Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Stjórnmálamenn samþykkja siðareglur: „Þiggja ekki gjafir nema að um sé að ræða óverulegar gjafir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í síðustu viku samþykkti – á fundi sínum – bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa.

Í reglunum er fjallað um valdmörk, trúnað, hagsmunaárekstra, starfsskyldur, gjafir, fríðindi og stöðuveitingar.

Með nýju siðreglunum er skráð sem og skilgreind sú háttsemi sem kjörnir fulltrúar vilja sýna af sér við sín störf; þeir lýsa því yfir með undirskrift að þeir ætli að hafa siðareglurnar að leiðarljósi.

Með þessu gæta kjörnir fulltrúar þess að við stöðuveitingar hjá Ísafjarðarbæ séu eingöngu málefnalegar forsendur að baki vali og ráðningu á starfsmönnum sveitarfélagsins.

Kemur fram að að kjörnir fulltrúar skuli ekki þiggja gjafir, fríðindi né önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum og/eða þeim sem leita eftir þjónustu Ísafjarðarbæjar; nema að um sé að ræða óverulegar gjafir; kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir né fríðindi eða önnur hlunnindi, ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða og/eða sérstaka þjónustu.

Fulltrúunum ber að forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum; og vekja athygli á því ef hætta er á þannig árekstrum.

- Auglýsing -
Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Isafjarðarbæjar

Hér að neðan má lesa siðareglurnar nýsamþykktu:

SIÐAREGLUR kjörinna fulltrúa í Ísafjarðarbæ

1. gr. Markmið siðareglnanna Í reglum þessum er skráð og skilgreind sú háttsemi sem kjörnir fulltrúar vilja sýna af sér við öll sín störf. Með kjörnum fulltrúum er í reglum þessum átt við bæjarfulltrúa og alla aðra sem kjörnir eru til setu í nefndum og ráðum Ísafjarðarbæjar, reglurnar ná einnig til áheyrnarfulltrúa eftir því sem við getur átt.

- Auglýsing -

2. gr. Starfsskyldur kjörinna fulltrúa Kjörnir fulltrúar gegna störfum sínum af samviskusemi og heiðarleika. Í störfum sínum er kjörinn fulltrúi bundinn af lögum, reglum og samþykktum Ísafjarðarbæjar, sem og sannfæringu sinni. Kjörnir fulltrúar hafa ávallt í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæi í ákvarðanatöku og hafa hagsmuni Ísafjarðarbæjar að leiðarljósi í öllum störfum sínum. Kjörnir fulltrúar hafa eftirlit með rekstri Ísafjarðarbæjar og gæta þess að framkvæmd stjórnsýslu og rekstrar sveitarfélagsins sé ávallt í samræmi við þau lög og reglugerðir sem við eiga hverju sinni. Kjörnum fulltrúum ber að virða trúnaðarskyldu sína gagnvart málum sem samkvæmt lögum krefjast þagmælsku. Í öðrum málum skulu þeir starfa fyrir opnum tjöldum og vera reiðubúnir að svara fyrir verk sín.

3. gr. Valdmörk Kjörnir fulltrúar gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Ísafjarðarbæjar. Þeir sýna störfum og réttindum annarra kjörinna fulltrúa og starfsmanna Ísafjarðarbæjar virðingu í ræðu, riti og framkomu. Bæjarfulltrúar mega ekki hlutast til um að starfsmenn geri neitt það sem hefur þann tilgang að verða kjörnum fulltrúum á beinan eða óbeinan hátt til persónulegs ávinnings, né heldur aðila nátengdum þeim eða ákveðnum hópum eða fyrirtækjum, sem þeir tengjast.

4. gr. Trúnaður Í störfum sínum í nefndum og ráðum fá kjörnir fulltrúar oft vitneskju sem leynt á að fara vegna einkahagsmuna eða almenningshagsmuna samkvæmt lögum eða eðli máls. Um slíka vitneskju ber kjörnum fulltrúum að gæta þagmælsku og trúnaðar. Trúnaðurinn helst áfram eftir að kjörnir fulltrúar láta af störfum. Kjörnir fulltrúar virða trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á lokuðum fundum í nefndum og ráðum Ísafjarðarbæjar og á öðrum lokuðum fundum sem varða störf þeirra í bæjarstjórn, sem og um innihald skjala eða annarra gagna, sem þeir fá aðgang að vegna starfa sinna og trúnaður skal vera um.

5. gr. Hagsmunaárekstrar Kjörnir fulltrúar forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum og vekja athygli á því ef hætta er á slíkum árekstrum. Á þetta einnig við ef þær breytingar verða á högum kjörins fulltrúa, að valdið gætu slíkum hagsmunaárekstrum. Um hæfi þeirra við meðferð einstakra mála fer eftir 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Kjörnir fulltrúar nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra sem eru þeim tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum fyrir Ísafjarðarbæ lýkur.

6. gr. Gjafir og fríðindi Kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim, er leita eftir þjónustu Ísafjarðarbæjar, nema að um sé að ræða óverulegar gjafir. Kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.

7. gr. Stöðuveitingar Kjörnir fulltrúar gæta þess að við stöðuveitingar hjá Ísafjarðarbæ liggi einungis málefnalegar forsendur að baki vali á starfsmönnum.

8. gr. Miðlun siðareglna til kjörinna fulltrúa, embættismanna og almennings Kjörnir fulltrúar undirgangast þessar siðareglur með undirskrift sinni og lýsa því þar með yfir að þeir ætli að hafa þær að leiðarljósi. Siðareglurnar skulu vera aðgengilegar starfsfólki sveitarfélagsins, almenningi og fjölmiðlum á heimasíðu Ísafjarðarbæjar og annan þann hátt sem sveitarstjórn ákveður til að þessir aðilar geti gert sér grein fyrir meginreglum þeirra.

Þannig samþykkt á 497. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 1. september 2022

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -