Karl Ágúst Úlfsson og allir Spaugstofumenn þakka landsmönnum kærlega fyrir allar þær kveðjur og lof sem þeir hafa hlotið undanfarna daga. Karl Ágúst hlaut heiðursverðlaun Eddunnar á dögunum ásamt félögum sínum Sigurði Sigurjónssyni, Erni Árnasyni, Pálma Gestssyni og Randveri Þorlákssyni.
Karl merki þá alla og skrifar á Facebook: „Elsku vinir. Við Spaugstofumenn erum djúpt snortnir og afar hrærðir yfir öllum kveðjunum, hamingjuóskunum og lofinu sem dunið hefur á okkur undanfarna daga í kjölfar þess að okkur var sýndur sá sómi sem heiðursverðlaun Eddunnar eru,“ skrifar Karl.
Að lokum deilir hann myndbandi sem má sjá hér fyrir neðan og segir: „Við þökkum þér af öllu hjarta, kæra þjóð við sjónvarpsskjáinn og ekki síður ykkur, ómetanlega fólk á bakvið tjöldin – án ykkar hefði fátt til okkar spurst. Hér er svolítil kveðja til ykkar allra.“