Þriðjudagur 23. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Stella Samúelsdóttir um orð Maríu Lilju: „Ég vísa því alfarið á bug að þetta hafi ekki áhrif“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Framkvæmdastjóri UN Women á Íslandi segir lítið hæft í þeirri gagnrýni að viðburðurinn Milljarður rís sé tilgangslaus sýndarviðburður fyrir þotulið. Þvert á móti varpi hann kastljósi á ýmis knýjandi málefni og hvetji almenning til að taka afstöðu gegn ofbeldi.

„Við skulum átta okkur á því að list er oft notuð í mótmælaskyni, dans þar á meðal,“ segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, spurði út í ummæli Maríu Lilju Þrastardóttur, sem hefur gagnrýnt viðburðinn harðlega á samfélagsmiðlum og kallað hann „partí fyrir þotulið sem hefur tök á að skreppa lauflétt úr vinnunni um miðjan dag til að dansa“. „Við skulum hafa hugfast að með þessu er verið að sýna samstöðu með fólki sem hefur orðið fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, verið að taka afstöðu gegn kynbundnu ofbeldi, þannig að þótt það sé verið að dansa þá er undirtónninn háalvarlegur.“

Stella segir að auk þessi megi ekki gleyma að viðburðurinn sé nýttur til að varpa kastljósi á ýmis knýjandi málefni. Þannig hafi Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, mætt í fyrra og sagt frá erfiðri reynslu sinni af Klausturmálinu. Árið áður hafi konur, sem eru af erlendu bergi brotnar, tekið til máls og deilt reynslu sinni af metoo-byltingunni. Í ár verði einblínt á stafrænt ofbeldi sem sé vaxandi vandamál sem Ísland og önnur lönd hafa verið sein að grípa til aðgerða gegn. „Þetta er líka vettvangur fyrir ungt fólk til ræða öll þessi mál og ýmislegt fleira,“ bendir hún á. „Sem er mikilvægt ekki síst í ljósi þess að við höfum verið að heyra að það vanti að þau séu rædd í samfélaginu. Við þurfum auðvitað að taka samtalið og þetta er ein leið af mörgum. Þannig að ég vísa því alfarið á bug að þetta hafi ekki áhrif.“

Hún bætir við að auk þess taki staðirnir, sem haldi viðburðinn, ekkert fyrir en þeim fjölgi ár frá ári og listamenn og aðrir sem komi að viðburðinum gefi allir vinnu sína með einum eða öðrum hætti. „Svo notum við þetta oft sem fjáröflun og peningarnir sem safnast renna þá beint til verkefna UN Women sem ganga út á að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum,“ segi hún.

Eins og kunnugt er stóð til að halda Milljarður rís milli klukkan 12.15-13.00. Til stóð að dansað yrði þrettán stöðum víðs vegar um landið, en aldrei höfðu jafn margir viðburðir verið skipulagðir hér á landi og í ár. Í ljósi vonskuveðurs um land allt var hins vegar ákveðið að blása viðburðinn af og fresta honum. Spurð hvort komin sé tímasetning á viðburðinn, svarar Stella því búið sé að ákveða að halda hann í Hörpu á mánudag klukkan 12.15. Að sama skapi verði dansað í Frystiklefanum Rifi, Menntaskólanum Egilsstöðum, Fosshóteli Húsavík, Ungmennahúsinu Reykjanesbæ, Félagsheimilinu á Hólmavík, Herðubreið á Seyðisfirði, íþróttahúsinu við Vallaskóla Selfossi, í Kvikunni Grindavík og íþróttamiðstöðinni Djúpavogi. Hægt sé að fylgjast með framvindu mála á Fésbókarsíðu UN Women á Íslandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -