Stjörnurnar í Beverly Hills 90210: Hvar eru þær núna?

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Bandarísku unglingaþættirnir Beverly Hills 90210 voru gríðarlega vinsælir um heim allan á tíunda áratug síðustu aldar. Þættirnir hófu göngu sína í október árið 1990 en áhorfstölurnar voru afleitar til að byrja með. Það var svo ári síðar sem mikill áhugi á þáttunum kviknaði og náðu þeir að halda vinsældum sínum nánast þar til síðustu seríunni lauk árið 2000.

Það má með sanni segja að leikararnir í þáttunum hafi verið áhrifavaldar síns tíma og náði til að mynda klæðaburður þeirra að móta fataval heillar kynslóðar. En hvar eru Beverly Hills 90210-stjörnurnar í dag? Mannlíf fór á stúfana og kannaði málið.

Jennie Garth

Jennie lék Kelly Taylor og var aðeins átján ára þegar serían hóf göngu sína. Í dag er Jennie 46 ára og hefur unnið mikið við sjónvarp, til dæmis í þáttunum What I Like About You. Hún birtist sjónvarpsáhorfendum síðan aftur sem Kelly Taylor þegar sjónvarpsrásin CW gerði framhald af Beverly Hills 90210 sem hét einfaldlega 90210 og gekk frá árinu 2008 til 2013.

Jennie er þrígift, fyrst árið 1994 til 1996 tónlistarmanninum Daniel B. Clark. Árið 2001 giftist hún síðan leikaranum Peter Fanicelli en því hjónabandi lauk árið 2013. Tveimur árum síðar giftist hún leikaranum David Abrams en þau skildu fyrir stuttu. Jennie á þrjár dætur með Peter Facinelli.

Tori Spelling

Tori lék hina einlægu Donnu Martin, bestu vinkonu Jennie. Tori sneri líka aftur í framhaldsþættina 90210, en þó styttra en vinkona sín. Tori er dóttir framleiðanda þáttanna um Beverly Hills-gengið, Aaron Spelling. Aaron þessi lést árið 2006 og þá var því haldið fram að Tori myndi erfa auðæfi hans, um 500 milljónir dollara. Móðir hennar, Candy, og hún voru ekki í góðu sambandi og Candy sá um að skipta búinu. Á endanum fékk Tori aðeins átta hundruð þúsund dollara í sinn hlut, en talið er að Candy hafi lagt tíu milljónir dollara í námssjóð fyrir elsta barn Tori, Liam.

Tori giftist leikaranum Charlie Shanian árið 2004. Ári síðar var leikkonan við tökur á sjónvarpsmyndinni Mind Over Murder og kynntist leikaranum Dean McDermott, sem var þá kvæntur leikkonunni Mary Jo Eustace. Tori og Dean felldu hugi saman og hófu að halda við hvort annað. Tori skildi síðan við Charlie í október það ár og Dean við sína konu í apríl árið 2006. Minna en mánuði eftir að sá skilnaður gekk í gegn létu þau Dean og Tori pússa sig saman á Fiji. Þau eiga fimm börn saman: Liam Aaron, Stella Doreen, Hattie Margaret, Finn Davey og Beau Dean, sem kom í heiminn í mars í fyrra. Þá á Dean eitt barn með fyrrnefndri Mary Jo, soninn Eustace.

Shannen Doherty

Shannen Doherty lék hina prúðu Brendu Walsh í þáttunum en var alræmd fyrir slæma heðgun utan skjásins. Þá var mikið skrifað um illindi á milli Shannen og hinna leikaranna, þá sérstaklega Jennie Garth. Framleiðendur þáttanna staðfestu að hún væri erfið á setti og var karakterinn hennar skrifaður út úr þáttunum árið 1994 eftir fjórar seríur.

Shannen hefur verið mjög opin með þá staðreynd að hún greindist með brjóstakrabbamein árið 2015. Nýverið lét hún byggja brjóst sitt upp aftur eftir brjóstnám og tilkynnti það á samfélagsmiðlum.

Shannen er gift framleiðandanum Kurt Iswarienko en þau gengu í það heilaga árið 2011.

Jason Priestley

Jason lék bróður Shannen Doherty í imbakassanum, sjálfan hjartaknúsarann Brandon Walsh. Jason hefur verið duglegur að leika síðan Beverly Hills-serían hætti og hefur einnig reynt fyrir sér sem leikstjóri nokkurra þátta af kómísku dramaseríunni Private Eyes.

Jason hefur tvívegis verið nær dauða en lífi, fyrst eftir að hann keyrði á vegg í kappakstursbíl árið 2002 og síðan þegar hestur kastaði honum af baki við tökur á The Code árið 2015.

Jason er búinn að vera kvæntur Naomi Lowde síðan 2005 og saman eiga þau þrjú börn.

Luke Perry

Mesti hjartaknúsarinn í seríunni var þó óumdeilanlega Dylan McKay sem leikinn var af Luke Perry. Skemmtilegt er að segja frá því að Luke fór upprunalega í prufu fyrir hlutverk Steve Sanders, sem var leikinn af Ian Ziering.

Luke hætti í Beverly Hills 90210 árið 1995 til að leita að meira gefandi hlutverkum í leiklistinni. Hann sagðist aldrei ætla að snúa aftur í þættina en gerði það samt þremur árum síðar vegna peningavandræða. Hann sagði þó nei við því að snúa aftur í framhaldsþættina, eingöngu út af því að Aaron Spelling var ekki framleiðandi þeirra.

Í dag er Luke 51 árs og leikur í hinum gríðarvinsælu þáttum Riverdale. Hann var giftur Rachel Minnie Sharp á árunum 1993 til 2003 og saman eiga þau tvö börn, Jack og Sophie. Þau deila með sér forræði yfir þeim.

Brian Austin Green

Brian var aðeins sautján ára þegar hann setti sig í spor David Silver í Beverly Hills-genginu. Síðan þá hefur hann komið víða við, og leikið hvað mest í sjónvarpi, þar á meðal í þáttunum Anger Management, Smallville og Desperate Housewives.

Brian blandaði vinnu og einkalífi saman við tökur á Beverly Hills 90210 og átti hann og Tiffani Thiessen í haltu-mér-slepptu-mér sambandi um nokkurt skeið. Þá á hann barn með leikkonunni Vanessu Marcil, sem lék Ginu Kincaid í níundu og tíundu seríu. Sá fæddist í mars árið 2002 og heitir Kassius.

Brian kynntist núverandi eiginkonu sinni, leikkonunni Megan Fox árið 2004 þegar hann var þrítugur en hún átján ára. Tveimur árum síðar trúlofuðu þau sig en slitu henni árið 2009. Ári síðar trúlofuðu þau sig á nýjan leik og gengu í það heilaga stuttu síðar. Svo skildu þau árið 2015 en tóku aftur saman ári síðar. Þau eiga þrjá syni saman: Noah Shannon, Bodhi Ransom og Journey River.

Tiffani Thiessen

Tiffani lék fjölskylduvin Brendu og Brandons, Valerie Malone. Valerie átti erfiða æsku og glímdi því við alls kyns djöfla í þáttunum. Tiffani var góð vinkona Tori Spelling og Jennie Garth þar til þær síðarnefndu ákváðu að tala illa um hana í þætti af RuPaul’s Drag Race.

Tiffani vegnar vel og stýrir þættinum Dinner at Tiffani’s á Cooking Channel.

Hún hefur átt við ýmsa erfiðleika að glíma í einkalífinu og gekk í gegnum mjög erfiða tíma árið 1999 þegar kærasti hennar, leikarinn David Strickland framdi sjálfsmorð. Árið 2005 gekk hún að eiga leikarann Brady Smith og eiga þau tvö börn saman: dótturina Harper og soninn Holt.

Ian Ziering

Ian lék hinn skemmtilega og hressa Steve Sanders í þáttunum sem var hvers manns hugljúfi.

Í dag er Ian 54 ára gamall og hefur gert það gott í sjónvarpsmyndunum Sharknado ásamt leikkonunni Töru Reid.

Þá er hann líka stoltur Chippendales-dansari og hafa meðleikarar hans í Beverly Hills 90210 komið á sýningar til að sjá hann fækka fötum.

Ian kvæntist Playboy-fyrirsætunni Nikki Schieler í júlí árið 1997 en þau skildu í febrúar árið 2002. Árið 2010 trúlofaðist hann Erin Ludwig og þau giftu sig það sama ár. Þau eiga tvær dætur saman: Miu Loren og Pennu Mae.

Gabrielle Carteris

Gabrielle lék Andreu Zuckerman í þáttunum og er elst af þessum aðalstjörnum þáttanna. Hún var 29 ára þegar byrjað var að sýna þættina, sem var harðlega gagnrýnt á sínum tíma þar sem krakkarnir áttu að vera í miðskóla.

Í dag er Gabrielle 57 ára og berst ötullega gegn aldursfordómum í Hollywood. Leikkonan, sem hefur talað inn á ýmsar teiknimyndir og tölvuleiki, skrifaði pistil í The Hollywood Reporter fyrir nokkru síðan þar sem hún krafðist þess að aldur væri fjarlægður af kvikmyndasíðunni IMDb.

Gabrielle giftist verðbréfamiðlaranum Charles Isaacs árið 1992 og þau eiga tvær dætur saman: Kelsey Rose og Mollie Elizabeth.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Matargyðjan keypti Sigvaldaperlu Styrmis

Ebba Guðný Guðmundsdóttir, matargyðja, og eiginmaður hennar, Hafþór Hafliðason, keyptu nýlega Sigvaldahús Styrmis Þórs Bragasonar, eiganda Arctic...

Illindi vegna yfirgangs Þórdísar

Sú ákvörðun Þór­dís­ar Kol­brún­ar Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur, ráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, að bylta Haraldi Benediktssyni alþingismanni úr oddvitasæti...

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -