Föstudagur 3. febrúar, 2023
1.1 C
Reykjavik

Strauk í uppreisn og var loksins frjáls

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Erna Marín Baldursdóttir, sem var misnotuð af stjúpföður sínum, man eftir einni heimsókn þegar hún lá á spítala þegar stjúpinn mætti allt í einu óboðinn.

„Ég man þetta svo vel því hvorki mamma né hann komu nokkuð. Og ég lá þarna og hann fékk bara að æða inn á stofuna þar sem ég var. Ég var vakandi en þóttist sofa og hann bara grenjaði eins og lítið barn og sagði fyrirgefðu, fyrirgefðu. Þarna var hann ábyggilega nýkominn af Vogi,“ segir hún.

Að lokum sá Erna ekki annað í stöðunni en að flýja heimilið og þá hófst tímabil þar sem hún flakkaði á milli úrræða fyrir ungmenni í erfiðum aðstæðum og strauk reglulega þess á milli. Á þessu tímabili urðu til flestir þeir pappírar sem hún hefur undir höndum. Hún var erfið; reið út í mömmu sína og vildi alls ekki vera á sama heimili og stjúpinn. Hún fór aftur að segja frá og á meðferðarheimilinu Tindum fannst henni loksins að hlustað væri á hana. Erna á erindi frá sálfræðingi sem starfaði á Tindum á þessum tíma þar sem viðkomandi sagðist muna vel eftir frásögnum Ernu af kynferðisofbeldinu af hálfu stjúpföður hennar og stjúpsystur. „Á þessum tíma var umræða um kvenkyns barnaníðinga nánast engin og m.a. þess vegna er þessi frásögn svo greipt í huga undirritaðrar.“

Erna var nokkrum sinnum tekin af lögreglu fyrir smáglæpi. Hún strauk ítrekað og var augljóslega í mikilli uppreisn. Spurð að því hvenær og hvernig hún komst loks í gegnum þetta erfiða tímabil starir hún á mig. „Þetta er minnsta ruglið sem ég hafði verið í. Þetta var ekki erfitt,“ svarar hún ákveðin. „Ef ég á að vera algjörlega hreinskilin … Jú, ég var á götunni en þetta var frelsi. Ég upplifði þetta sem frelsi. Þetta var ekki vont. Hitt var ógeðslegt; fangelsi, vanræksla, ofbeldi. Þetta var frelsi … Ég man ekki eftir þessum tíma sem erfiðum.“

En hvað þá með stöðugleika; hvenær upplifði hún stöðugleika í fyrsta sinn?

„Hjá pabba. Frá því ég fór af Tindum og þar til hann dó. Þetta voru bara nokkur ár.“

- Auglýsing -

Pabbi Ernu bjó í Danmörku og það varð lendingin eftir þvæling í kerfinu að hún flytti til hans. Hjá honum bjó hún þegar hún var á aldrinum 15 til 17 ára. „Þessi ár voru bara stabíl og eðlileg. Mér leiddist oft, ég var undir miklu eftirliti og fékk mikið utanumhald. Pabbi var mjög strangur en þetta var hollt og gott fyrir mig. En ég var ekki búin. Eftir að hann dó hélt ég svolítið áfram að vera unglingur í uppreisn.“

Það var mikið áfall fyrir Ernu þegar hann dó. „Þarna var allt öryggið mitt sem ég var loksins búin að finna og eina heilbrigða manneskjan, sem verndaði mig og gaf mér það góða sem ég þurfti svo mikið á að halda. Ég græt hann enn þá en ég finn mikið fyrir honum; hann er stór og sterkur partur af mér.“

Mynd / Unnur Magna

Táknrænar kærur

- Auglýsing -

Erna er líka sterk. Hún segir það sjálf. Hún hefur þurft að berjast fyrir sjálfa sig og fyrir eldri son sinn, sem hefur ekki fengið þá þjónustu sem hann þarf og á rétt á. Á tímabili blómstraði hún; skapaði, var í góðu sambandi og sótti sér aðstoð. En baráttan við kerfið hefur tekið sinn toll. „Ég varð veik af streitu,“ segir hún. „Þarna kom upp staða þar sem barnið mitt fékk ekki aðstoð. Svona hélt kerfið áfram að brjóta á okkur. Ég væri ekki að tala um þetta og vinna í þessu nema með sjálfri mér ef ég gæti fengið að gera það í friði.“ Fálætið sem bæði hún og sonur hennar hafa mætt í kerfinu segir Erna ekkert annað en „kerfisbundið ofbeldi“.

En hún vill líka skila skömminni.

Erna segist aldrei munu skilja mömmu sína. „Ég þurfti útskýringu; af hverju? En ég kemst ekki til botns í því. Það er alveg sama hvað ég reyni. Það á að vera auðveldara að finna frið ef maður getur sett sig í spor annarra. En ég gríp alltaf í tómt.“ Hún segir það „bilun“ en viðbrögðin sem hún fékk við því að segja frá, bæði frá móður sinni og fagaðilum, sitji meira í henni en ofbeldið sjálft. „Ég hef alltaf unnið með ofbeldið eins og ég get því mér finnst vont ef eitthvað hamlar mér og er fyrir mér,“ segir hún. Hins vegar hafa viðtökurnar stundum orðið til þess að hún hefur haldið sig frá því að leita sér aðstoðar.

Í haust leitaði Erna til lögreglu til að leggja fram kærur á hendur fjórum einstaklingum. Kærurnar á hendur stjúpa og stjúpsysturinni voru táknrænar; stjúpinn dáinn og hitt fyrnt. Eitt málanna er enn í skoðun. Í kjölfarið ákvað hún síðan að leita til fjölmiðla. Hún segist vilja vekja fólk til umhugsunar. Hún hefur sterka réttlætiskennd og tárast þegar hún talar um það hvernig brotið er á börnum, hvernig brotið var á henni og systur hennar og hvernig brotið hefur verið á syni hennar. Þetta er lokatilraun hennar til að fá fullorðna fólkið til að hlusta og skilja.

Lestu umfjöllunina í heild sinni í nýju Mannlífi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -