Fimmtudagur 25. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Steinþór lést við gosrannsóknir – „Þá sá ég að eitthvað logaði þar sem ég bjóst við að hann væri“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það hörmulega slys gerðist í Hekluhrauni í nóvember árið 1947 að Steinþór Sigurðsson varð fyrir stórum hraunsteini sem valt fram af hraunbrún og beið hann samstundis bana.

Steinþór var jarðfræðingur við rannsóknarstörf á svæðinu og var hann að kvikmynda við einn hraunfossinn þegar glóandi hraunhella steyptist fram af brún á miklum hraða og lenti á honum.

Steinþór hafi verið rannsóknir á svæðinu ásamt Einari Baldvini Pálssyni, verkfræðingi. Voru þeir fyrstir manna upp að gosstöðvum Heklu í mars það sama ár ásamt Jóhannesi Áskelssyni. Þá hafði Hekla ekki gosið í ríflega 100 ár og enginn þálifandi maður séð logandi hraun streyma úr eldgígum.

Eldgos lítið rannsökuð

Einar rifjaði upp síðar að Steinþór hafi haft til umráða jeppa sem forstjóri Rannsóknarráðs ríkisins og fóru þeir félagar austur ásamt Árna Stefánssyni, verkstjóra á tveimur jeppum. Ætluðu þeir að kynna sér stöðuna á hrauninu en Steinþór hafði fylgst vel með því frá fyrsta degi og höfðu þeir farið í gegnum margar svaðilfarir því að gosið hófst. Þeir komust á bílunum norður fyrir Heklu, inn á Landmannaleið, um fimm kílómetra frá gígnum. Þar festu þeir bílana í snjó og tjölduðu á milli jeppanna. „Við gerðum það með fyrir augum að við gætum skriðið undir þá og komist upp ef til þess kæmi að vindáttin breyttist og vikri tæki að rigna yfir okkur,“ sagði Einar síðar.“

Á þessum tíma var ekkert skipulag til staðar kæmi til eldgoss, þau höfðu ekki verið rannsökuð enda hafði lítið verið um gos á fyrri helmingi aldrarinnar. Einnig voru menn vanbúnir til ferða á þessum tíma og áttu afar fáir faratæki í slíkar ferðir.  „Ég sá fyrsta daginn Heklugosið í nálægð. Ótrúlegan gosmökkinn, logandi hraunelfina renna fram og loks sálir framliðinna dansa í logandi gossúlunni,“ segir Einar síðar.

- Auglýsing -

Honum voru þessi atburðir í fersku minni alla tíð, enda urðu atburðirnir í kringum þetta Heklugos mikil lífsreynsla fyrir hann og að lokum hörmuleg.

Var kviknað í fötum hans

Steinþór, Einar og Árni héldu upp að Hraungíg þann 2. nóvember ásamt Rögnu Ófeigsdóttur í Næfurholti, sem hafði slegist í för. „Við skoðuðum gíginn sem hraunið rann úr, það var gaman að sjá hreyfingarnar á hrauninu frá brún gígsins sem við stóðum á. Steinþór var með kvikmyndatökuvél og myndaði hann hraunstrauminn. Svo fór Ragna og nokkru síðar lagði Árni Stefánsson af stað niður fjallið.

- Auglýsing -

Það var síðan upp úr kl. 16 að Steinþór og Einar fara að búa sig til heimferðar. Biður Steinþór þá Einar að hinkra aðeins við því hann vilji ná mynd af hraunrennsli ekki langt frá hraunkanti, suðaustur af Heklu.

„Ég settist niður og beið á meðan hann fór að mynda en sá ekki til, því mishæð var á milli okkar. Svo fór mig að lengja eftir honum og tók að svipast um. Þá sá ég að eitthvað logaði þar sem ég bjóst við að hann væri. Hann lá þar og það var kviknað í fötunum hans. Ég hljóp til hans og kastaði mér yfir hann til þess að kæfa eldinn í fötunum yfir brjósti hans. Þegar ég gætti betur að sá ég að hann var dáinn. Örlítill blóðstraumur vætlaði út úr munnviki hans.”

Hjartað slitnaði frá æðum

Steinþór hafði fengið stóran stein á brjóstið og við krufningu kom í ljós að höggið hafði verið svo gríðarlegt að hjartað slitnaði frá æðunum. Hann mun hafa látist samstundis.  Myndavélin hafði kastast frá og þegar hún var skoðuð síðar kom í ljós að allstór steinn hafði ætt niður hlíðina og farið á Steinþór. Svo virðist sem hann hafi ofmetið fjarlægð steinsins þegar hann horfði á í gegnum linsu vélarinnar, sem gerði allt minna en það var.

Einar byrjaði að hrópa í örvæntingu sinni og bar þá að Árna og Rögnu auk tveggja skáta sem höfðu verið á svæðinu. Fóru þau á jeppanum að hringja eftir eftir hjálp og klambra saman börum til að bera Steinþór niður en Einar varð eftir hjá Steinþóri. Einar segir langan tíma hafa liðið. „Ég þurfti að flytja hann til svo hraunið kæmi ekki á hann. Ég var í góðu formi og gat borið hann í snjónum en það var mjög erfitt. Loks um miðja nótt komu Árni og menn með honum til okkar.”

Samtímaheimildir herma að það hafi tekið 16 manns að skiptast á að bera Steinþór að sjúkrabílnum og var leiðin erfið, bæði var svartamyrkur auk þess sem ekki var unnt að ganga á nýju hrauni. Steinþór mun hafa verið fyrsti íslenski vísindamaðurinn sem lét lífið við náttúrurannsóknir. Fráfall hans var vísindasamfélaginu mikill harmadauði enda hafði hann verið frumkvöðull í eldgosarannsóknum og drengur góður.

Einar Baldvin lést árið 2012, tæplega 100 ára gamall.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -