• Orðrómur

Spænska veikin tók hundruð mannslífa á örskotsstundu – „Var skelfilegur dauðdagi“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Þrjátíu Íslendingar hafa látist af völdum Covid-19 á Íslandi, faraldursins sem setti landið, og heiminn allan, á hliðina. Það var aftur á móti annar sjúkdómur sem kostaði 500 Íslendinga lífið, ríflega 100 árum áður og er talin mannskæðasta farsótt 20. aldarinnar.

Um var að ræða afbrigði af inflúensu sem hefur í gegnum tíðina verið kölluð Spænska veikin. Það vekur athygli hversu miklum hörmunungum hún olli á tiltölulega stuttum tíma. Hún kom, lagði hundruð, og fór á innan við sex vikum.

Lungabólga var dauðadómur

- Auglýsing -

Sagan segir að veikin hafi borist til Íslands með tveimur skipum, Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum, þann 19. október 1918, sama dag og fullveldið var samþykkt.

Ekki var til neitt bóluefni við þessum í inflúensustofni og til að bæta gráu ofan á svart þá var ekki búið að finna upp penisillín til að verjast lungnabólgu sem var afskaplega alvarlegur fylgikvilli. Á þessum tíma jafngilti það nánast dauðadómi að fá lungnabólgu.

Spænska veikin kom fram vorið 1918 og þótti þá frekar væg. Síðsumars varð hún skæðari og að svokölluðum heimsfaraldri og í byrjun nóvember skall hún á með fullum þunga, meðal annars hér á landi.

- Auglýsing -

Tveir þriðju höfuborgarbúa rúmfastir

Fyrsta skráða dauðsfallið á Íslandi er skráð í byrjun nóvember þegar Sólveig Vigfúsdóttir frá Eystri-Skógum undir Eyjafjöllum hafði harkað af sér og haldið áfram vinnu sinni í Reykjavík þrátt fyrir að vera veik. Hún lagðist með lungnabólgu og lést innan sólarhrings. Næstu daga fór Spænska veikin yfir borgina sem eldur í sinu og þann 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi legið sjúkur. Fimm dögum síðar er talið að tveir þriðju íbúa höfuðborgarinnar hafi verið rúmfastir.

Neyðarástand skapaðist og öll sjúkrarúm Franska spítalans og Landakotsspítala fylltust. Miðbæjarskólanum var breytt í sjúkraskýli til að bregðast við. Götur Reykjavíkur tæmdust af fólki og dánartilkynningar blaðanna fylltust. Það gerði illt verra að á þessum tíma var húsnæðisskortur mikill, fólk bjó margt hvert í þrengslum við ömurlegar aðstæður og orðið sóttkví ekki til í íslenskri tungu.

- Auglýsing -

Farsóttir fyrri tíma, spænska veikin og COVID-19 | RÚV

Til að bæta gráu ofan á svart gekk yfir mikið kuldakast og hefur veturinn 1918 verið kallaður Frostaveturinn mikli. Talið er að tíu sinnum fleiri hafi smitast af Spænsku veikinni en öðrum flensustofnum og var tala smitaðra og látinna mjög há meðal ungs fólks, þá aðallega milli tvítugs og fertugs. Enn í dag eru læknavísindi ekki einhuga um hvers vegna veikin lagðist svona heiftarlega á ungt fólk.

Lagðist á öll líffæri

Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnarlæknir, sagði í viðtalið við DV árið 2018 að dauðdaginn hafi verið skelfilegur. „Þegar veikin var sem svæsnust dó fólk vegna blæðinga í lungum og í meltingarvegi. Hún lagðist á öll líffæri. Menn hóstuðu upp blóði, blóð gekk niður af mönnum og var í þvagi. Sumir lifðu fyrstu dagana af en fengu síðan lungnabólgu í kjölfarið og dóu. Einnig bar á miðtaugakerfiseinkennum, heilabólgu og þess háttar. Fólk blánaði, varð ruglað og lést jafnvel af þeim sökum.“ Þá segir hann að margir sem lifðu af hafi hlotið varanlegt tjón í lungum eða öðrum líffærum og að kenningar séu uppi um að veikin hafi valdið síðkomnum taugavandamálum.

Reykjavík fór langverst út úr faraldrinum, þar sem bæði faraldurinn hófst þar auk þess sem búseta í borginni var þéttust. Allt athafnalíf lamaðist. Flestar verslanir lokuðust og 6. nóvember hættu blöð að koma út vegna veikinda starfsmanna. Samband við útlönd féll niður því allir starfsmenn Landsímahússins utan einn veiktust. Messufall varð og sömuleiðis féll niður sorphirða og hreinsun útisalerna.

Líkin urðu helblá

Þórður Thoroddsen læknir lýsti spönsku veikinni á eftirfarandi hátt í bókinni Ísland í aldanna rás:

„Að öllu því er sjálfa veikina snertir, var hún mjög einkennileg og að mörgu leyti allt öðruvísi en þær inflúensusóttir, sem áður hafa gengið og ég hef séð. Ég var alvanur við að sjá í fyrri sóttum barkakvef og hálsbólgur, lungnakvef og lungnabólgur, bæði broncho-pneumoníur og krúpösar, eyrnabólgur, taugaveiki, uppköst og niðurgang, konur hafa misst [fóstur] og sumir orðið hálfbrjálaðir um tíma. En svo þungt lungnakvef, svo tíðar lungnabólgur sem í þessari sótt hef ég aldrei séð. Og þessar blæðingar. Blóðið streymdi ekki aðeins úr nösum, stundum óstöðvandi, heldur og upp úr lungum, niður úr þörmum, upp úr maga og gegnum þvagrásina. Lungnabólgan kom, þótt menn lægju kyrrir í rúmunum og gættu allrar varúðar. Og þótt lungnabólgan rénaði, fór hjartað að ólmast, hræðsla greip menn og kvíði, þyngsli komu og andarteppa, menn bólgnuðu í andliti, á höndum og fótum og köfnuðu að lokum. Og svo eftir allt saman urðu líkin helblá. Þetta er það, sem gerði þessa inflúensusótt svo einkennilega og ægilegri en aðrar inflúensusóttir, sem ég hef séð“.

Gripið til fjöldagrafreita

Þann 9. nóvember var þeirra tíma þríeyki stofnað, sérstök hjúkrunarnefnd sem skipti borginni í þrettán hverfi og var hafið að ganga skipulega húsa á milli og sinna sjúklingum eftir bestu getu. Víða blasti við ömurleg sjón, til að mynda börn hjá látinni móður og fárveikum föður. Öll tiltæk lyf kláruðust, læknar unnu allan sólarhringinn og var gripið til að gefa læknanemum bráðabirgðaskírteini. Andlátin voru það hröð að koma var upp líkhúsum til bráðabirgða og þann 20. nóvember þurfti að jarðsetja fólk í fjöldagrafreitum.

Þáverandi landlæknir, Guðmundur Björnsson, var gagnrýndur fyrir að bregðast seint við en þegar veikin var skollinn á var gripið inn í til að vernda landsbyggðina. Í grein DV segir að ferðir yfir Jökulsá á Sólheimasandi hafi verið bannaðar og einnig yfir Holtavörðuheiði þar sem verðir gættu vegarins. Veikin breiddist hins vegar út á Vesturlandi og Vestfjörðum með skipum. Á Norður- og Austurlandi var sett á hafnbann og skip fengu ekki að koma að nema eftir tilskilinn tíma til að tryggja að veiran væri ekki um borð.

Haraldur sagði í viðtalinu að þar hafi um verið að ræða eitt af með fáum dæmum í veraldarsögunni þar sem tókst að hefta útbreiðslu heimsfaraldurs með því að hindra mannaferðir.

 Og nú hefur leikurinn vonandi verið endurtekinn.

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -