Þriðjudagur 4. október, 2022
8.8 C
Reykjavik

Svandís syrgir föður sinn: „Ef ég reyni að skrifa um hann gæti ég aldrei hætt“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ber föður sinn, Svavar Gestsson, til grafar í dag. Hún segist á Facebook ekki hafa treyst sér að skrifa um hann sjálf, því þá myndi hún aldrei geta hætt því. Hún vitnar því í minningargrein eiginmanns síns, Torfa Hjartarsonar.

Svandís skrifar: „Í dag er útfarardagur elsku pabba frá Dómkirkjunni í Reykjavík. Ef ég reyni að skrifa um hann gæti ég aldrei hætt. Mig langar að deila með ykkur grein sem Torfi minn skrifaði og birtist í Morgunblaðinu í dag. Takk fyrir alla hlýjuna og góðu kveðjurnar.“

Torfi segist hafa horft upp til Svavars sem ungur maður. „Svavari á ég mikið upp að unna og þegar hann kveður finn ég fyrir þakklæti sem minnir helst á djúpan og tæran hyl eða ægibjarta víðáttuna í Hólaseli við Króksfjörð, þar sem augað þreytist aldrei á að finna nýja og töfrandi hluti. Ég hreifst af honum ungur eins og svo margir af minni kynslóð og varð einarður vinstrimaður á unglingsaldri en vissi ekki þá að leiðir okkar ættu eftir að liggja saman löngu síðar og það með jafn afgerandi hætti og raunin varð! Svavar var ekki bara afreksmaður og hetja í stjórnmálum í ævilangri baráttu sinni fyrir betra samfélagi, hann átti líka fjölskyldu sem ég var svo gæfusamur að fá að tengjast,“ segir Torfi.

Hann segir samverustundir með honum og allri fjölskyldunni hafi verið afar dýrmætar. „Hann var fátækur sveitastrákur úr stórum systkinahópi, elstur í hópnum og ræktaði öll sín fjölskyldutengsl af kostgæfni allt til loka, kvæntist Nínu okkar ungur og Guðrúnu okkar síðar, átti börn og buru, tengdabörn og stjúpbörn, barnabörn og barnabarnabörn. Yngst í þeim stóra hópi er hún Nótt sem fæddist í svartasta skammdeginu fyrir rúmu ári síðan og hlær nú við lífinu með tveimur stórum framtönnum og ómótstæðilegu brosi. Samverustundir okkar Svandísar með Svavari, Guðrúnu, börnunum öllum, vinum og ættingjum í smærri og stærri hópum eru svo margar og góðar að engri tölu verður á komið, heima og heiman, innan lands og utan. Lengst var á milli árin þeirra tveggja hjá Íslendingum í Vesturheimi og þegar Svavar fór um lönd og álfur, úr einu heimshorni í annað, að vinna landinu gagn eins og hans voru ær og kýr, alla tíð, að gera eitthvert gagn, um það fannst honum lífið eiga að snúast,“ segir Torfti.

Hann segir að nú sé Svavar minnst í Kanada. „Alls staðar þar sem hann kom að leiddi það til góðs, skrifa þeir núna, Vestur-Íslendingar, í blaðið sitt, og lýsa honum af list án allra fyrirvara eins og þeirri stórbrotnu kempu og þeim höfðingja sem hann var, alltaf með mörg járn í eldinum, alltaf að leita leiða og finna lausnir, safna liði, leiða saman fólk, lyfta flöggum, marka stefnu, líta yfir farinn veg og horfa fram á veginn. Samt svo sterkur í núinu, ekki endilega í löngum lotum eða laus við óeirð, en alltaf skarpur og næmur og veitti fólki óskipta athygli sem varð svo mörgum svo dýrmæt, var áhugamaður um fólk, ekki bara suma, heldur fólk,“ lýsri Torfi.

Hann minnist þess hvernig Svavar hafi mildast með árunum. „Glæstur á velli eins og ég sá svo vel einn góðan veðurdag á sólarströnd í Stokkhólmi, þar sem hann stóð út úr manngrúanum, arkandi um á stuttbuxum og bol í stórum skrefum með hárið flaksandi og símann á lofti. Svo var hann bara svo skemmtilegur og hláturinn í augunum aldrei langt undan. Mér fannst líka gott að sjá hvernig hann mildaðist með árunum, ekki í pólitískri sýn, heldur æðruleysi og sátt við sjálfan sig og lífshlaupið, það skipti hann máli hvernig hans yrði minnst, að segja sögu sína, heimahaganna og samtímans með sínum hætti og það tókst honum líka með svo mörgu móti áður en yfir lauk. Og gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana, barðist við dauðann eins og hetja í fornum sögum, það var fullt tungl þegar hann hneig niður á leið vestur í Dali og Reykhólasveit í byrjun október og úlfatungl á björtum vetrarmorgni þegar við lögðum hann í kistuna, næstum fjórum mánuðum síðar. Við söknum hans öll sárt og mikið en eigum líka mikið að þakka. Svavar var einstakur gæfumaður og það var gæfa fyrir okkur öll að fá að eiga með honum samleið.“

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -