„Sorglegt að börnin okkar velji þessa leið“

Deila

- Auglýsing -

Kristvin Guðmundsson ljósmyndari undirbýr nú ljósmyndaseríu, þar sem hann mun taka andlitsmyndir af þolendum og jafnvel gerendum eineltis. Sjálfur varð hann fyrir  miklu einelti á sinni grunnskólagöngu og er honum því málefnið hugleikið. Með ljósmyndaseríunni vonast hann til að málefnið snerti við öllum og veki athygli á hversu algengt einelti er og að það sé ekki bara í skólakerfinu.

 

„Hugmyndin að verkefninu varð til eftir að ég frétti af árás hóps unglingsdrengja á einn dreng við strætóstoppistöð í Kópavogi núna í febrúar,“ segir Kristvin. „Þegar ég frétti af árásinni hugsaði ég: Þetta ætlar aldrei að stoppa, þetta er orðið daglegt brauð. Ég var mjög hneykslaður og reiður. Hvort sem þetta var einelti eða uppgjör þá er ofbeldið orðið alvarlegra og grimmara en áður. Það er eitthvað að, kerfið okkar er ekki að virka eins og það er. Það er sorglegt að börnin okkar velji þessa leið.“

Kristvin segist sjálfur hafa verið fórnarlamb eineltis alla grunnskólagönguna og oft hafa hugsað hvernig og hvort hann gæti gert eitthvað í baráttunni gegn einelti. „Á sínum tíma leit ég rosalega upp til Stefáns Karls, og geri enn, og velti fyrir mér hvernig ég gæti gert eitthvað í þessum málum og þannig fékk ég hugmynd að myndaseríu, því ljósmyndin lifir að eilífu.“

Mynd / Kristvin Guðmundsson

Hann segist vera með ákveðið tengslanet sem hann geti nýtt sér og í fyrstu hafði hann hugsað sér að mynda eingöngu fórnarlömb eineltis. „Síðan hugsaði ég hugmyndina frekar og ákvað að taka saman bæði þekkt og óþekkt andlit og breyta verkefninu í: „Er ég fórnarlamb eineltis?““

Kristvin segir þá sem hann hefur rætt hugmyndina við taka vel í hana. „Þá er ég ekki að merkja einhvern sem fórnarlamb eineltis, heldur að vekja fólk til umhugsunar um hvort að viðkomandi sé fórnarlamb. Við erum að kasta spurningunni fram til áhorfandans. Fyrirsæturnar geta verið nágranni þinn, vinur þinn, frændi þinn. Einelti kemur öllum við og það er ótrúlegasta fólk sem hefur lent í einelti.“

Barinn og beittur andlegu ofbeldi

Eins og áður sagði varð Kristvin fyrir einelti alla hans skólagöngu og segir hann marga gerendur hafa tekið þátt í daglegu einelti, sem einkenndist af barsmíðum og andlegu ofbeldi. „Það var ekkert gert í því, ég var tekinn inn til skólastjórans og spurður hvort ég hefði ekki bara beðið um þetta sjálfur. Meira að segja sumir kennararnir tóku þátt í eineltinu,“ segir Kristvin og bætir við að hann hafi þurft að fara í gamla skólann sinn fyrir stuttu og hann hafi skolfið eins og hrísla þegar hann kom þar inn, svo vel sé eineltið sem hann varð fyrir brennt inn í vitund sína.

Þá kveðst hann hafa mætt fyrir nokkru í „reunion“ í grunnskólanum og segir hann flesta ekki hafa átt von á að hann myndi mæta. „Þarna voru allir gömlu bekkjarfélagarnir og allir gerendurnir og þeir komu flestir til mín og báðu mig afsökunar á eineltinu, þannig að ég fékk þarna rosalega lokun á reiðina. En eineltið er mjög brennt í hugann og þetta mótar einstaklinga og fólk sem verður fyrir grófu einelti er líklegra til að leita í neyslu eða slíkt.“

Dæturnar urðu allar fyrir einelti

Kristvin á þrjár dætur á aldrinum 16–19 ára og segir að allar dætur hans hafi orðið fyrir einelti. Sú yngsta þeirra er einhverf. Hins vegar hafi verið tekið á því einelti betur en þegar hann varð sjálfur fyrir því og að hann hafi tekið á eineltinu gegn dætrunum. „Ég sá það til dæmis hjá yngstu dóttur minni, hún fær ekki að vera með og það stingur foreldrahjartað rosalega. Það eru allir skólar í dag með aðgerðaáætlun gegn einelti en það virðist samt lítið breytast og einelti er að aukast frekar en hitt. Það er ekki langt síðan 11 ára drengur tók eigið líf vegna eineltis.“

Kristvin segir að með hliðsjón af þessu öllu langi hann til að leggja eitthvað fram í umræðunni gegn einelti. „Mig langar að skilja eftir fótspor, þetta málefni er mér hugleikið.“

Kristvin og norðurljósin.

Síðustu jól kynntist Kristvin því hvernig er að leggja sitt af mörkum þegar honum bauðst að mynda fyrir Ljónshjarta, sem eru samtök til stuðnings yngra fólki (20-50 ára) sem misst hefur maka og börnum þeirra og segir hann að það verkefni hafi sýnt sér að hann geti haft áhrif með sínu framlagi.

„Ég var beðinn um sjá um jólamyndatöku félagsins og ég sagði strax já. Mér þykir mjög vænt um þessi samtök. Þau eru að gera ótrúlega hluti, eitthvað sem fólk áttar sig ekki á fyrr en það stendur sjálft í þessum sporum. Þessi myndataka lifir enn í hausnum á mér,“ segir Kristvin, sem myndaði börn og fjölskyldur þeirra. „Myndatakan hjá Ljónshjarta opnaði hugann hjá mér um að ég get breytt einhverju og var einnig hvatinn að ljósmyndaseríunni sem mig langar að gera núna um einelti.“

Stofnaði vinsælan norðurljósahóp á Facebook

Kristvin segir að þegar hann hafi byrjað að taka ljósmyndir hafi hann fundið að áhuginn lá þar, en það voru myndir hans af norðurljósum sem vöktu athygli á honum. „Ég og vinur minn, Friðrik Hreinsson, vorum að fara út til að mynda norðurljósin. Síðan komst ég í kynni við kanadískan ljósmyndara, Todd Salad, sem gaf mér nokkra punkta um hvernig ætti að gera þetta. Og til að réttlæta kaupin á öllu þessu dóti þá þurfti ég að fara „all-in“ og í skóla,“ segir Kristvin og hlær.

Hann ákvað því að læra ljósmyndun og varð New York Institute of Photography fyrir valinu. „Ég gat unnið námið í skólanum og klárað allt saman á Netinu, það eru ljósmyndarar sem dæmdu verkefnin mín og fókusinn er bara á ljósmyndun, ekkert annað. Ég átti orðið yfir 6000 myndir og var því fljótur að klára skólann.“

Mynd úr jólamyndatöku félagsins Ljónshjarta. Mynd / Kristvin Guðmundsson

Fyrir sex árum síðan stofnaði hann hóp á Facebook um norðurljósamyndir, Aurora Hunters Iceland. „Ég var óhress með að það væri alltaf verið að rukka fólk fyrir slíkar myndir og ferðir og ég gerði nokkra fúla með því að ljóstra upp um tækni og tökustaði. Þetta byrjaði rólega, en í dag telur hópurinn yfir 14 þúsund manns.

„Þetta eru mikilvæg samtök, sjálfsvíg eru einn fylgifiskur eineltis og ef ég á að vera alveg hreinskilinn….“

Ég hef þennan miðil og sé að fyrst að ég gat látið norðurljósagrúbbuna stækka svona svakalega, þá hlýt ég að geta gert eitthvað með eineltis-ljósmyndaseríuna,“ segir Kristvin, sem hefur leitað til Hugarafls og Píeta samtakanna um að þau verði með í framkvæmd verkefnisins. „Þetta eru mikilvæg samtök, sjálfsvíg eru einn fylgifiskur eineltis og ef ég á að vera alveg hreinskilinn, þá hefur sú hugsun að taka eigið líf margoft flogið í gegnum hausinn á mér. Ég missti vin minn einnig mjög ungur, en hann var 14 ára þegar hann tók eigið líf vegna eineltis. Einelti er viðbjóður.“

Sterk viðbrögð á samfélagsmiðlum

Kristvin segist hafa fengið mikil viðbrögð síðan hann sagði frá ljósmyndaverkefninu á Facebook-síðu sinni, og öll jákvæð. Margir vilji vera með og ætlar hann ekki að setja neinar takmarkanir á fjölda þeirra sem verða myndaðir. Myndirnar verða andlitsmyndir með fókus á augu þeirra sem sitja fyrir.

„Ég vil að andlit fólksins á myndunum festist í minni fólks og það hugsi um málefnið. Ég vil að það líti sér nær: „Er ég þolandi, er barnið mitt þolandi, er ég gerandi?“ Ef ég get bjargað einum einstaklingi frá einelti þá er ég sáttur,“ segir Kristvin. „Mig dreymir um það að fá mína áhrifavalda og átrúnaðargoð með í verkefnið.“

Þeir sem vilja taka þátt í ljósmyndaverkefninu geta haft samband við Kristvin á netfanginu [email protected].

 

- Advertisement -

Athugasemdir