Bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, Þór Sigurgeirsson, segir í samtali við Fréttablaðið að hann skilji áhyggjur foreldra í bænum af bjórkvöldum framhaldsskólanema sem fram fara í sölum íþróttafélagsins Gróttu.
Þór segir að til standi að auka framlög til tómstunda-og æskulýðsstarfs.
Yfirlýsing frá foreldrafélagi Grunnskóla Seltjarnarness vakti athygli þar sem lýst var yfir áhyggjum af stöðu æskulýðs-og forvarnarstarfs unglinga á Seltjarnarnesi.
Var áðurnefnd yfirlýsing send út í kjölfar frétta af því að lögregla hefði leyst upp samkvæmi í veislusal Gróttu í fyrrinótt; þar var mikill fjöldi fólks undir tvítugu og mikil ölvun á staðnum.
Bæjarstjórinn Þór segir málið ekki gott; að bæjaryfirvöld hafi þegar fundað og muni funda aftur með stjórn Gróttu vegna málsins:
„Þetta er óheppilegt og við tökum þetta föstum tökum. Það er klárt mál að það þarf að skerpa þarna á reglum og við erum að gera það. Þetta er erfitt í sambúð, svona veislur og æskulýðsstarf, það er bara þannig. Þarna er einstaklingur sem fer ekki eftir skilmálum útleigunnar, þannig við þurfum að skerpa á því og hækka þennan aldur og koma í veg fyrir að svona kvöld spyrjist út.“
Bætir að lokum við:
„Það er klárt mál að við erum að bæta í tómstundastarfið og það er komið inn á fjárhagsáætlun næsta árs að ráða inn í þessa stöðu. Hlutaðeigandi vita af því og þetta er bara allt í skoðun, við erum með starfslýsingu nánast klára og það verður auglýst strax á næstunni.“