Stjórnmálaflokkum boðið að kaupa umfjöllun um pólitískt hitamál

Deila

- Auglýsing -

DV bauð þeim stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi að kaupa umfjöllun um þriðja orkupakkann sem er eitt heitasta deilumálið í pólitíkinni um þessar mundir. Slíkt tilboð er líklegt til að brjóta í bága við siðareglur blaðamanna.

Mannlíf hefur undir höndum töluvpóst frá markaðsráðgjafa Frjálsrar fjölmiðlunar, sem gefur út DV, og sendur var á framkvæmdastjóra stjórnmálaflokkanna. Í póstinum er greint frá því að DV hyggist ráðast í útgáfu sérblaðs um þriðja orkupakkann sem gefið verður út þann 3. maí. Í póstinum segir jafnframt:

“Hægt er að vinna þetta á tvo vegu. Annar er að þið skrifið ykkar kynningu og sendið okkur inn til birtingar. Eða blaðakona frá okkur hefur samband og skrifar kynninguna frá ykkur. Þetta verður flott umfjöllun þar sem flokkar gera kynnt sína afstöðu gagnvart 3. Orkupakkans og gert grein fyrir plúsum eða mínusum.”

Heilsíðu umfjöllun er verðlögð á 70 þúsund krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt heimildum Mannlífs ræddu framkvæmdastjórarnir tilboð DV sín á milli og settu fulltrúar Sjálfstæðisflokks, VG, Pírata og Samfylkingar strax fram afdráttarlausa afstöðu um að ekki væri verjandi að ganga að þessu tilboði. Mannlífi er ekki kunnugt um afstöðu annarra flokka.

Ef siðareglur Blaðamannafélags Íslands eru skoðaðar er ljóst að tilboð DV er á mjög gráu svæði. Í 5. grein, sem fjallar um hagsmunaágreining, segir meðal annars:

„Blaðamaður hefur í skrifum sínum sannfæringu sína að leiðarljósi. Hann gætir þess að rugla ekki saman ritstjórnarlegu efni, sem hefur augljóst upplýsinga- og fræðslugildi, og auglýsingum í myndum og/eða máli.“

Visir, sem greindi fyrst frá málinu, hefur eftir Einari Þór Sigurðssyni sem er starfandi ritstjóri DV að málið hafi aldrei komið inn á borð ritstjórnar. Var Einari ekki kunnugt um að til stæði að gefa út umrætt sérblað og sjálfur segist hann þeirrar skoðunar að tilboðið orki tvímælis.

Það er í sjálfu sér ekki nýtt að fjölmiðlar birti kostaðar umfjallanir í sérstökum sérblöðum en þá eru slíkar umfjallanir tengdar sölu á varningi og/eða þjónustu og merktar sem slíkar. Fáheyrt er að fjölmiðlar bjóði upp á kostaðar umfjallanir um pólitísk efni.

- Advertisement -

Athugasemdir