Fimmtudagur 28. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Svavar Eysteinn glímir við ólæknandi krabbamein: „Ég hugsa mjög lítið um dauðann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Svo í lok árs 2018 ákváðum við að hvíla okkur á þessari keyrslu og búa einn vetur í Reykjavík. Í miðjum flutningum greindist ég með krabbamein í vélinda,“ segir tónlistarmaðurinn Svavar Pétur Eysteinsson, þekktur sem Prins Póló, sem glímir við ólæknandi krabbamein. Veikindi Svavars hafa verið á margra vitorði en fjölmiðlar hafa eðlilega gefið honum svigrúm til að fást við þau án þess að opinber umfjöllun yrði.

Svavar er í forsíðuviðtali við Morgunblaðið þar sem hann í fyrsta sinn talar um sjúkdóm sinn. Hann segir að þetta hafi byrjað með því að hann átti í erfiðleikum með að kyngja og fór þá í magaspeglun á sjúkrahúsinu á Norðfirði.
„Ég fæ strax að vita að ég sé með mein í vélindanu,“ segir Svavar.
Meinið reyndist ekki vera skurðtækt.

„Ég fór í lyfjameðferð og hef síðan verið í stöðugum lyfjameðferðum með hléum,“ segir Svavar við Morgunblaðið
Hann lýsir áfallinu við fréttirnar.
„Jú, vægast sagt. Þetta var sambland af því að fá algjört taugaáfall og því að hugsa; já auðvitað, hvað annað. Þegar maður lifir góðu lífi án nokkurra áfalla og hefur fengið að láta alla sína drauma rætast hugsar maður að það hljóti að koma að því að það gerist eitthvað. Þetta getur ekki gengið svona endalaust. Ég er bara búinn að vera of heppinn,“ segir Svavar.

„Fyrsta árið fór líka í það að venjast þessu og vera hræddur. Það var mikið myrkur þetta fyrsta ár. Ég átti það til að stara bara á vegginn, algjörlega miður mín,“ segir Svavar sem talar í fyrsta sinn um veikindin.
„Mér er meira sama um sjálfan mig en það er verra að leggja það á aðra ef maður skyldi þurfa að fara. Ég nenni ekki alltaf að tala um þetta; ég hef ekki þörf fyrir það. Ég nenni ekki að ræða krabbameinið í röðinni í Bónus“.

Krabbameinið fær ekki að vera í fyrsta sæti í lífi Svavars.

„Það eina sem háir mér eru í raun eftirköst af lyfjameðferðum, sem er dofi í höndum og fótum. Það getur líka háð mér í að spila á hljóðfæri. En ég vinn bara með þetta; ég geri allt sem ég get og get næstum allt sem ég gat. Ég er slappur dagana eftir lyfjameðferð og þá bara stimpla ég mig út,“ segir hann og segist vera í meðferð núna á tveggja vikna fresti en það sé breytilegt hversu ört hann þurfi á meðferð að halda.
„Það fundust meinvörp í lungum og lifur en það er allur gangur á því hvort þau séu sýnileg.“

- Auglýsing -

Svavar segist ekki hugsa mikið um veikindin. Tvö og hálft ár eru síðan  hann greindist með krabbann.
„Ég hugsa um veikindin en er ekki heltekinn af þeim. Það er bara einn dagur í einu, alveg
sama hvort við erum veik eða ekki,“ segir hann og bætir við hugsi: „Ég hefði ekki viljað ganga í gegnum þetta án þess að vera edrú. Maður var búinn að fá einhver tól í gegnum edrúgönguna sem nýtast; svo maður fari ekki í stjórnlausan ótta og gremju.“

„Ég hugsa mjög lítið um dauðann. Ég hugsa mest um hann út frá öðru fólki, eins og börnunum. Mér er meira sama um sjálfan mig en það er verra að leggja það á aðra ef maður skyldi þurfa að fara. Þegar að því kemur verður maður að vera búinn að undirbúa það vel, en það er hluti af þessu lífi að hverfa úr því …,“ segir Svavar í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -