Fimmtudagur 4. ágúst, 2022
8.8 C
Reykjavik

„Stolt af fangavistinni“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Í vor fékk Hjördís Svan Aðalheiðardóttir fullt forræði yfir dætrum sínum þremur eftir átta ára baráttu. Dæturnar hafa búið hér á landi utan kerfis og án vegabréfa síðan Hjördís sótti þær ólöglega til Danmerkur árið 2013 en hún var í kjölfarið handtekin og dæmd í 18 mánaða fangelsi fyrir brottnámið. Þótt Hjördís sé ánægð með þennan mikilvæga áfanga finnst henni erfitt að fagna, því eftir sitji að svo margir hafi brugðist börnunum hennar. Kerfið og regluverkið standi ekki með börnum og margir glími við svipuð mál og þau máttu þola.

Þegar Hjördís flúði með dætur sínar til Íslands, með leiguflugi í skjóli nætur, hafði danskur dómstóll dæmt að hún og danski maðurinn, sem hún var í forsjárdeilu við, hefðu sameiginlega forsjá yfir dætrunum og búsetu hjá honum. Hjördísi hafði gengið illa að fá umgengni við stúlkurnar þar sem maðurinn hindraði samskipti. Hjördís kærði og fékk að hitta dæturnar í kjölfarið. Fyrir lá að tekið yrði fyrir dönskum dómstólum mál þar sem maðurinn sótti um fullt forræði yfir dætrunum. Þrátt fyrir að hafa undir höndum áverkavottorð um meint ofbeldi gegn dætrunum og tilkynningu frá leikskóla í Danmörku til félagsmálayfirvalda og lögreglu um meint ofbeldi vissi Hjördís að hún ætti litla möguleika í málinu. Hún var þegar orðin sakamaður í augun danskra stjórnvalda þar sem hún hafði tvisvar áður farið með dæturnar án leyfis mannsins til Íslands. Í fyrra skiptið hlýddi hún úrskurði íslenskra dómstóla og fór sjálfviljug með dæturnar til Danmerkur eftir að maðurinn kærði brottnámið. Í seinna skiptið neitaði hún og dæturnar voru teknar af henni með valdi þann 29. júní 2012 þar sem meðal annars víkingasveitin var tilkvödd. Þá var búið að lofa að taka þær ekki ef maðurinn kæmi ekki á staðinn. Maðurinn mætti ekki en stúlkurnar voru samt teknar og vistaðar hjá vandalausum í tvo sólarhringa. Ári síðar viðurkenndi Innanríkisráðuneytið að börnin hefðu verið tekin með ólögmætum hætti.
Hjördís ákvað því að taka örlög dætra sinna í eigin hendur haustið 2013 og flúði með börnin frá Danmörku en flóttanum og málinu öllu voru gerð ítarleg skil í íslenskum fjölmiðlum. Hjördís keyrði í 20 klukkustundir áður en hún kom á stað í Skandinavíu þar sem hún fór huldu höfði í fimm vikur. Hún var ekki með síma, sendi ekki tölvupósta og notaði ekki samfélagmiðla. Með hjálp föður síns og fleiri sem söfnuðu fé til að sækja þær með leiguflugvél komust mæðgurnar til Íslands. Stuttu seinna var manninum dæmt fullt forræði yfir stúlkunum og þær því algerlega í dönsku kerfi auk þess sem hann var með vegabréf þeirra. Maðurinn kærði brottnámið og sótti um að stúlkurnar yrðu tafalaust fluttar aftur til Danmerkur í beinni aðfarargerð. Héraðsdómur dæmdi honum í vil og Hjördís áfrýjaði til Hæstaréttar. Hæstiréttur sneri dómnum hins vegar og börnin urðu því áfram á Íslandi, að því er virðist vegna formgalla á kæru mannsins. Þegar úrskurður Hæstaréttar féll var búið að handtaka Hjördísi og hún sat í dönsku fangelsi. Dæturnar voru í umsjá móður hennar og systkina á Íslandi.

„Þessi dómur Hæstaréttar var mikill léttir en yfir vofði að maðurinn færi í annað mál og krefðist þess að fá börnin afhent,“ segir Hjördís blátt áfram og vílar ekki fyrir sér að rifja málið upp. „Eftir að ég lauk afplánun lét ég lítið fyrir mér fara, naut hvers dags sem við vorum saman og við lifðum eins eðlilegu lífi og unnt var. Þar sem dæturnar voru með lögheimili í Danmörku voru þær ekki með sömu réttindi og aðrir íslenskir ríkisborgarar. Þær voru ekki tryggðar og þurftu til dæmis að greiða fullt verð fyrir alla læknisþjónustu, þær fengu ekki frístundastyrk og ég fékk engar barnabætur, svo eitthvað sé nefnt. Elsta dóttir mín gat ekki farið með körfuboltaliðinu sínu til útlanda þar sem stúlkurnar voru ekki með vegabréf. Eins og í svo mörgu var verið að brjóta á rétti þeirra með því að leyfa þeim ekki að njóta sömu réttinda, en við gerðum allt til að láta hlutina ganga upp. Þetta voru smámunir í samanburði við það sem á undan hafði gengið og engin ástæða til að rugga bátnum með því að sækja rétt þeirra. Þannig að svona var þetta þangað til að ég fékk forræðið og búsetuna til mín í maí síðastliðnum.“

„Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hvort ég hefði átt að vera áfram í sambandinu því þannig hefði ég getað varið börnin mín betur. Þá hefði ég ekki þurft að berjast við kerfi í tveimur löndum þar sem margir trúðu mér ekki.“

Hjördís Svan segist ekki hafa hikað við að brjóta lögin til að bjarga börnunum sínum úr ömurlegum aðstæðum. Hún myndi gera það aftur og sitja aðra níu mánuði í fangelsi ef með þyrfti.

Samþykkti að biðja aldrei um peninga
Í byrjun þessa árs voru tæplega fimm ár liðin og lögmaður Hjördísar, Kristín Ólafsdóttir, ráðlagði henni að prófa að sækja um forræði. „Ég fór hefðbundna leið og mætti hjá Sýslumanni í svokallaða sáttameðferð. Maðurinn mætti ekki og sýslumannsembættið gaf þá út sáttavottorð sem gefur mér leyfi til að leita til dómstóla. Lögmaður minn útbjó stefnu þar sem ég sóttist eftir forræðinu og ég þurfti að láta þýða stefnuna yfir á dönsku. Taka átti málið fyrir í byrjun maí en maðurinn svaraði stefnunni með samningi þess efnis að ég fengi forræðið og búseturéttinn og að ég gæti aldrei krafist peninga af hans hálfu ef dæturnar vanhagaði um eitthvað. Ég samþykkti þennan samning. Þetta var auðvitað mjög stór stund í lífi okkar, eitthvað sem við höfðum beðið lengi eftir en á sama tíma voru þetta ljúfsár tíðindi þar sem sömu mistökin eru gerð trekk í trekk og af sama fólki. Það hefur ekkert breyst í barnaverndarmálum, börn eru neydd í umgengni við ofbeldisfulla feður, Danir og fleiri lönd í Evrópu halda áfram að dæma mæður eins og mig í fangelsi fyrir að verja börn sín fyrir ofbeldi,“ segir Hjördís.
Hún gagnrýnir að konur sem búið hafi við ofbeldi neyðist til að sitja sáttafundi með ofbeldismanninum hjá sýslumanni án þess að mega hafa lögmann eða annan stuðningsaðila viðstaddan. „Það verður að hugsa til þess að konur sem yfirgefa ofbeldi eru oft að niðurlotum komnar andlega og líkamlega, hafa kannski búið við ofbeldi í mörg ár og hafa ekkert sjálfstraust. Ofbeldismenn eiga það til að viðhalda ofbeldinu árum saman þrátt fyrir að konan hafi yfirgefið þá en það geta þeir meðal annars gert í gegnum kerfið. Það krefst mikils styrks að yfirgefa ofbeldismann og ekki sjálfgefið að niðurbrotnar konur hreinlega geti það. Konur sem reyna að verja börn sín fyrir ofbeldi eru dæmdar til að greiða dagsektir. Þeim er alveg sama þótt þær verði gjaldþrota því þegar velferð barna þeirra er í fyrirrúmi skipta peningar engu máli. Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hvort ég hefði átt að vera áfram í sambandinu því þannig hefði ég getað varið börnin mín betur. Þá hefði ég ekki þurft að berjast við kerfi í tveimur löndum þar sem margir trúðu mér ekki. Þá hefði ég ekki verið úthrópuð í fjölmiðlum og kommentakerfum. Þá hefði ég ekki þurft að heyra fólk segja að þar sem maðurinn er ekki dæmdur hljóti ég að vera að ljúga og þá hefði ég ekki verið kölluð hin alræmda tálmunarmóðir, orð sem einstaklingar nota til að gera lítið úr konum sem tjá sig um ofbeldi. Konur hugsa sig tvisvar um áður en þær ákveða að fara, réttarkerfið er ekki fyrir þolendann heldur fær gerandinn allt of oft að njóta vafans. Ég veit um börn sem eiga eftir að leita réttar síns þegar þau hafa aldur til og ætla í mál við íslenska ríkið fyrir að neyða þau í samvistir með einhverjum sem beitti þau ofbeldi, þrátt fyrir að til væru gögn sem sönnuðu það.“

„Ég var sett í viðbjóðslegan fangaklefa þarna á lögreglustöðinni í nokkurn tíma. Þar var kalt, alveg dimmt og ég gat setið á steinbekk.“

Fékk eitt símtal eins og í bíómyndunum
En hverfum aftur að atburðarásinni eftir flóttann 2013, athæfinu sem Hjördís var handtekin fyrir og fangelsuð. „Fljótlega eftir heimkomuna byrjuðu stelpurnar í skóla þar sem þeim var vel tekið af kennurum og nemendum, þær fóru að æfa körfubolta eins og stóri bróðir þeirra og fundu sig vel í þeirri íþrótt. Þó að við reyndum að lifa venjulegu lífi vorum við oft hræddar. Stelpurnar fylltust hræðslu þegar þær sáu lögreglubíl sem er ekki skrítið miðað við aðgerðirnar þegar þær voru teknar með valdi af einkennisklæddum lögregluþjónum. Einu sinni fékk ég símtal frá dóttur minni þar sem hún sagðist hafa séð konuna sem var svo reið þennan dag þegar þær voru teknar, hún var þá að tala um fulltrúa sýslumanns Kópavogs,“ segir Hjördís.
Fljótlega sendu dönsk yfirvöld norræna handtökuskipan á hendur Hjördísi og fóru fram á framsal. Að sögn Hjördísar var lögð mikil harka í að beiðninni yrði framfylgt. „Lögmaður minn varðist mjög vel og náði að fresta afhendingu minni í marga mánuði en ég var alltaf dæmd í farbann. Lögmaður minn sýndi fram á að hægt væri að neita afhendingu vegna mannúðarsjónarmiða en yrði ég send til Danmerkur væru börnin mín foreldralaus,“ segir Hjördís.
Meðan Hjördís var í farbanni þurfti hún að tilkynna sig á lögreglustöðinni alla virka daga og gerði það samviskusamlega. „Einu sinni þegar við fjölskyldan vorum að borða kvöldmat mundi ég að ég hafði gleymt að tilkynna mig. Ég brunaði á lögreglustöðina við Grensásveg en hurðin var læst svo ég bankaði. Sem betur fer sá mig einhver og hleypti mér inn. Ég lagði mig fram við að leyna áhyggjum mínum og kvíða fyrir börnunum. Þeim leið vel og dætur mínar blómstruðu í skóla og íþróttum. Við voru einstaklega heppin með kennarana þeirra sem vissu um málið og héldu sérstaklega vel utan um þær. Ég á líka einstaka fjölskyldu og vini sem gengu með mér í gegnum eld og brennistein sem og frábæra lögmenn þau Kristínu Ólafsdóttur og Hrein Loftsson frá Lögmönnum Höfðabakka og Thomas Michael Berg sem var lögmaður minn í Danmörku. Þessu fólki fæ ég seint fullþakkað. Einnig voru margir sem ég þekkti ekki neitt sem buðu fram hjálp sína, ómetanlegt.“
Í febrúar 2014 var hins vegar ákveðið að verða við óskum danskra yfirvalda og Hjördís var framseld til Danmerkur. „Eftir að barnaverndarstofa fór að skipta sér af málunum breytti ríkissaksóknari ákvörðun sinni á einni nóttu,“ fullyrðir Hjördís. „Haldinn var fundur með lögreglu og barnaverndarstofu, fundur sem lögmenn mínir fengu ekki að vita af. Íslensk yfirvöld hafa sjaldan framselt íslenska ríkisborgara, ég held að ég hafi verið númer þrjú,“ segir Hjördís.
Hún mætti á lögreglustöðina við Grensásveg og var ekið út á Keflavíkurflugvöll af alþjóðadeild lögreglunnar. Þar var hún vistuð í fangaklefa og danskir lögreglumenn fylgdu henni í flugið til Danmerkur. „Þegar við lentum á Kastrup var sagt við mig: „Hjördís Svan, du er andholdt,“ eða „Hjördís Svan, þú ert handtekin.“ Við tók þriggja klukkustunda akstur til ríkisfangelsisins í Horsens en þar var ég sett í lítinn og ógeðslegan klefa með litlum bedda. Daginn eftir var ég leidd fyrir dómara sem dæmdi mig í farbann og ég ætti að tilkynna mig daglega á lögreglustöðina. Ég var svo heppinn að eiga góða frænku og mann hennar að í Horsens sem ég gat verið hjá. Daginn eftir vaknaði ég frekar kvíðin en ákvað að drífa mig að tilkynna mig á lögreglustöðinni. Afgreiðslumaðurinn svaraði mér ekki þegar ég tilkynnti mig heldur gekk á bak við og kom til baka ásamt tveimur lögreglumönnum sem sögðu aftur: „Hjördís Svan, du er andholdt,“ en þá hafði ákvörðuninni um farbannið verið áfrýjað. Eins og í bíómyndunum mátti ég fá eitt símtal, ég hringdi í pabba til þess að biðja hann um að hafa samband við danska lögmanninn minn.
Ég var sett í viðbjóðslegan fangaklefa þarna á lögreglustöðinni í nokkurn tíma. Þar var kalt, alveg dimmt og ég gat setið á steinbekk. Ég fékk ekki að láta frænku mína og mann hennar vita að ég hefði verið handtekin og fékk ekki að fara heim til þeirra til að sækja fötin mín. Ég var í íslensku lopapeysunni minni og í rauðum gúmmístígvélum, man það vegna þess að meðfangar mínir sögðu mér seinna hvað þeim fannst skrítið þegar ég birtist í þessum klæðnaði, alls ekki með útlit hins hefðbundna fanga,“ rifjar Hjördís upp.

„Dag einn hafði lögmaður minn samband og sagði mér að Hæstiréttur hefði snúið dómi Héraðsdóms við og að stelpurnar ættu ekki að fara til Danmerkur. Ég gekk rólega inn í klefann minn, lokaði á eftir mér og læsti. Ég skalf, grét og hló til skiptis.“

Lærði að komast af í fangelsinu
„Mér var ekið í ríkisfangelsið í Horsens sem er hámarksöryggisfangelsi. Á leiðinni sendi ég skilaboð til barnanna minna og sagði þeim hve heitt ég elskaði þau og þau þyrftu ekki að hafa áhyggjur af mér en ég vildi að þau vissu að þau gætu ekki hringt í mig. Það var mér mikils virði að hafa náð að gera þetta áður en síminn var tekinn af mér. Lögreglubílnum var svo ekið inn í bygginguna og hurðinni lokað áður en ég var tekin út úr bílnum. Mér leið eins og ég væri í amerískri bíómynd; teknar voru ljósmyndir af mér frá öllum hliðum, tekin fingraför og allt sem ég var með tekið af mér. Þvínæst þurfti ég að afklæðast. Kvenkynsfangavörður fylgdi mér inn á gang með fimm klefum. Ég vissi seinna að hún var kölluð Angry Bird þar sem hún var alltaf frekar reið og með eldrautt litað hár. Ég þurfti að byrja á því að þrífa klefann þar sem hann var ekki mjög huggulegur. Áður en ég var læst inni heyrði ég hina fangana banka á hurðarnar því þeir heyðu að einhver nýr væri að koma. Þá fyrst áttaði ég mig á því að karlmenn væru líka í þessu fangelsi og seinna kom í ljós að ég var eini kvenmaðurinn. Það eina sem ég fékk var handklæði, lítill tannbursti og tannkrem. Ég fékk ekkert af dótinu mínu né föt fyrstu fjóra dagana því verið var að fara yfir allt, meðal annars með hjálp fíkniefnahunda,“ segir Hjördís.
Þau voru fimm sem bjuggu saman á gangi og voru með sameiginlega eldunaraðstöðu. Fangarnir þurftu að vera innandyra allan daginn fyrir utan eina klukkustund á morgnana og aðra á kvöldin en þá fengu þeir að fara út í garð og ganga í hringi. Hjördís mátti ekki hringja strax því það þurfti að fara vel yfir þá aðila sem hún mátti hringja í. „Ég mátti þó tala við lögmenn mína, bæði íslenska og danska, og það var virkilega gott að heyra frá þeim. Það tók mig nokkra daga að aðlagast, eða réttara sagt að læra að komast af. Það var annaðhvort að liggja öllum stundum inni í klefanum eins og ég gerði fyrstu dagana og hefði í raun geta valið að gera, eða að rífa mig á lappir og takast á við þessa undarlegu og hræðilegu lífsreynslu. Ég ákvað að líta á þetta sem verkefni sem ég þyrfti að leysa. Ég fór að vinna í verksmiðju í fangelsinu en fyrir það fékk ég laun og ég þurfti peninga til að borga fyrir mat. Ég byrjaði einnig í fótbolta, badminton og blaki og viðurkenni að það var sérstakt í byrjun að spila fótbolta við meðlimi glæpagengis. Harkan var ekkert minni þótt ég væri með og ég var stundum ansi marin eftir leikina. Ég skráði mig í skólann og lærði dönsku, stærðfræði og ensku. Ég var virt af samföngum mínum því þeim fannst gott hjá mér að bjarga dætrum mínum frá ofbeldi,“ segir Hjördís en hún er þeim eiginleikum gædd að geta samlagast allskonar fólki og það gerði hún þarna og eignaðist góða vini. „Auðvitað óttaðist ég samt suma en þarna voru alls konar menn með óhugnanlega fortíð en líka strákar sem lífið hafði farið hrjúfum höndum um. Bestu stundirnar voru þegar ég fékk fimm mínútur til þess að hringja í börnin mín, tvisvar í viku.“

„Ég vona að í framtíðinni geti ég bjargað fleiri börnum með því að berjast fyrir bættu kerfi. Þetta mál hefur breytt mér gífurlega mikið.“

Ákvað strax að áfrýja ekki
Hjördís var í gæsluvarðhaldi í ríkisfangelsinu í fimm mánuði og bjó með alls tuttugu og sex karlmönnum á tímabilinu en þarna var mikið rennerí af mönnum sem biðu dóma.
„Þarna beið ég eftir að sakamálið á hendur mér yrði tekið fyrir. Heima á Íslandi var líka í gangi afhendingarmál sem danski maðurinn sótti. Ég man ekki hve lengi ég hafði setið inni þegar ég fékk fréttir þess efnis að Héraðsdómur hefði dæmt honum í hag og að dómarinn hefði sagt að það ætti að hjálpa stelpunum að vera ekki hræddar við pabba sinn vegna þess að þær ættu að vera hjá honum. Heimurinn hrundi og ég gat ekkert gert. Eins og alltaf þegar ég fékk neikvæðar fréttir tók ég nokkra daga í að liggja og gráta en svo reis ég upp aftur með nýja von í brjósti, eins og alltaf. Á svipuðum tíma var réttað yfir mér í Kolding. Ég þurfti að mæta þrisvar vegna þess hve umfangsmikið málið var og mikið af gögnum og var í kjölfarið dæmd í 18 mánaða fangelsi. Danski lögmaðurinn minn vildi strax áfrýja, sagði þetta fáránlegan dóm miðað við gögn. En ég ákvað strax að áfrýja ekki, í fangelsinu þekkti ég nefnilega marga sem biðu í allt að ár frá áfrýjun þangað til að mál þeirra var tekið fyrir. Ég vildi biðja um flutning og fara heim til barnanna.“
Samfangar Hjördísar lásu margir bókina Leyndarmálið, The Secret, sem fjallar um að hægt sé að breyta mörgu með góðum hugsunum, með því að sjá óskirnar fyrir sér. „Ég tileinkaði mér þetta og byrjaði að skrifa niður á blað aftur og aftur „stelpurnar verða óhultar“ og „þetta fer allt vel“ og „ég get allt“. Ég sagði börnunum mínum að gera það sama. Ég reyndi að sjá fyrir mér lögmann minn hringja í mig og segja mér góðar fréttir sem var erfitt þar sem ég var vön að ímynda mér alltaf það versta. Dag einn hafði lögmaður minn samband og sagði mér að Hæstiréttur hefði snúið dómi Héraðsdóms við og að stelpurnar ættu ekki að fara til Danmerkur. Ég gekk rólega inn í klefann minn, lokaði á eftir mér og læsti. Ég skalf, grét og hló til skiptis. Ég var svo heppin að það var föstudagur en ég hringdi alltaf í börnin á föstudögum. Þau brotnuðu niður og við grétum í símann, léttirinn og gleðin voru mikil,“ segir Hjördís.

- Auglýsing -

Fékk flutning í íslenskt fangelsi
Í júlí 2014 fékk Hjördís að vita að hún mætti ljúka afplánun sinni á Íslandi. „Á sama tíma og það var gott að kveðja fangelsið í Danmörku var líka erfitt að kveðja suma sem mér þótti orðið vænt um. Sérstök vinátta myndast þar sem einstaklingar þurfa að hjálpast að og treysta hver á annan. Þetta er pínulítið samfélag þar sem fara verður eftir reglum sem aðrir búa til og þú ræður engu. Ég gekk út með tárin í augunum, full af gleði og stolti. Núna var ég að fara heim að hitta börnin mín og fjölskyldu,“ segir hún brosandi.
Sömu lögreglumenn og fylgdu henni til Danmerkur fóru með henni heim líka. Hún var sótt út á flugvöll af íslenskum fangelsisyfirvöldum og færð í Kvennafangelsið í Kópavogi. „Það var skrítið að koma þangað, ég gat hringt þegar ég vildi. Mér fannst lífið í kvennafangelsinu ágætt en það svipar mikið til þáttaraðarinnar Fangar sem sýnd var á RÚV. Eftir tvær vikur í Kópavogi tóku við þrír mánuðir á Vernd. Þá þurfti ég að vera í vinnu eða taka að mér sjálfboðavinnu. Ég byrjaði hjá Samhjálp en fékk svo vinnu á skrifstofu sem gerði mikið fyrir mig – ég hitti dásamlega vinnufélaga og það að komast út á meðal fólks var mikils virði. Lögreglan keyrði daglega fram hjá vinnustaðnum til að athuga hvort ég væri ekki örugglega í vinnunni og ég veifaði þeim út um gluggann. Eftir komuna á Vernd hitti ég dætur mínar fyrst en þær máttu ekki heimsækja mig í fangelsið,“ segir Hjördís.
Á Vernd á fólk að mæta milli klukkan 18 og 19 í mat en að sögn Hjördísar er það gert til að fylgst með hvort einhver sé í rugli. Á virkum dögum þarf að koma í hús fyrir klukkan 23 og fyrir 21 um helgar. „Ég var ekki ein í herbergi sem voru auðvitað viðbrigði en ég var heppin með herbergisfélaga þannig að allt gekk vel. Mér fannst reyndar erfitt að vita af því seinna að þarna byggju menn sem dæmdir voru fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum.
Ég var neydd á AA-fund þótt ég tæki skýrt fram að ég hefði aldrei átt við áfengis- eða vímuefnavanda að etja. Allir áttu að fara á þennan fund.
Eftir dvölina á Vernd var ég svo með ökklaband í viku. Þá þurfti ég að vera komin heim á vissum tíma á kvöldin og mátti að sjálfsögðu hvorki neyta áfengis né annara vímuefna, líkt og annarsstaðar í fangelsum. Í fangelsinu í Danmörku birtust fangaverðir reglulega og horfðu á mig pissa í glas til að fullvissa sig um að ég væri ekki að neyta eiturlyfja sem allt var morandi af. Í byrjun nóvember 2014 mátti ég klippa ökklabandið af mér og við fjölskyldan gerðum það við hátíðlega athöfn. Þá var ég búin að afplána níu mánuði eða helming dómsins.“

„En ég ákvað strax að áfrýja ekki, í fangelsinu þekkti ég nefnilega marga sem biðu í allt að ár frá áfrýjun þangað til að mál þeirra var tekið fyrir. Ég vildi biðja um flutning og fara heim til barnanna.“

„Svo ég vitni í Sidsel Jensdatter Lyster, sem á svipaða sögu að baki og ég: Við segjum að fólk sem búi í ofbeldissamböndum eigi að koma sér í burtu til að vernda börnin. Við gleymum hins vegar að segja þessum illa leiknu foreldrum að þeir geti ekki verndað börnin sín eftir að þeir fara,“ segir Hjördís

Myndi gera þetta aftur
Mikið var fjallað um mál Hjördísar í fjölmiðlum, bæði hérlendis og í Danmörku, og almenningur kepptist við að hafa skoðanir á málinu. „Sumir töldu að ég hefði fengið hjálp frá yfirvöldum en mín upplifun var þvert á móti, flest vann gegn mér. Ég var í miklum mæli gagnrýnd á samfélagsmiðlum, í sumum fjölmiðlum og í athugasemdakerfum fjölmiðla. Ég hef lítið um það að segja, niðrandi ummæli dæma sig sjálf. Ég er stolt af fangavistinni, hikaði ekki við að brjóta lögin til að bjarga börnunum mínum úr ömurlegum aðstæðum. Ég myndi gera það aftur og sitja aðra níu mánuði í fangelsi ef með þyrfti,“ segir Hjördís ákveðin. „Ég vona að í framtíðinni geti ég bjargað fleiri börnum með því að berjast fyrir bættu kerfi. Þetta mál hefur breytt mér gífurlega mikið. Þegar ég ákvað að fara úr þessum aðstæðum var ég algjörlega niðurbrotin, þreytt andlega og líkamlega. Mér fannst ég ekki gera neitt rétt, efaðist um allt sem ég gerði. Ég hafði verið í því hlutverki í mörg ár að reyna að gera alla glaða í kringum mig, reyna að hafa allt gott. Á þeim tíma er ég ekki viss um að ég hefði lifað fangelsisvist af, en þar þurfti ég að trúa á sjálfa mig, ég þurfti að lifa af fyrir börnin mín. Ég fór svo oft út fyrir minn litla þægindaramma, eins og til dæmis með því að mæta á fótboltaæfingar með 20 karlföngum, lesa danskt ljóð fyrir framan þá í dönskutíma eða rífa kjaft við fangaverði vegna ósanngjarnar meðferðar á sumum föngunum. Ég var auðvitað mikið ein og þurfti gjörsamlega að breyta hugsunarhætti mínum, reyna að sjá það góða í öllu og vera þakklát. Ég held að það hafi líka létt fangelsisvistina að ég vissi alltaf að ég var að gera rétt, efaðist aldrei um það. Ég var örugglega eini fanginn þarna sem var stolt af glæpnum,“ segir Hjördís.
Framtíðin er björt hjá Hjördísi og fjölskyldu hennar. Dætur hennar hlakka til að komast aftur í körfuboltann en þær mæðgur verja öllum frítíma sínum í íþróttahúsum á veturna. „Svo höldum við áfram að rækta sál og líkama, njóta þess að vera saman. Ég held áfram að berjast með konum sem eru í svipaðri stöðu og ég var. Ég hætti ekki fyrr en kerfinu verður breytt og ýmsir aðilar stíga til hliðar. Svo ég vitni í Sidsel Jensdatter Lyster, sem á svipaða sögu að baki og ég: Við segjum að fólk sem búi í ofbeldissamböndum eigi að koma sér í burtu til að vernda börnin. Við gleymum hins vegar að segja þessum illa leiknu foreldrum að þeir geti ekki verndað börnin sín eftir að þeir fara,“ segir Hjördís að lokum.

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -