Fimmtudagur 22. september, 2022
9.1 C
Reykjavik

„Stjórn Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda harmar þá stöðu sem upp er komin“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Stjórn SÍK harmar niðurskurð í fjárlögum og lýsir yfir vonbrigðum með ummæli ráðherra Yfirlýsing SÍK vegna niðurskurðar til kvikmyndasjóða,“ segir í tilkynningu frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda.

Þar segir einnig:

„Í framhaldi af fjölmiðlaumfjöllun í vikunni um niðurskurð til kvikmyndasjóða í fjárlögum vill stjórn Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK, koma eftirfarandi á framfæri:

Stjórn Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda harmar þá stöðu sem upp er komin í kvikmyndaiðnaði, þar sem boðaður er niðurskurður í frumvarpi til fjárlaga 2023 sem gengur þvert gegn Kvikmyndastefnu stjórnvalda til ársins 2030. SÍK ásamt öðrum hagaðilum greinarinnar í samráði við stjórnvöld hefur lagt mikla vinnu í gerð heildstæðrar stefnu fyrir íslenska kvikmyndagerð sem ætlað er að styrkja íslenska menningu, tungu og samfélag.“

Einnig er komið inná að „niðurskurðurinn sem boðaður er til kvikmyndasjóða í frumvarpi til fjárlaga 2023 nemur 433 milljónum króna og mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir framleiðslu verkefna sem eru þýðingarmikil í listrænu og menningarlegu sambandi.

Aðgerðirnar ganga í berhöggi við Kvikmyndastefnu til ársins 2030 þar sem lögð er áhersla á varðveislu íslenskrar tungu, menningu, sjálfsmynd þjóðarinnar, eflingu íslensks atvinnulífs og sterkt orðspor Íslands. Það er ljóst að sterkara sjóðakerfi sem styður við fjölbreytt íslensk kvikmyndaverk og setning nýs styrkjaflokks fyrir sjónvarpsþáttargerð er forgangsverkefni innan Kvikmyndastefnunnar enda tilgreint sem fyrsta aðgerð í annars metnaðarfullri áætlun. Sá niðurskurður sem boðaður er mun þvert á móti hafa þær afleiðingar í för með sér að færri kvikmyndaverk verða framleidd og sérstakur styrkjaflokkur vegna gerðar sjónvarpsþátta mun ekki líta dagsins ljós.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. Samsett mynd.
- Auglýsing -

Í þessu samhengi lýsir SÍK einnig „yfir vonbrigðum með ummæli menningar- og viðskiptaráðherra sem viðhöfð voru í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem ráðherra gaf til kynna að gagnrýnin byggði á misskilningi innan greinarinnar, um að viðbótarframlög til kvikmyndasjóða hefðu komið til vegna fjárfestingarátaks í tengslum við heimsfaraldur Covid-19.

Hið rétta er að viðbótarinnspýting í kvikmyndasjóði var ákveðin í tengslum við eftirfylgni Kvikmyndastefnunnar. Fyrirsjáanleiki í stuðningsumhverfi kvikmyndaiðnaðar skiptir sköpum. Ákvarðanir um fjárfestingu í verkefnum eru teknar á grundvelli opinberra vilyrða og áætlana.“

Að lokum er bent á að „um er að ræða verulegar fjárfestingar í hverju verkefni en ferli kvikmyndaverkefna frá hugmynd til sýningar telur oft á tíðum í fjölda ára. Það skiptir því verulegu máli að samræmi sé í opinberum yfirlýsingum og stefnum og svo aðgerðum, til að mynda fjárlögum.

- Auglýsing -

Stjórn sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda á nú í samtali við menningar- og viðskiptaráðuneytið og ráðherra menningar- og viðskipta vegna stöðunnar sem upp er komin og vonast til þess að stjórnvöld bregðist við ákalli greinarinnar og endurskoði umræddan fjárlagalið.

SÍK væntir áframhaldandi uppbyggilegs samtals við menningar- og viðskiptaráðherra um málið á næstu dögum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -