Starfsleyfi Creditinfo verði skoðað

Deila

- Auglýsing -

Neytendasamtökin og Alþýðusamband Íslands hafa sent umsögn til Persónuverndar þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir vegna starfsleyfis Creditinfo.

Í umsögninni kemur m.a. fram að Creditinfo haldi einu eiginlegu vanskilaskrá yfir einstaklinga á Íslandi og þá skrá nýta flestar innlendar lánastofnanir við afgreiðslu erinda. Skráningin er gerð með leyfi Persónuverndar.

Neytendasamtökin telja að skráning á svo viðkvæmum persónuupplýsingum ætti heldur að vera í höndum hins opinbera. Þar sem skráningin er í höndum einkafyrirtækis ætti að vera virkt og tryggt eftirlit með starfseminni.

Samtökin telja mikilvægt að viðskiptagrundvöllur Creditinfo verði skoðaður við endurskoðun á starfsleyfinu. Einkum er þar litið til að tryggt sé að Creditinfo hafi ekki beina verulega hagsmuni, svo sem fjárhagslega hagsmuni, af skráningu eða viðskiptum við innheimtufyrirtæki sem nýta sér heimild til skráningar á vanskilaskrá.

Óásættanlegt sé, og í meira lagi stórfurðulegt og öfugsnúið, að fyrirtækið hafi hugsanlega hag af brotum áskrifenda sinna en brjóti áskrifandi hjá Creditinfo gegn skilmálum starfsleyfisins hækkar áskriftargjald til Creditinfo. Segja samtökin að eðlilegra væri að sektin rynni til þess er brotið er á eða í ríkissjóð.

Telja samtökin brýnt að starfsleyfi Creditinfo verði afturkallað og að viðurlögum á borð við sektir verði beitt til að verja hagsmuni almennings. Af heimasíðu Persónuverndar megi ráða að allir úrskurðir Persónuverndar varðandi Creditinfo séu tilkomnir vegna kvartana þriðja aðila sem telji á sér brotið eða ábendinga utanaðkomandi aðila.

- Advertisement -

Athugasemdir