• Orðrómur

Sunnudagurinn langi

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Þriðjungur heims er nú annaðhvort í sóttkví eða útgöngubanni vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Margir upplifa hræðslu enda sér ekki fyrir endann á þessari vá. Rithöfundurinn Óttar M. Norðfjörð er búsettur í Barcelona ásamt eiginkonu sinni, Eloísu Vázquez, og ungum syni þeirra. Hér skrifar hann um útgöngubannið á Spáni og hina undarlegu síðustu daga.

Árið 1700 hurfu ellefu dagar úr íslenska dagatalinu. Fólk sem fór að sofa miðvikudaginn 17. nóvember vaknaði mánudaginn 29. nóvember, því júlíska tímatalinu var skipt út fyrir það gregoríska til að laga innbyggða skekkju sem hafði vaxið í gegnum aldirnar og orsakað ellefu aukadaga þegar hér var komið sögu. Ég á nokkra vini sem hefðu einfaldlega misst af afmælisdeginum sínum það árið. Frekar fúlt. En Íslendingar í þá daga bjuggu náttúrlega enn þá í moldarkofum, liðu matarskort og meðalævilengd var í kringum 35 ár, svo kannski var pulsupartí ekki ofarlega á dagskrá hvort sem er.

Í dag varð mér hugsað til þessara ellefu horfnu daga fyrir rúmlega 300 árum, því þegar ég skrifa þetta er ég á ellefta degi í hálfgerðri sóttkví og tilfinning mín fyrir þeim er einhvern veginn svipuð. Það er eins og síðustu dagar hafi hreinlega horfið, enda höfum við sem búum hér á Spáni lifað í einhvers konar tómi, í einhvers konar tímaleysi, frá því að neyðarástandi var lýst yfir í landinu og útgöngubann sett á. Frumsýningar bíómynda, tónleikar, íþróttaviðburðir, hátíðir, afmælisveislur og annað sem átti að fara fram í mars og apríl hefur verið blásið af eða fært aftar. Árið 2020 er árið sem vorinu var frestað fram á haust.

„Ég er búinn að hlusta svo oft á „Life is a Rollercoaster“ með Ronan Keating og „Never Gonna Give You Up“ með Rick Astley – uppáhaldslög stráksins míns – að það er farið að ógna geðheilsu minni meira en fréttir af COVID-19.“

- Auglýsing -

Life is a Rollercoaster

Eða er kannski tóm vitleysa að hugsa um þetta sem gat í dagatalinu? Sem horfnar vikur? Það má hugsanlega segja að við höfum aldrei áður fengið jafnmikinn tíma að gjöf og akkúrat núna. Öll áttum við að vera að gera eitthvað allt annað en að hanga heima hjá okkur, önnum kafin í hversdagsleikanum, önnum kafin að vinna, fara í ræktina, sækja börnin, undirbúa næsta ferðalag. En svo er eins og risastór hendi hafi sópað öllum plönum heimsbyggðarinnar út af borðinu. Kannski eigum við að líta á þetta eins og þegar maður heldur að það sé miðvikudagur, en það er í raun þriðjudagur. Spurningin er bara hvað við ætlum að gera við þennan óvænta tíma sem við fengum til að vera heima hjá okkur.

Í mínu tilviki eru þetta eiginkonan mín, tæplega tveggja ára gamli sonur okkar og ég. Konan mín er þar að auki komin 33 vikur á leið og við ákváðum þess vegna að fara sérstaklega varlega. Óléttar konur eru ekki taldar í sérstökum áhættuhópi vegna veirunnar, en maður veit aldrei. Við byrjuðum því í okkar sóttkví nokkrum dögum áður en hún var sett á og konan mín hefur ekki farið út síðan. Það er vissulega áskorun að hafa lítinn gutta heima allan daginn, fullan af orku og vanan því að fara út, en börn eru fljót að læra og hann er strax orðinn sáttur við það að vera alinn upp sem inniköttur. En maður verður samt að hafa ofan af fyrir honum.

- Auglýsing -

Við hlaupum til dæmis mikið í kringum stofuborðið með blöðrum og tónlist, nágrannanum til mikillar gleði er ég viss um. Ég er búinn að hlusta svo oft á „Life is a Rollercoaster“ með Ronan Keating og „Never Gonna Give You Up“ með Rick Astley – uppáhaldslög stráksins míns – að það er farið að ógna geðheilsu minni meira en fréttir af COVID-19. Ég er líka búinn að heyra Disney-klúbbs hljóðbókina Bambi – Týndi íkorninn svo oft að ég er alvarlega að hugsa um að skrifa doktorsritgerð um hana þegar faraldrinum lýkur, enda brennur fjöldinn allur af spurningum á mér um þetta margslungna verk. Hvers vegna er týndi íkorninn, hún Smá, til dæmis flissandi í byrjun bókarinnar þótt hún sé nýbúin að týna mömmu sinni? Og hvers vegna leitar mamma hennar ekki að henni, heldur bíður bara eftir því að Bambi bjargi málunum? Getur verið að Smá hafi ekki týnst eftir allt saman, heldur í raun flúið ofbeldisfullt heimili og brotna æsku?

Þegar þetta eru spurningarnar sem leita á mann kemur kannski ekki á óvart að fólk telji að öll þessi innivera muni splundra fjölskyldum og leiða til skilnaða. Tölur frá Kína virtust meira að segja benda til þess, en dregið hefur verið í land með það. Mig grunar nefnilega að fólk verði bara nánara ef eitthvað er. Á tímum sem þessum lærir fólk að taka ekki öllu sem sjálfsögðum hlut og það gildir líka um hvort annað. Ég á nágranna hérna í Barcelona sem ég heyri stundum rífast, en ég hef ekki heyrt bofs í þeim síðan að útgöngubannið hófst. Getur verið að þau, eins og aðrir, sjái loksins hvað skiptir raunverulegu máli? Ég vona að minnsta kosti að það sé ástæðan fyrir þögninni frá íbúð nágrannanna og ekki eitthvað annað.

Ný heimsmynd

- Auglýsing -

Sjálfur hef ég byrjað að haga mér öðruvísi síðan að veirufaraldurinn skall á, enda hefur hún neytt mann til að breyta lífsmynstri sínu. Ég er til dæmis byrjaður að skammta morgunmúslíið mitt, því ég vil ekki fara í búðina sem selur það, enda er hún stór og vinsæl og ávísun á smit. Í gær braut strákurinn minn flugnaspaðann okkar – lífsnauðsynlegt tól í landi moskítóflugunnar – en í stað þess að henda honum og reyna að kaupa nýjan teipaði ég þann gamla saman. Og svo eru það blöðrurnar sem ég minntist á að framan. Þær eru óvænt orðnar það verðmætasta sem við eigum, enda hvetja þær strákinn okkar til að hlaupa um stofuna og fá smávegis útrás, en gallinn er hins vegar sá að þær eru byrjaðar að missa loftið. Undir eðlilegum kringumstæðum myndi ég henda þeim og kaupa nýjar, en ég hef ekki hugmynd um hvar ég get keypt blöðrur í Barcelona þessa síðustu og verstu. Einungis búðir sem selja nauðsynjavörur fá að opna og mér skilst að blöðrur teljist enn ekki til þess hér í landi. Ég er þess vegna byrjaður að endurnýta þær með því að losa hnútinn á þeim með alls kyns krókaleiðum og blása í þær aftur. Aldrei á ævinni hefði mér dottið það í hug áður. Kórónuveiran ræðst nefnilega ekki bara á fólk, heldur líka á sjálfar undirstöður þess kerfis sem við höfum byggt okkur. Hún neyðir okkur til nýtni og að draga saman seglin.

Það er raunar magnað að sjá hversu hratt hlutirnir geta breyst. Við Íslendingar fengum auðvitað smáæfingu í því í hruninu. Þá varð líka eitthvert rof í veruleikanum sem saug allt til sín svo ekkert annað komst að. Það sama er uppi á teningnum nú. Á aðeins örfáum dögum hefur sjálf heimsmyndin orðið önnur. Götur eru að mestu tómar eins og í heimsendamynd og þær fáu hræður sem læðast um með grímur og hanska fara varlega um. Það er enginn að flýta sér lengur, það er enginn seinn lengur. Það er búið að hægja á öllu og fólk sýnir hvert öðru meiri tillitssemi og þakklæti en áður. Barcelona virkar líka hreinni, loftið er ekki eins mengað vegna mun minni umferðar og öll kvöld fer fólk út á svalir til að klappa fyrir hetjunum sínum, heilbrigðisstarfsmönnum landsins. Lófatakið og gleðiópin eru svo há að þau dynja um allt hverfið mitt á slaginu átta. Það er eins og vírusinn hafi ýtt á endurræsingu heimsins og fengið okkur öll til að stoppa og hugsa um þá átt sem við vorum að æða í, hvert í sínu horni. Hann er að neyða okkur til samstöðu og samhugs einmitt þegar við þurftum mest á því að halda. Spurningin er bara hvort þetta verði varanlegt eða hvort allt detti í sama farið um leið og þessu lýkur.

Höfrungar og hnattræn hlýnun

En burtséð frá því hvað gerist seinna meir, þá höfum við að minnsta kostið fengið innsýn í heim sem virkaði örlítið framandi og jafnvel ómögulegur áður. Það hafa til dæmis ljósmyndir verið að ganga á Netinu sem sýna síkin í Feneyjum hrein og höfrunga synda upp að bökkum hennar. Þetta var reyndar ekki alveg svo gott, höfrungarnir voru í raun við strendur ítölsku eyjunnar Sardiníu og skíturinn í feneysku síkjunum er enn til staðar en þyrlast síður upp sökum færri báta, en að loftmengun hafi snarminnkað í Kína og á Ítalíu er hins vegar engin flökkusaga. Í febrúar lækkaði losun koltvísýrings í Kína um heil 25 prósent en landið ber ábyrgð á þriðjungi allrar losunar í heiminum svo um gríðarlega háar tölur er að ræða er að ræða. Ástæðan er að sjálfsögðu einföld, tímabundin lokun ýmissa verksmiðja og margfalt minni umferð í lofti, á láði og legi. Þegar vísindamenn hafa verið að vara við hlýnun jarðar sáu líklega fáir fyrir að nokkuð í líkingu við þetta gæti gerst og það á jafnstuttum tíma. Kannski væri einfaldlega best ef það væri framvegis sett á útgöngubann í heiminum í einn mánuð á ári, til dæmis í janúar eða febrúar á landi eins og Íslandi, mánuðina sem enginn þolir hvort sem er. Ætli það myndi duga til að stöðva hnattræna hlýnun? Og það eina sem við þyrftum að gera væri að hanga heima hjá okkur og horfa á sjónvarpið? Frekar góður díll, ef þið spyrjið mig.

Ég hef meira að segja verið að næra áhuga minn á samsæriskenningum aðeins að undanförnu og velt fyrir mér hvort kórónuveiran sé í raun bara ein allsherjar blekking. Sett af stað af fámennum hópi til að sporna við hlýnun jarðar. Þetta er næstum of fullkomið. Að breiða út óvin sem enginn sér. Sem er sama um kynþátt og trúarbrögð. Sem sameinar fólk og neyðir það til að vera heima hjá sér og þannig draga úr neyslu og menga minna. Auðvitað er það ekki svo og fólk er í bráðri hættu, en það er bara eitthvað við tímasetninguna sem virkar hálfótrúlegt. Einmitt þegar heimurinn þurfti mest á því að halda að vakna, þá kemur veira sem lamar allt og krefur okkur um að endurmeta lífsmáta okkar. Það er nánast eins og það sé verið að æfa okkur í því að berjast við gróðurhúsáhrif, hina stóru vána sem ógnar mannkyni nú um þessar mundir.

„Við erum komin svo óþægilega nálægt plágunum tíu í Gamla testamentinu að ég er að hugsa um að setja Biblíuna sem fylgdi íbúðinni í frystinn.“

Bossa nova

Eins og þið sjáið er ég dottinn í heimsósóma, en er annað hægt á þessum fáránlegu tímum sem við lifum á, þar sem miðaldasjúkdómar ganga yfir, dýrategundir deyja út hægri-vinstri, flóð þykja líkleg til að eyða út stórborgum og núna síðast, engisprettufaraldur í Afríku. Við erum komin svo óþægilega nálægt plágunum tíu í Gamla testamentinu að ég er að hugsa um að setja Biblíuna sem fylgdi íbúðinni í frystinn. Ég skal reyndar viðurkenna hér og nú að ég var með „upplifa plágu á tímum samfélagsmiðla“ á bucket-listanum mínum, en núna sé ég að það er ekkert gaman, nema kannski fyrir allt það fallega sem maður hefur séð. Samstöðuna um víða veröld og hjálpsemina á milli fólks og þjóða, að ógleymdum ítalska söngnum á svölunum þar í landi. Maður hefur einfaldlega mestar áhyggjur af því að svo skæð veira berist í fjölmennar flóttamannabúðir eða fátækari ríki heims með verri heilbrigðiskerfi, því þá er líf milljóna manna í alvöru í hættu. Það er á ábyrgð okkar allra að láta það ekki gerast, meðal annars með því að halda okkur heimafyrir og þvo okkur um hendurnar. Einfaldara verður það varla.

Það er auðvitað ögn klikkað að maður sé kominn í þessa stöðu, að tala fyrir handþvotti og inniveru til að bjarga mannslífum, að vakna á morgnana og vita að maður sé að upplifa skrítnustu daga ævi sinnar. Ég fór til dæmis í tvær furðulegustu búðarferðir lífs míns þessa síðustu ellefu daga. Í annarri ferðinni voru flestar hillur tómar og fólk á fullu að hamstra síðustu matvörurnar sem enn voru í boði. Í kjötdeildinni var ekkert eftir nema kassi með svínafeiti. Ég vona að svínafeitin taki það ekki of persónulega. Í hinni ferðinni var enginn annar í matvöruversluninni nema ég, hillur þó vel troðnar líkt og einungis fyrir mig, og á meðan ég ýtti kerrunni um eins og Palli var einn í heiminum ómaði kósí lyftutónlist undir úr hátölurum. Ég leit örugglega út eins og einhver sturlaður einvaldur sem heimtaði að fá að versla einn í risastórum súpermarkaði.

Einna skrítnast í þessu öllu saman er þó kannski biðin. Það veit enginn hvað gerist næst. Það eina sem maður getur gert er að bíða og vona eftir fréttum um að ástandið sé byrjað að lagast. Eða bíða og vona eftir dagsetningu um hvenær útgöngubanninu verði loks aflétt. Tvær vikur? Fjórar vikur? Sex vikur? Ég las einhvers staðar að Nýja-Sjáland væri að hugsa um að setja 18 mánaða sóttkví í landinu ef faraldurinn heldur áfram að breiðast út. Bið og óvissa. Óvissa og bið. Engin furða að fólk viti ekki hvað það á að gera við sjálft sig. Ég sá myndir frá Bandaríkjunum þar sem íbúar voru að setja upp jólaskreytingar. Í mars. Þeir sögðust vilja „lýsa upp myrkrið“, en ég held að ástæðan sé önnur. Þetta eru súrrealískir tímar og þá gerir fólk súrrealíska hluti. Einhverra hluta vegna hef ég til dæmis verið að hlusta óeðlilega mikið á brasilíska bossa nova tónlist í sóttkvínni. Hvern hefði grunað að sambadjass, þessi leikandi létta en tregafulla músík, væri hið fullkomna tónlist í miðjum heimsfaraldri?

Eftirminnileg afmælisveisla

Fyrir einhverjum árum hélt ég að ég hefði fæðst í besta heimi allra mögulegra heima eins og þýski heimspekingurinn Leibniz kallaði það. Þegar ég var að alast upp á níunda áratug síðustu aldar var uppgangur í heiminum og hvergi nein ógn. Það var reyndar talsvert talað um gatið á ósonlaginu, en það var hvort sem er svo langt í burtu, og Saddam Hussein varð vinsæll á þeim tíunda, en hann var líka einhvers staðar lengst úti í buska. Upp úr aldamótum er eins og það hafi byrjað að halla undan fæti. Setjum 11. september sem upphafið. Að fljúga varð allt í einu hættulegt. Hryðjuverkaárásir gátu gerst alls staðar. Síðan fengum við okkar eigin bankakrísu, þá stærstu síðan 1929, og um svipað leyti fóru gróðurhúsáhrifin að taka sífellt meira pláss í fréttunum. En í stað þess að fá sterka þjóðarleiðtoga til að tækla það erfiða mál gaf heimurinn okkur hárkollustatífið Donald Trump og lukkutröllið Boris Johnson. Og þegar maður hélt að ástandið gæti varla orðið miklu skrítnara ákveður eitt stykki heimsplága að heilsa upp á. Þessi besti heimur allra mögulega heima sem ég trúði á í sakleysi mínu virkar nú ansi fjarlægur.

Ég ætlaði að byrja á skáldsögu um þetta allt saman, enda efni í heilt bókasafn, þótt það væri vissulega smásjokk að fatta að þetta er í grunninn söguþráður kvikmyndarinnar The Shining – hjón með ungan son fara í einangrun og fjölskyldufaðirinn hefst handa við skrif á skáldsögu. En örvæntið ekki, mér tókst ekki einu sinni að byrja á bókinni og hætti fljótt við hana, því þegar ég sat fyrir framan tölvuna og lokaði augunum kom ekkert. Hausinn minn er svo smitaður af veirunni að ég get varla hugsað um neitt annað. Ég er lítið að pæla í fortíðinni og ég er lítið að pæla í framtíðinni. Ég hef líklega aldrei áður verið jafnmikið í núinu. Kórónuveiran er hin fullkomna núvitund. Nema kannski fyrir það litla atriði að við hjónin eigum von á okkar öðru barni eftir nokkrar vikur. Við reynum að gera okkar besta til að undirbúa komu þess, en í svona óvissuástandi er það erfitt. Spænska amman suður í Andalúsíu ætlaði til dæmis að koma hingað til okkar og hjálpa til, en hver veit hvort það gangi upp. Við eigum líka eftir að kaupa barnavagn handa barninu til að koma því heim af spítalanum, en við höfum ekki hugmynd um hvort búðir muni verða opnaðar á ný áður en það mætir. En við erum samt pollróleg. Við reddum okkur. Fólk á erfiðum tímum reddar sér alltaf, því þá áttar það sig á því hvað skiptir í raun og veru máli.

Ellefu dagar. Ellefu furðulegir dagar síðan að við fjölskyldan fórum í sóttkví. Dagar sem virðast nánast þurrkaðir út af dagatalinu eins og þessir fyrir þremur öldum. Allt er á pásu, framtíðinni hefur verið slegið á frest. Ef fólk vantar nafn á þetta tímabil sting ég upp á Sunnudagurinn langi, því allir dagar eru eins og sunnudagur. Eins og óendanlega langur sunnudagur þar sem maður er heima í kósífötum með fjölskyldunni. Sömu sögu er að segja um bæjarlífið, allt er lokað og einungis örfáir á ferli eins og zombí í leit að einhverjum að bíta. Eða hnerra á, í þessu tilviki. Það er ljóst að neyðarástandið á Spáni og útgöngubannið mun vara eitthvað áfram. Það þýðir fleiri horfna daga af almanakinu, fleiri gleymd afmæli, en konan mín er einmitt ein þeirra sem átti afmæli í miðri sóttkví. Hún var byrjuð að skipuleggja veislu heima hjá okkur og bjóða ýmsum vinum, en það var auðvitað allt blásið af og í staðinn héldum við þrjú okkar eigið litla partí. Ég setti brasilískan bossa nova á og við bökuðum köku úr því sem við áttum til í eldhúsinu, því hún vildi ekki að ég hætti mér út úr húsi að óþörfum. Kakan var betri en við áttum von á og treginn í tónlistinni hvarf í eitt andartak. Þetta verður eftirminnilegasta afmæli sem ég hef nokkurn tíma farið í.

Texti / Óttar M. Norðfjörð
Myndir / Elo Vázquez

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Þórdís Kolbrún gjörsigraði:- Haraldur sagðist hætta

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sigraði í próf­kjöri flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi....

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -