2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Stefnir á 300 kg í samanlögðu fyrir fimmtugt

Silja Bára Ómarsdóttir, dósent í alþjóðasamskiptum við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur stundað kraftlyftingar í fimm ár og segist hafa ánetjast sportinu. Hún æfir allt að fjórum sinnum í viku og segir að alltaf sé fjör á æfingum.

„Ég var að hefja í doktorsnám með vinnu og vissi að ég þyrfti að gæta þess að sinna líkamlegri heilsu, sem hefur oft setið á hakanum hjá mér. Ég spurðist fyrir um góðan einkaþjálfara og var bent á Ingimund í World Class á Seltjarnarnesi. Staðsetningin hentaði vel, hann tók vel á móti mér og nú æfi ég þrisvar til fjórum sinnum í viku, klukkutíma til tvo í senn,“ segir Silja Bára.

Kraftlyftingar gefa Silju Báru mikið og henni líður vel í þessu sporti. „Ég hef keppt einu sinni, ég lofaði sjálfri mér að ég myndi keppa eftir að ég skilaði doktorsritgerðinni, svo ég tók þátt í bikarmóti haustið 2017.“ Mynd / Aldís Pálsdóttir

Stór hópur æfir með Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur hjá Ingimundi og Silja segir sama á hvaða tíma hún mæti, alltaf sé skemmtilegt fólk á svæðinu, flest konur, á öllum aldri og víða að, svo sé alltaf fjör á æfingum. „Oftast finnst mér hnébeygjurnar skemmtilegastar, en það breytist oft – ég hef verið að leggja áherslu á bekkpressuna og þar sem ég finn framfarirnar þar hef ég mjög gaman af þeim í augnablikinu.“
Silja hefur tekið 110 kg í réttstöðulyftu, 100 kg í hnébeygju og 55 kg í bekkpressu og stefnir á að ná 60 kg núna í febrúar. „Ég hef keppt einu sinni, ég lofaði sjálfri mér að ég myndi keppa eftir að ég skilaði doktorsritgerðinni, svo ég tók þátt í bikarmóti haustið 2017, um hálfum mánuði eftir skil. Markmiðið var einfaldlega að gera gildar lyftur, og það tókst – og ég var ekki síðust á mótinu,“ segir hún brosandi. „Langtímamarkmiðið er að mig langar að ná 300 kg samanlögðu fyrir fimmtugt. Ég hef smátíma í það.“

„Ég var ekki viss um að ég gæti klárað doktorsritgerðina fyrr en ég kláraði mína fyrstu 100 kg réttstöðulyftu.“

Samheldið samfélag
Kraftlyftingar gefa Silju Báru mikið og henni líður vel í þessu sporti. „Ég hef aldrei verið fyrir hlaup gefin en þetta byggir upp þol og styrkir beinin. Ef þú ætlar ekki að meiða þig við að gera lyfturnar vitlaust þá þarftu að vera á staðnum, svo ég skil vinnuna eftir í þessar 90 mínútur eða svo sem ég er í lyftingasalnum. Svo er þetta mjög mælanlegt – ég veit hvort ég er að bæta mig milli vikna og mánaða, sem er gott upp á markmiðasetningu og aðhald. Og ég fullyrði að ég var ekki viss um að ég gæti klárað doktorsritgerðina fyrr en ég kláraði mína fyrstu 100 kg réttstöðulyftu,“ segir hún.

AUGLÝSING


Silja Bára reynir einnig að mæta í jóga eða teygjutíma einu sinni í viku, hún gengur oftast í vinnu og fer í sund af og til. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Að auki reynir hún að mæta í jóga eða teygjutíma einu sinni í viku, gengur oftast í vinnu og fer í sund af og til. Hún segist líta upp til margra kvenna sem hún æfir með. „Sigþrúður Erla og Dagmar, sem eru eldri en ég og keppa á heimsklassa eru algjörar fyrirmyndir, en almennt finnst mér bara gaman að vera í þessu samfélagi. Það var ein úr KFR að keppa á Reykjavík International Games um daginn og ég held að við höfum verið að minnsta kosti 20 sem mættum til að hvetja hana áfram. Svo taka meðlimirnir líka þátt í að byggja upp sportið, Hulda Elsa er til dæmis formaður Kraftlyfingasambands Íslands og þegar félagið heldur mót mæta allir að leggja sitt af mörkum.“

„Ég hef stöku sinnum fengið tak í mjóbakið og einu sinni eftir að ég datt á hjóli gat ég ekki verið mikið í hnébeygjunum. Ef iðkendur eru meðvitaðir í hreyfingunum virðist mér meiri líkur á að meiða sig við að missa lóð á tærnar en við æfingarnar sjálfar.“ Mynd / Aldís Pálsdóttir

Meiri hætta á meiðslum við að missa lóð á tærnar
Hún segir að kraftlyftingar henti mörgum. Fólk sem er alls konar í laginu með mismikð þol og styrk geti auðveldlega fetað sig áfram. „Ég myndi bara gæta þess að fara á námskeið eða vera með þjálfara því ef fólk gerir ekki lyfturnar rétt er auðvelt að fara of geyst. Af og til reynir maður of mikið á sig, missir jafnvægið kannski eða einbeitinguna og þarf að kalla eftir aðstoð. Þess vegna er mikilvægt að vera ekki ein í salnum. Ég hef stöku sinnum fengið tak í mjóbakið og einu sinni eftir að ég datt á hjóli gat ég ekki verið mikið í hnébeygjunum. Ef iðkendur eru meðvitaðir í hreyfingunum virðist mér meiri líkur á að meiða sig við að missa lóð á tærnar en við æfingarnar sjálfar.“
Henni finnst gaman að sjá hvað sportið er að verða vinsælt víða um land. „Litla frænka mín fyrir norðan var til dæmis að keppa á sínu fyrsta móti 16 ára gömul og er mjög efnileg,“ segir Silja að lokum.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is