Miðvikudagur 10. ágúst, 2022
9.8 C
Reykjavik

Stjórnvöld eiga erfiðara með að líta undan

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Bréf til bjargar lífi er stærsti mannréttindaviðburður í heimi sem mannréttindasamtökin Amnesty International standa fyrir í 150 löndum og landsvæðum á hverju ári í kringum 10. desember. Við spurðum Bryndísi Bjarnadóttur, herferðastjóra Íslandsdeildar Amnesty International, nánar út í viðburðinn.

„Í herferðinni koma hundruð þúsunda saman og skrifa undir bréf til stjórnvalda sem fótumtroða mannréttindi fólks og krefjast réttlætis í þágu þolenda brotanna. Fjöldinn allur skrifar einnig stuðningskveðjur til þolendanna og veitir þeim þannig styrk og vissu um að umheimurinn hafi ekki gleymt þeim. Þessar kveðjur eru ekki síður mikilvægar því þær halda oft lífi í þeim sem sviptir hafa verið frelsinu og voninni,“ segir Bryndís og nefnir dæmi um árangur. „Albert Woodfox sat til að mynda í einangrun í fjóra áratugi í hámarksöryggisfangelsi í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum, læstur inni í klefa sem var 183 x 244 cm að stærð, í 23 tíma á dag þar sem dagsbirta var nánast engin. Woodfox hlaut dóm árið 1971 fyrir vopnað rán. Mál hans var tekið upp í Bréf til bjargar lífi árið 2015 en hann hlaut löngu tímabært frelsi í febrúar 2016, á 69 ára afmælisdaginn sinn. Woodfox lét eftirfarandi orð falla í tengslum við stuðninginn sem hann hlaut: „Vegna Bréf til bjargar lífi hafa mér borist þúsundir bréfa hvaðanæva að úr heiminum með ákalli um stuðning og samstöðu. Þessi skilaboð utan veggja fangelsis hafa reynst uppspretta að innri styrk til að halda áfram baráttunni fyrir frelsi mínu.“
Þessi magnaði viðburður er sönnun þess að í krafti fjöldans er hægt að umturna lífi fólks sem sætir grófum mannréttindabrotum.“
Á síðasta ári voru send rúmlega 5 milljón bréf, kort, smáskilaboð og tölvupóstar í þágu þolenda pyndinga, lögregluofbeldis, samviskufanga, baráttufólks fyrir mannréttindum og réttindum hinsegin fólks. Íslendingar létu heldur ekki sitt eftir liggja í baráttunni fyrir betri heimi á síðasta ári en nærri 3% þjóðarinnar tók þátt. Alls söfnuðust rúmlega 95.000 undirskriftir frá Íslandi og þar af tæplega 50.000 á vefsíðunni amnesty.is.
„Í ár stefnum við að því að ná rúmlega 100.000 undirskriftum og þar af 70.000 á síðunni okkar. Fjöldinn allur af sjálfboðaliðum úti á landi leggur jafnframt herferðinni lið með því að skipuleggja margs konar viðburði í sínum sveitarfélögum og safna undirskriftum í þágu þeirra mála sem við tökum fyrir hverju sinni. Þá tekur fjöldi framhalds- og grunnskóla þátt í keppni um flestar undirskriftir og almenningsbókasöfn um land leggja sömuleiðis sitt af mörkum.“

Bryndís Bjarnadóttir, herferðastjóri Íslandsdeildar Amnesty International. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Íslenskar konur geta speglað sig í reynslu sumra kvennanna
Í ár er herferðin helguð tíu hugrökkum baráttukonum sem hafa verið áreittar, fangelsaðar, pyndaðar og jafnvel myrtar vegna starfa sinna í þágu mannréttinda. „Konur sæta áfram margvíslegri mismunun vegna kyns síns og vegna baráttu sinnar í þágu mannréttinda en þær neita að láta þagga niður í sér og hafa verið í fararbroddi mannréttindabaráttunnar árið 2018. Um heim allan eru konur í fararbroddi andófsfólks. Þær standa í fremstu víglínu, berjast gegn mismunun, þvinguðum brottflutningi og kúgun. Staða þeirra sem leiðtoga í samfélögum sínum er enn merkilegri vegna erfiðleika sem varðað hafa vegferð þeirra. Margar kvennanna búa í samfélögum þar sem konum er ætlað að þola óréttlæti án þess að rödd þeirra heyrist. Með því að slást í hóp þeirra geta Íslendingar lagt sitt lóð á vogarskálar jafnréttis, frelsis og réttlætis.“
Bryndís segir að margar íslenskar konur séu öflugar baráttukonur og þar standi hæst baráttan gegn kynbundnu ofbeldi og jafnrétti kynjanna. „Við erum hins vegar svo lánsamar að lifa í nokkuð öruggu samfélagi þar sem öfgahópar gera ekki grimmilegar atlögur að konum fyrir baráttu þeirra og stjórnvaldið beitir ekki pyndingum eða tekur okkur af lífi til að þagga niður í okkur. Hins vegar held ég að margar íslenskar konur geti speglað sig í reynslu sumra þeirra kvenna sem við berjumst fyrir, sérstaklega ef þær upplifa mismunun út frá fleiri þáttum en bara kyns síns vegna. Eitt málanna er til dæmis mál Gulzar frá Kirgistan en hún lenti í bílslysi árið 2002 og missti hreyfigetuna í fótleggjum í kjölfarið. Hún berst ötullega fyrir réttindum fólks með fötlun í heimalandi sínu og að sá hópur fái lifað með reisn.
Hún áttaði sig fljótt á því að fólk með fötlun stóð allt frammi fyrir svipuðum vandamálum, meðal annars erfiðleikum við að finna vinnu, því margir vinnustaðir voru ekki aðgengilegir fyrir hjólastóla, eða að þurfa að reiða sig á aðra til að lyfta sér upp í strætisvagna, sem er niðurlægjandi reynsla. Hún verður daglega fyrir mismunun í samfélagi þar sem konur eiga ekki að hafa hátt og litið er á fólk með fötlun sem „ónytjunga“ með ólæknandi sjúkdóm. Þó að íslenskar konur geti sannarlega haft hátt og gera það margar, sem betur fer, þá held ég að konur með fötlun hér á landi verði fyrir tvöfaldri mismunun og eigi því erfiðara með láta rödd sína heyrast.“

Ljósainnsetningu verður ýtt úr vör í annað sinn fyrir framan Hallgrímskirkju, föstudaginn 30. nóvember kl. 17.

Ljósum böðuð Hallgrímskirkja
Fólk getur tekið þátt á vefsíðunni amnesty.is og annaðhvort valið að skrifa undir öll málin tíu eða valið þau mál sem það vill styðja. „Þá setja margir undirskrift sína við fyrirframskrifuð bréf til stjórnvalda sem við prentum á sérstök aðgerðakort. Einnig sendum við áköll til félaga í sms-aðgerðanetinu okkar og í Netákallinu svo leiðirnar til að taka þátt eru margar. Íslandsdeild Amnesty International heldur síðan utan um allar undirskriftirnar, aðgerðakortin og bréfin og sér um að senda utan til viðkomandi stjórnvalda. Bréfin hafa orðið mikla vigt, í fyllsta skilningi þess orðs, hér fara heilu bílfarmarnir af bréfum og kortum út af skrifstofu samtakanna og það er erfitt fyrir stjórnvöld að líta undan.“
Á síðasta ári stóð Íslandsdeild Amnesty International í fyrsta sinn fyrir gagnvirkri ljósainnsetningu við Hallgrímskirkju, sem kallast Lýstu upp myrkrið, en þar geta gestir og gangandi tekið þátt með því að skrifa undir mál baráttukvennanna á spjaldtölvu fyrir framan kirkjuna. Ljósainnsetningunni verður ýtt úr vör fyrir framan Hallgrímskirkju, föstudaginn 30. nóvember kl. 17 og stendur yfir í þrjá daga frá kl. 17 til kl. 22. „Í ár kynnum við enn áhrifameira myndefni og skreytingar fyrir ljósainnsetninguna til sögunnar svo enginn má missa af þessum töfrandi viðburði.“

Réttarhöldin tóku 15 mínútur
Herferðin í ár er helguð tíu hugrökkum baráttukonum sem hafa verið áreittar, fangelsaðar, pyndaðar og jafnvel myrtar vegna starfa sinna í þágu mannréttinda. Hér eru sögur fjögurra þeirra.

Marielle Franco, Brasilía
Marielle Franco var óttalaus í baráttu sinni fyrir réttlátari og öruggari Rio de Janeiro. Hún barðist fyrir réttindum ungs fólks, blökkukvenna og hinsegin fólks. Hún gagnrýndi líka ólögmæt dráp lögreglu. Það var þaggað niður í henni þegar hún var skotin til bana í bíl sínum. Hún er ein af a.m.k. 70 mannréttindafrömuðum sem myrtir voru í Brasilíu 2017.

Amal Fathy, Egyptaland
Þann 9. maí síðastliðinn birti Amal Fathy myndband á Facebook þar sem hún deildi reynslu sinni af kynferðislegri áreitni, vakti athygli á umfangi vandans í Egyptalandi og gagnrýndi stjórnvöld fyrir að vernda ekki konur. Hún var handtekin í kjölfarið.

- Auglýsing -

Atena Daemi, Íran
Atena Daemi hefur verið ötul í baráttunni gegn dauðarefsingunni í Íran. Hún skrifaði stöðufærslur á samfélagsmiðlum, dreifði bæklingum og tók þátt í friðsamlegum mótmælum. Hún var dæmd í sjö ára fangelsi. Réttarhöldin tóku bara fimmtán mínútur og hún hefur sætt ofbeldi og niðurlægjandi meðferð í fangelsi.

Vitalina Koval, Úkraína
Vitalina Koval leggur á sig mikla vinnu til að styðja við bakið á hinsegin fólki í heimabæ sínum í Úkraínu. Hún varð hins vegar fyrir hrottafenginni árás í kjölfar þátttöku sinnar í skipulagningu friðsamlegrar kröfugöngu. Vitalina neitar að láta hótanir og ofbeldi þagga niður í sér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -