan Hvaleyrarholts, þar sem nú er Keilisvöllurinn. Upphafið að ævintýrinu má rekja til Hjálparsveitar skáta, sem þá sem nú, var reglulega að leita leiða til fjáröflunar. Þeir fóru því af stað með sýningu á fiskum svo og nokkrum öðrum dýrum. Með tímanum bættust við íslensku húsdýrin auk sela, háhyrninga, ísbjarna svo og dýra af hlýrri slóðum. Ljón, kengúrur og apar voru í þeim hópi.

Margir höfðu á orði að það væri bilun að opna dýragarð að erlendri fyrirmynd lengst úti í Hafnarfjarðarhrauni. Sé litið í baksýnisspegilinn er vart unnt að gera annað en vera sammála þeim er töldu hugmyndina afspyrnuvonda.

Keikó í safninu

- Auglýsing -

Ekki ber að efast um að hugmyndin að safninu hafi verið byggð á einlægum vilja aðstandenda þess til að kynna landanum dýrafánu víðsvegar að úr heiminum.  Dýragarðurinn í Hvaleyrarholtinu er engu að síður sláandi dæmi um hvernig hugmyndir manna um aðbúnað og umhverfi dýra hafa gjörbreyst í áranna rás.

 

- Auglýsing -

Það var Jón Kr. Gunnarsson, skipstjóri og bókáútgefandi, sem átti hugmyndina að sædýrasafninu og var hann forstöðumaður þess alla tíð. Safnið var fjármagnað með aðgangseyri svo og tekjum sem fengust fyrir að fanga háyrninga fyrir sædýrasöfn víða um heim. Háhyrningarnir voru geymdi í þar til gerðri laug í safninu áður en þeir voru sendir út. Hinn víðfrægi Keikó var til að mynda geymdur í safninu eftir að hafa verið fangaður árið 1979. Einnig studdi Keflavíkurbær við safnið.

Ljón á labbi um Hellisgerði

Dóttir Jóns, Ragnhildur Jónsdóttir, var átta ára þegar safnið opnaði. „Ætli við höfum ekki alltaf þótt pínu skrítin. Það voru alltaf ljón eða selir heima hjá mér. Það var samt ábyggilega gaman að koma í heimsókn. En ég pældi ekkert í því af því að þetta var svo eðlilegt fyrir mér, ég þekkti ekkert annað,“ sagði Ragnhildur síðar í viðtalið við DV.

- Auglýsing -

Í vaskahúsinu voru ljónsungarnir geymdir og þeim gefin mjólk á pela. „Við settum hundaól á þá og fórum með þá í göngutúr um Hellisgerði til að viðra þá. Auðvitað yrði þetta ekki gert í dag. Það er svo margt sem maður þarf að skoða út frá þessum tíma. Í dag myndi maður hafa ljón í stærra plássi og maður myndi ekki fara með þau í göngutúr í Hellisgerði. Þetta var allt annar tími“.

Lesendabréfin

Safnið fékk dýrin víða að, ekki síst í gegnum dýragarðinn í Kaupmannahöfn sem Jón var í miklum og góðum samskiptum við. Til að mynda var fyrsta spendýrið í garðinum munaðarlaus ísbjarnarhúnn frá Köben. Önnur dýr voru keypt. Íslenskum dýrum var skipt fyrir erlend. Hreindýr voru veidd og móðurlausum selkópum bjargað.  Safninu bárust einnig gæludýr frá fólki sem vildi losna við þau og varð brátt fylltist safnið af kanínum, páfagaukum og skjaldbökum.

 

Ekki leið þó á löngu að almenningur var farinn að hafa á orði að aðbúnaður dýranna í hrauninu væri ekki boðlegur og má finna fjölda lesendabréfa þess efnis á síðum blaða í upphafi áttunda áratugarins.

Ísbjörn með niðurgang

Í viðtali sem Alþýðublaðið tók við Jórunni Sörensen, formann Sambands dýraverndunarfélaga Íslands, í tilefni af Degi dýranna árið 1976, gagnrýndi hún harðlega rekstur sædýrasafnsins. Sagði hún stjórn félagsins hafa farið og kannað aðbúnað dýranna eftir að mikill fjöldi kvartana hefði borist. Í kjölfarið var skrifað bréf þar sem upp voru talin fjöldi atriða sem félagið taldi betur mega fara. Þar var meðal annars bent á að dýrin væru í forarvilpu, skítug upp á herðarkamb og að vatn væri óhreint í gryfju ísbjarnanna og þar ókræsilegt um að litast. Sagði Jórunn einnig ljónsunga dauðan og í frysti, hreindýrin með þarmaeitrun og einn ísbjörninn með svæsna skitu.

Sagði Jórin svörin hafa verið útúrsnúninga og yfirklór; for og skítur væru eðlilegur hlutir þar sem mikið rigndi á svæðinu. „Það er í rauninni fáránlegt hvað þetta safn hefur notið mikils velvilja hjá blöðunum,” sagði Jórunn í viðtalinu.

Feldir klístraðir

Árið 1980 birti tímaritið Dýraverndarinn grein sem sjö Keflavíkurmeyjar skrifuðu eftir heimsókn sína í safnið. Þar segir meðal annars að fiskarnir hafi legið í skítugum búrum og hafi þrengslin verið slík að þeir hafi legið hverjir ofan á öðrum eins og í sardínudós. Þvínæst hafi þær skoðað refina sem hafi verið með feldina klístraða af skít í þröngu búri. Þær taka fram að hjá kanínum, kengúrum og hömstrum hafi verið þrifalegt um að litast en ekki unnt að segja slíkt hið sama um aðbúnað annarra dýra. „Hjá ljónunum og öpunum var ferleg lykt og karljónið virtist í vondu skapi því það stökk á grindverkið fyrir búrinu. Þarna er hættulegt fyrir lítil börn því þau geta komist alveg að ljónunum.” Sömu sögu höfðu þær að segja ísbirnina sem að þeirra sögn voru umlyktir gömlum matarleyfum sem voru farnar að úldna.

 

„Í þessu Sædýrasafni er alveg ferlega sóðalegt og lítið pláss fyrir dýrin og okkur finnst að fólk ætti ekki að láta bjóða sér að skoða þetta Sædýrasafn,” sögðu stúlkunar í niðurlagi greinarinnar.

Margskorinn bangsi

Því má við bæta að stærsti ísbjörn í heimi, sem vistaður var í safninu, drapst út blóðeitrun árið 1984 eftir að hafa skorið sig á brotinni pilsnerflösku. Var það í þriðja sinn sem bangsi hafði skorið sig illa á flösku sem óprúttnir aðilar hentu að honum. Einnig höfðu verið brögð að því að glerköstum hafi verið kastað að fleiri dýrum, einkum öpunum.

Ekki voru þetta einu skiptin sem dýr af safninu urðu fyrir illri meðferð af hendi almennings því eitt skiptið braust ógæfufólk þar inn og hafði á brott með sér kengúru sem því fannst gráupplagt að taka með í partí. Aumingja dýrið þurfti að dvelja alla nóttina með ölóðu fólki þar til víman rann af mannskapnum og kengúrunni var skilað í kassa upp við Ártúnsbrekku daginn eftir.

Rekstur safnins gekk brösuglega í nokkur ár, ekki síst eftir að salan á háhyrningum féll um sjálfa sig í kjölfar aukinna mótmæla hvalfriðunarsamtaka. Fór svo að safnið skellti í lás árið 1987. Ekki reyndist unnt að selja dýrin sökum aldurs og var þeim fargað. Við það má bæta að við frágang á safninu fundust fjórar kengúrur, grindhoraðar og tannlausar, sem gleymst hafði að farga og var ljóst að tennurnar hefðu verið dregnar úr þeim. Það mun hafa verið afar sorgleg sjón.

Var þá úti um dýragarða á Íslandi þar til Húsdýragarðurinn opnaði með gjörólíku sniði þremur árum síðar.

 

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -