Miðvikudagur 10. ágúst, 2022
9.8 C
Reykjavik

Stórveldadraumar lögmannsins breyttust í martröð – Fjölmiðlasaga Sigurðar G.

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Fjölmiðlasaga Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns er æði skrautleg. Hann hefur staðið í rekstri nokkurra fyrirtækja sem sum hafa farið illa. Upphaf þess að lögmaðurinn lagði fyrir sig rfekstur fjölmiðla var að hann var um tíma forstjóri Norðurljósa, eiganda Stöðvar 2 og Bylgjunnar, sem þá voru í eigu Jóns Ólafssonar athafnamanns. Eftir að Jón Ásgeir Jóhannesson keypti fyrirtækið árið 2004 var Sigurður rekinn. En hann var kominn með bakteríuna og þyrnum stráð vegferð hans um flóru íslenskra fjölmiðla hófst.

Í apríl 2005 spurðist út að nýtt fríblað væri í fæðingu. Það fylgdi fréttinni að því væri ætlað að fara í grjótharða samkeppni við Fréttablaðið sem á þessum tíma bar höfuð og herðar yfir aðra miðla á prentmarkaði. Þarna bólaði á Sigurði G. DV sagði frétt af málinu en meintir aðstandendur sóru af sér væntanlegan fjölmiðil.

„Þú segir mér fréttir. Það er allur gangur á því hvort er eldur þar sem er reykur. Ég er ekki búinn að festa mig í neinu slíku,“ segir Karl Garðarsson, fyrrverandi fréttastjóri fréttastofu Stöðvar 2 og þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við DV þann 12. apríl 2005.

 

Frétt DV
Frétt DV Aðstandendur nýja blaðsins þrættu fyrir tilvist þess.

 

Taldi blaðamaður DV, Jakob Bjarnar Grétarsson, sig hafa heimildir fyrir því að her manna ynni að stofnun blaðsins. Á meðal aðstandenda voru sagðir þeir Karl Garðarsson og Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður sem hafði áður hrökklast úr starfi forstjóra Norðurljósa, forvera fjölmiðlarisans 365. Karl varðist fregna en Sigurður G. sagði blákalt að hann kannaðist ekki við neitt.

- Auglýsing -

„Nei, ég hef ekki hugmynd um það,“ sagði hann aðspurður um málið.

Annað kom á daginn 11 dögum síðar þegar tilkynnt um stofnun Blaðsins sem Karl Garðarsson ritstýrði og Sigurður G. var sagður aðaleigandi að. Sigurður var stjórnarformaður útgáfunnar sem bar heitið Ár og dagur. Þriðji eigandinn var Steinn Kári Ragnarsson, auglýsingastjóri og núverandi framkvæmdastjóri DV. Samanlagt fóru þremenningarnir með 51 prósent hlut. Óljóst er hverjir voru bakhjarlar útgáfunnar en kvittur var uppi um að stórkaupmaðurinn Jón Helgi Jónsson, kenndur við Byko, væri þar.

Blaðið átti eftir að lifa í nokkur ár. Karl var í upphafi ritstjóri. Í febrúar 2006 tók Ásgeir Sverrisson blaðamaður við af Karli sem varð útgefandi. Ferill Ásgeirs varð afar stuttur eða aðeins fimm mánuðir. Lestur Blaðsins var dræmur og draumurinn um að skáka Fréttablaðinu varð stöðugt fjarlægari. Það breytti ekki því að Blaðið tók auglýsingatekjur frá Fréttablaðinu. Í örvæntingu reyndu eigendur Blaðsins að snúa frá taprekstrinum og leitað var til þaulreynds fréttastjóra Fréttablaðsins sem hafði verið í lykilhlutverki þegar blaðið reis hæst.

- Auglýsing -

Sigurjón Magnús Egilsson tók tilboði Blaðsmanna og hóf störf í júlí 2006. Lestur Blaðsins rauk upp á tíma Sigurjóns Magnúsar, sem reyndar varð aðeins nokkrir mánuðir. Árangurinn olli titringi innan 365. Það sem virtist vera andvana fætt fríblað var skyndilega orðin ógn við sjálft Fréttablaðið.

 

Ritstjórinn
Sigurjón Magnús Egilsson náði að sparka lestri Blaðsins upp. Þetta varð til þess að Jón Ásgeir Jóhannesson bauð honum gull og græna skóga. Hann tók boðinu.

 

Sigurjón Magnús fékk þá tilboð frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, aðaleiganda 365, um að taka við ritstjórn DV. Í því fólst að hann fékk eingreiðslu sem nam um það bil 10 milljónum króna eftir skatta. Þá fékk hann eignarhlut í DV og há laun. Hvarf hann fyrirvaralaust frá Blaðinu eftir aðeins fimm mánaða starf til að taka við hinu nýja starfi. Sigurður G. brást illa við og var Sigurjóni hótað stefnu fyrir samningsrof. Útgáfa DV greiddi á endanum bætur vegna brotthlaupsins.

Trausti Hafliðason, fréttastjóri Blaðsins, tók við ritstjórninni af Sigurjóni. Það varð aðeins til skamms tíma. Frumherjarnir seldu Árvakri stóran hlut í útgáfunni vorið 2007 og nafni þess var breytt í 24 stundir. Árvakur fékk aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, Ólaf Stephensen, til að taka við starfi ritstjóra Blaðsins. Breytt var um nafn nokkrum mánuðum síðar og hét blaðið 24 stundir þar eftir.

Dánarvottorð dagblaðs

Ólafur entist lengur í starfi en forverar hans eða tæpt ár. Hann hætti vorið 2008. Við starfi hans tók Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir. Hún varð sjötti ritstjórinn á aðeins tveimur árum. Dauðstríð 24 stunda var hafið. Sigurði hafði mistekist en shann slapp með skrekkinn.

Fimm mánuðum eftir að Gunnhildur tók starfinu var gefið út dánarvottorð. Blaðið sem átti að verða stórveldi á Íslandi lifði ekki nema rúmlega þrjú ár. 10. október 2008 var boðað að 24 stundir kæmu ekki oftar út. Vefútgáfa DV sagði frá málinu og boðaði jafnframt þau stórtíðindi á fjölmiðlamarkaði að Morgunblaðið og Fréttablaðið væru að renna saman:

„Búið er að leggja niður 24 stundir og Morgunblaðið og Fréttablaðið verða rekin saman. Nú stendur yfir starfsmannafundur í Hádegismóum þar sem verið að kynna starfsmönnum breytingarnar. Ekki er ljóst hversu mörgum verður sagt upp vegna þessa en samkvæmt heimildum DV eru það í kringum tuttugu manns.

Himinhátt tap

Aðkoma Árvakurs að rekstri Blaðsins reyndist verða fyrirtækinu gríðarlega dýrkeypt. Áætlað var að uppsafnað tap af rekstrinum væri langt á annan milljarð króna. Þetta bættist við annað tap Árvakurs sem leiddi til þess að Íslandsbanki þurfti að afskrifa milljarða króna til að gera fyrirtækið rekstrarhæft. Aldrei varð af sameiningu Fréttablaðsins og Morgunblaðsins sem enn berjast á markaði. 24 stundir hvíla aftur á móti í gröf sinni. Draumurinn um stórveldi á fjölmiðlamarkaði brást. Árvakur sat uppi með skellinn.

Tímarit Fróða

Sigurður G. Guðjónsson var þó ekki af baki dottinn með að taka þátt í fjölmiðlareksti. Hann keypti ráðandi hlut í tímaritaútgáfu Fróða sem hafði farið í gegnum kennitöluskipti og var komin í eigu prenstsmiðjunnar Odda. Sigurður og samstarfsfólk hans skiptu um nafn á útgáfunni sem fékk nafnið Birtíngur. Látið var í veðri vaka að hann hefði lagt eigið fé í kaupin en seinna kom á daginn að Jón Ásgeir Jóhannesson athafnamaður hafði lánað honum 120 milljónir króna eða sem nam kaupverðinu. Eftir nokkurra mánaða stjórn á Birtíngi var Sigurði ýtt út og Hreinn Loftsson tók útgáfuna yfir. Enn brást draumur hans um að reisa stórveldi á sviði fjölmiðla.

Sigurður G, hafði hægt um sig næstu árin og hélt sig að mest við lögmannsstörf. Þó lagði hann út í fiskeldi á sínum gömlu heimaslóðum í Dýrafirði. Fer ekki sérstökum sögum af árangri hans þar og var fyrirtækið selt. En svo dró til tíðinda að nýju. Að þessu sinni ætlaði lögmaðurinn að byggja upp stórveldu á rústum fjölmiðlaveldis Björns Inga Hrafnssonar. Hann tók yfir rekstur DV og tengdra miðla, ásamt Karl Garðarssyni. Fékk fyrirtækið nafnið Frjáls fjölmiðlun líkt og var á blómaskeiði DV. Sem fyrr gekk lögmanninum illa að fóta sig í rekstrinum.

Kvittur var uppi um að Björgólfur Thor Björgólfsson væri bakhjarl útgáfunnar en Sigurður þrætti fyrir það haustið 2018 þegar Stundin innti hann eftir því hver veitti félaginu lán. Talskona Björgólfs Thors og Novators, Ragnhildur Sverrisdóttir, neitaði því einnig í svari til Stundarinnar í ársloks 2017 að Björgólfur kæmi að fjármögnun DV og Frjálsrar fjölmiðlunar.

Annað kom á daginn því Stundin upplýsti síðar að Novator, félag auðmannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefði verið eini lánveitandi og helsti bakhjarl DV frá árinu 2017. Þetta kom fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þar sem kaup Torgs ehf., félagsins sem á Fréttablaðið, á Frjálsri fjölmiðlun, félagsins sem á DV, eru samþykkt.

Stundin sagði frá því að í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hefði komið fram að félagið hafi glímt við mikla rekstarörðugleika og rekstur þess hafi ekki verið sjálfbær. Með þessu fékkst staðfest að Björgólfur Thor greiddi fyrir taprekstur DV í gegnum félagið Dalsdal ehf. sem var að forminu til í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns. „Samkvæmt ársreikningum 2017 lánaði svo Dalsdalur Frjálsri fjölmiðlun 425 milljónir króna, sem átti að greiðast til baka með árlegum 85 milljóna króna afborgunum 2018 til 2022. Stórum hluta lánsins hefur þegar verið breytt í hlutafé,“ segir í Stundinni. Þrátt fyrir himinhá lán tókst ekki að reka fyrirtækið og það fór í þrot með tilheyrandi eftirmálum fyrkir aðstandendur félagsins.

Líklegt má telja að fullreynt sé með það að Sigurður lögmaður geti rekið fjölmiðla. Hann hvarf af sjónarsviðinu eftir gjaldþrot Frjálsrar fjölmiðlunar. Hann steig dansinn við helstu auðmenn Íslands. Fyrst var það Jón Ólafsson, svo Jón Ásgeir Jóhannesson, þá Jón Helgi Jónsson og loksins Björgólfur Thor. Þrátt fyrir þessa öflugu bakhjarla gekk fátt upp hjá Sigurði sem hefur látið lítið á sér bera undanfarið og sinnir störfum sem lögmaður. Stórveldadraumar hans hrundu hver um annan veran og enduðu í martröð þegar Frjáls fjölmiðlum fór yfir um.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -