Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Stefán Bogi var í gullaldarliði ME í Gettu betur: „Svo er mér ennþá svolítið í nöp við MR“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stefán Boga Sveinsson kannast flestir Íslendingar við, að minnsta kosti yfir fertugu því hann var tíður gestur í spurningakeppnum í sjónvarpinu á árum áður. Þetta þýðir þó ekki að Stefán Bogi sé orðinn gamall maður því hann er aðeins rétt rúmlega fertugur. Í viðtali við Mannlíf segir hann okkur frá gullöld Menntaskólans á Egilsstöðum, pólitíkinni, Útsvari, skáldskapnum og fleiru áhugaverðu.

Við erum mjög hamingjusöm hérna

Hvernig var upphafið og hvernig komstu þangað sem þú ert núna?

„Ég kom í heiminn á Egilsstöðum 9. október 1980, í veðri sem ábyggilega hefði fengið einhvern litakóða ef það hefði verið búið að finna svoleiðis upp þá. Foreldrar mínir, Sveinn Guðmundsson og Sæunn Stefánsdóttir, voru þá bændur í Sellandi í Jökulsárhlið.

Seinna varð pabbi sveitarstjóri á Vopnafirði í nokkur ár áður en við fluttum síðan til Egilsstaða þar sem ég ólst upp. Ég gekk í Menntaskólann á Egilsstöðum en eftir ár sem skiptinemi í Ekvador lauk ég stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

Ég er mjög þakklátur henni fyrir að gefa því séns og við erum mjög hamingjusöm hérna.

Þaðan lá leiðin í lögfræði við Háskóla Íslands þaðan sem ég útskrifaðist 2006. Konan mín, Heiðdís Ragnarsdóttir, er Reykvíkingur og ég kynntist henni þar. Eftir að við hófum sambúð ákváðum við að flytja aftur á mínar heimaslóðir hér fyrir austan. Ég er mjög þakklátur henni fyrir að gefa því séns og við erum mjög hamingjusöm hérna. Við eigum þrjár dætur, Auðbjörgu Elfu, Ingu Hrafneyju og Álfrúnu Margréti sem eru 11, 8 og 3 ára.“

Stefán Bogi og fjölskyldan
Ljósmynd: Aðsend

Aftur á æskuslóðirnar

Þið hjónin fluttuð aftur á heimaslóðir þínar á Héraði, toguðu þær í þig, æskuslóðirnar?

- Auglýsing -

„Mér fannst gott að alast upp á Egilsstöðum. Ég vandist því að það væri margt sem væri hægt að gera og taka sér fyrir hendur í tómstundum. Ég var í tónlistarskóla, fór snemma að skrifa ljóð, var fastagestur á bókasafninu, æfði alls kyns íþróttir og á heilt yfir bara jákvæðar minningar af uppvextinum hérna. Enda vildi ég endilega koma aftur og setjast hér að.

Ég upplifi mjög sterkt að ég eigi mér rætur hér og tilheyri þessu samfélagi. Í því felst að ég hef notið góðs af því sem hér er að finna og þá sé ég líka skuldbundinn til að gefa til baka.“

Stefán Bogi á Skálanesi
Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson

Gullaldarár Menntaskólans á Egilsstöðum

Stefán Bogi var í bæði Morfís liði Menntaskólans á Egilsstöðum og Gettu betur liðinu á árunum fyrir aldarmótin en ME gekk óvenju vel á þessum árum. Hafa þessi ár stundum verið kölluð „gullaldarár“ ME, af þeim sem upplifðu tímabilið. Hvernig upplifðir þú þennan tíma Stefán Bogi?

- Auglýsing -

„Það er skemmtilegt hversu sterkt maður upplifir þennan tíma, einmitt sem gullöld. Ef maður lítur svo á þetta í stærra samhengi var þetta kannski ekkert svakalegur árangur en þó, þetta var langt umfram það sem gerst hafði í ME áður. Það fór þarna saman að við skólann var kennari sem hafði reynslu af Gettu betur og tók að sér þjálfun.

Ég keppti líka í Morfís og fyrra árið komumst við í undanúrslit þeirrar keppni, en lágum þar líka fyrir MR.

Síðan voru nokkrir sterkir keppendur sem voru þarna í skólanum á sama tíma og þetta small ágætlega saman. Bæði árin sem ég var í skólanum og liðinu fórum við í undanúrslit en máttum lúta í lægra haldi fyrir MR í bæði skiptin. Við velgdum þeim undir uggum í fyrra skiptið en steinlágum í það síðara. Sú keppni var haldin á Egilsstöðum og það eitt og sér var stórmál og mjög skemmtilegt. Þessi tími var magnaður.

Ég keppti líka í Morfís og fyrra árið komumst við í undanúrslit þeirrar keppni, en lágum þar líka fyrir MR. Þetta var ofboðslega mikið krydd í tilveruna þessi ár. Ferðalögin, félagsskapurinn og uppátækin í tengslum við þetta eru ógleymanleg og alls ekki öll prenthæf, ekki ennþá í það minnsta. Það sem eftir þetta situr er því heilmikið af jákvæðum minningum, vinir fyrir lífstíð og svo er mér ennþá svolítið í nöp við MR!“

Ánægður með stjórnmálaferilinn

Nú hefur Stefán Bogi verið viðriðinn bæjarpólitíkina fyrir austan í yfir áratug en hefur nú lagt bindið á hilluna ef svo má að orði komast. Hvað kom til að þú fórst út í pólitík til að byrja með? Já og hverju ertu helst stoltur af þegar þú lítur yfir öxl á stjórnmálaferilinn?

„Ég segi oft að ég hafi aldrei tekið ákvörðun um að fara í pólitík, það hefur bara alltaf verið hluti af lífi mínu. Ég var alltaf í framboði til nemendaráðs í grunnskóla og í framhaldsskóla settist ég líka í stjórn nemendafélagsins. Mér er þetta mjög eðlislægt, að taka þátt í félagsstarfi og gefa kost á mér til að leiða það með einum eða öðrum hætti.

Ég var virkur í ungliðahreyfingu Framsóknarflokksins meðan ég bjó fyrir sunnan og svo fljótlega eftir að ég flutti austur var haldið prófkjör og ég ákvað bara að taka stökkið og gefa kost á mér til að leiða listann. Mér fannst þetta bara allt býsna eðlilegt og sjálfsagt. Það endaði svo með því að ég varð forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs áður en ég varð þrítugur, en ég fann aldrei fyrir því að ég væri ungur í þessu þannig séð. Ég hafði fínan bakgrunn og held það hafi bara gengið ágætlega.

En það hefur allt sinn tíma. Ég er að verða búinn að sitja í sveitarstjórn í 12 ár og finnst það bara ágætur tími. Ég finn að ég er að þreytast á þessu, enda hafa verkefnin farið vaxandi eftir að sveitarfélagið stækkaði. Það má kannski segja að ég sé ánægðastur með það á mínum ferli í þessu hvað okkur hefur gengið vel að þróa og efla stjórnsýslu sveitarfélagsins og sveitarfélaganna á svæðinu með auknu samstarfi.

Stjórnmál verða ekki ævistarf nema örfárra einstaklinga

Þetta hafa verið stór verkefni og smá en það hefur alltaf verið þróun fram á við. Stofnun Austurbrúar sem sameiginlegrar stoðstofnunar fyrir Austurland var risastór áfangi og svo sameiningin núna síðast þegar Múlaþing varð til. Ég er mjög ánægður með þetta og svo sem margt fleira líka. Það er hins vegar ekki gott að verða þreyttur og útbrunninn í svona verkefni. Það þarf nýjar raddir og maður þarf líka að sinna öðru í sínu lífi. Ég hef áður sagt að ég ætli að hætta í pólitík meðan dætur mínar nenna ennþá að tala við mig. Það er svona alveg á mörkunum með þessa elstu! Vonandi næ ég því samt. Ég vil líka bara beina starfsorkunni að öðru. Stjórnmál verða ekki ævistarf nema örfárra einstaklinga og ég er ekki einn þeirra, af ýmsum ástæðum. En það er aldrei að vita hvort þetta mun kitla mig einhvern tíma aftur. Það kemur bara í ljós, en verður ekki næstu árin.“

Stefán Bogi Sveinsson
Ljósmynd: KOX

Frægðin bankar á dyrnar

Oft voru liðin þannig saman sett að einn átti að vera skemmtilegur á meðan hinir svöruðu spurningum.

Þegar spurningaþátturinn Útsvar leit dagsins ljós seint á fyrsta áratug aldarinnar lág beinast við að fá að minnsta kosti einn úr gullaldraliði ME til að keppa fyrir hönd Fljótsdalshéraðs. En hvernig var að stíga aftur á svið í spurningaþætti? Og fylgdi þessu ekki nokkur frægð?

„Það var ofboðslega gaman að taka þátt í Útsvari. Þar tókst mjög vel til með að búa til liðið, Þorsteinn Bergsson og systurnar frá Skjöldólfsstöðum, fyrst Urður og svo Ingunn Snædal voru frábærir liðsfélagar og hörku keppendur. Ég held það hafi einmitt munað um það að allir þrír í þessu liði voru fullgilt spurningakeppnisfólk.

Oft voru liðin þannig saman sett að einn átti að vera skemmtilegur á meðan hinir svöruðu spurningum. Þessu fylgdi líka smá „frægð“, fólk þekkti mann á götu, bæði í höfuðborginni og ekki síður á Akureyri. Það kom alveg fyrir að ókunnugt fólk vatt sér að manni og þakkaði fyrir skemmtunina. Það hefur dregið úr þessu auðvitað en ég er samt enn að rekast á fólk sem man eftir mér af þessum vettvangi og það er virkilega skemmtilegt.“

Hási Kisi lætur á sér kræla

En þá að enn öðru sviði sem þú hefur stigið á, skáldskapinn. Nú ertu flinkur penni og hefur gefið út ljóðabækur. Hefurðu verið að semja lengi? Og hver er þessi Hási Kisi sem maður hefur heyrt af?

„Ljóðagerðin hefur fylgt mér lengi. Ég samdi mitt fyrsta ljóð innan við 10 ára gamall og hef alltaf skrifað eitthvað. Ég kom fyrst út á bók í ljóðasafninu Raddir að austan sem kom út 1999 á vegum Félags ljóðaunnenda á Austurlandi. Síðan leið dálítill tími og þó ég skrifaði alltaf eitthvað, sérstaklega til að reyna að ganga í augun á stelpum, færðist eiginlega ekki alvara í þessi skrif fyrr en eftir að ég flutti aftur austur.
Þarna varð til smá pressa að framleiða efni til að hafa eitthvað að lesa fyrir þau hin og ég held það megi segja að upp úr þessu höfum við öll skilað af okkur ljóðabókum.
Þá bjuggu þarna líka vinir mínir Ásgrímur Ingi Arngrímsson, Hrafnkell Lárusson og Ingunn Snædal, sem öll höfðu lagt stund á ljóðagerð og Ingunn vel þekkt ljóðskáld. Okkur fannst við samt öll svolítið dofin í skrifunum og það varð úr að við stofnuðum klúbb sem síðar fékk nafnið Hási Kisi. Við höfum grínast með að þetta hafi verið nokkurskonar sjálfshjálparhópur. Við hittumst reglulega, drukkum mikið kaffi með rjóma, átum stundum hákarl og lásum fyrir hvert annað það sem við vorum að skrifa og gáfum hvert öðru ráð og sögðum kost og löst á efninu. Þarna varð til smá pressa að framleiða efni til að hafa eitthvað að lesa fyrir þau hin og ég held það megi segja að upp úr þessu höfum við öll skilað af okkur ljóðabókum.

Við strákarnir gáfum okkar bækur út sjálfir, en þó undir merki Hása Kisa, svo það nafn verður alltaf tengt okkur hvað þetta varðar, og þó svo að hópurinn hafi ekki hist lengi þá er bandið ekkert hætt. Við stóðum líka fyrir nokkrum upplestrarviðburðum, meðal annars á Menningarnótt í Reykjavík einu sinni. Það er aldrei að vita nema við gerum það einhvern tíma aftur.

En þetta varð sem sagt til þess að ég gaf út mína fyrstu ljóðabók árið 2014, sem heitir Brennur. Það var mér mikið metnaðarmál að gefa út bók og það var virkilega gaman að koma henni loksins frá sér. Ég get ekki sagt að hún hafi farið mjög hátt, enda verður maður eiginlega að skrúfa niður allar væntingar um slíkt ef maður ætlar að reyna að vera skáld. Það er svo ofboðslega sjaldgæft að skáld fái mikla viðurkenningu og ég hef séð alltof mörg frábær skáld sem lítið er gert með. Það væri bara heimtufrekja af versta tagi að ætlast til þess að eitthvað sé gert með það sem maður sjálfur er að bauka.

Eina leiðin til að endast í þessu er að skapa af eigin hvötum, senda sköpunarverkið út í umheiminn og gleðjast yfir vel unnu verki. Það er svo bara bónus ef einhverjum líkar það og sér ástæðu til að gefa klapp á bakið fyrir það.

Ég er síðan núna að vinna að handriti að nýrri bók sem ég stefni á að komi út á árinu. Það verður einhverskonar blanda af sögum og ljóðum reikna ég með

Ég gaf svo út síðari ljóðabókina mína, Ópus, árið 2018. Það var svolítið öðruvísi verkefni. Með bókinni fylgdi geisladiskur með upptökum af mér að flytja ljóðin við undirleik. Ég var svo ofboðslega heppinn að vinir mínir, þeir Jónas Sigurðsson og Ómar Guðjónsson, voru tilbúnir að vinna það verkefni með mér og ég trúi því varla ennþá að þetta hafi orðið að veruleika. Ég er ofboðslega stoltur af því verki og endalaust þakklátur öllum sem hjálpuðu mér að búa það til. Ég er síðan núna að vinna að handriti að nýrri bók sem ég stefni á að komi út á árinu. Það verður einhverskonar blanda af sögum og ljóðum reikna ég með.“

Kjölfestan í lífinu

Stefán Bogi hefur eins og segir hér áður, hætt í pólitíkinni en hvað er hann að fást við núna og hvað ber framtíðin í skauti sér? Ertu á góðum stað?

„Ég er nýlega tekinn við nýju starfi sem forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Mér líkar það óskaplega vel og ég held að í því geti ég sameinað reynslu og þekkingu sem annars virkar pínu brotakennd. Safnið er byggðasamlag svo reynslan úr sveitarstjórnarmálunum kemur sér vel.

Ég hef stundum glímt við andlegan heilsubrest í gegnum tíðina og það mun ég ábyggilega gera alla ævi.

Þá hefur safnið mikilvægu hlutverki að gegna við opinbera skjalavörslu stofnana á Austurlandi og þar er ekki verra að hafa lögfræðina á bak við sig þegar reynir á túlkun laga og reglna á þessu sviði. Síðan er starfið hálft í hvoru fræðilegs eðlis líka svo áhugi minn á sögu og menningu kemur í góðar þarfir. Þannig að ég er mjög bjartsýnn á að þarna hafi ég fundið mér framtíðarstarfsvettvang.

Síðan mun ég ábyggilega halda áfram að skrifa og skapa eins og ég get á meðan ég get. Ég finn það mjög sterkt að eftir fertugt er ég farinn að öðlast einhverja ró sem var ekki til staðar áður. Finn ekki lengur sömu þörfina fyrir að metast við aðra, keppa að einhverju marki. Hamingjan fæst ekki þannig held ég, heldur fyrst og fremst í því að hvíla í sjálfum sér, en ekki gleyma því að leika sér öðru hvoru og njóta sín.

Ég hef stundum glímt við andlegan heilsubrest í gegnum tíðina og það mun ég ábyggilega gera alla ævi. En ég held ég sé kominn á þann stað í lífinu að ég óttast ekki lengur að ég muni brotna undan því. Kjölfestan í lífi mínu er fjölskyldan, heimilið okkar og samfélagið. Með þessa kjölfestu eru mér síðan allir vegir færir í leik og starfi.“

Hér fyrir neðan má sjá Stefán Boga flytja ljóð úr Opus

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -