Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.8 C
Reykjavik

Sveinbjörn grét þegar Guðmundur var skírður: „Dó frá konu sinni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Brynjólfsson, rithöfundur og djákni, segir frá því á Facebook hvað kom til að hann var skírður Guðmundur Sveinbjörn en sú saga er líklega dramatískari en gengur og gerist. Í það minnsta kemur fyrir í henni örlaga ríkur draumur sem varð til þess að verkalýðsforingi grét.

„Guðmundur hét maður og var Illugason. Hann var fæddur 19. ágúst 1867 en lést þann 25. maí 1899, en þá drukknaði hann er bátur fórst sem var að koma af beitufjöru. Guðmundur dó frá konu sinni, Sesselju Sveinsdóttur (3. febrúar 1877 – 13. ágúst 1956), er var barnshafandi, og tveimur börnum. Eitt af börnum þeirra var Sigurður, afi minn, fæddur 9. júlí 1897 en hann lést 1981 á Akranesi,“ lýsir Guðmundur og heldur áfram:

„Sesselja langamma giftist síðar Sveinbirni Oddssyni verkalýðsforingja á Akranesi. En hann var fæddur 8. nóvember 1885 en lést þann 6. ágúst 1965. Sveinbjörn var formaður sjómannafélagsins Bárunnar frá því 1916 til 1924 en þá var hann stuðningsmaður þess að Verkalýðsfélag Akraness var stofnað. Sveinbjörn var lengi bókavörður á Skaganum.“

Guðmundur er skírður í höfuðið á þessum tveimur mönnum en sögunni er ekki lokið. „Þarna eru komin nöfnin sem ég ber. Guðmundur Sveinbjörn. Síðar skapar maður sér sjálfur nafn. Með misjöfnum árangri, en samt eru þetta nöfnin. Ég hripa þetta hér niður til þess ítreka að maður er sá sem maður er, og nöfnin leiða mann áfram, maður er ekki nafnið – en maður er þó nær því að vera nafnið, heldur en þvi að vera sjúkdómurinn sem maður gengur með eða önnur brennimörk samfélagins.“

Guðmundur klárar svo söguna í annarri færslu. „Þegar ég var nýfæddur og mamma og pabbi höfðu eiginlega ákveðið að ég ætti að heita Þorkell (í höfuðið á Kela á Bakka – sjá fyrri færslu) – þá dreymir mömmu draum. Mömmu dreymir að til hennar kemur Sesselja Sveinsdóttir, amma hennar, og hefur tekið allt hár sitt saman í eina stóra fléttu. En hún hafði mikið hár og var rauðleitt. Mömmu finnst að nafna hennar og amma komi að henni og segi:

„Þig hefur alltaf langað til þess að eiga eitthvað til minningar um mig, er það ekki?“

- Auglýsing -

Mamma man ekki til þess að hún svari neinu en þá er það í draumnum að Sesselja amma hennar tekur skæri og klippir af sér þessa fléttu. Svo réttir hún mömmu fléttuna og er þá á henni blár borði,“ lýsir Guðmundur.

Þessi var ráðinn á endanum. „Mamma og amma mín á Skaganum fara að skoða þetta og velta fyrir sér og komast að því að þarna sé verið að vitja nafns. Fléttan mikla sé tákn um báða eiginmenn langaömmu minnar og blái borðinn tákni mig. Er því ákveðið að ég skuli heita nöfnum eiginmanna langaömmu minnar Sesselju Sveindóttur. Það vill segja, Guðmundur og svo Sveinbjörn. Svo kemur að því að mér er gefið nafn og ég skírður í tölu kristinna manna og frá því augnabliki man mamma mín eitt, sérstaklega; en það var að Sveinbjörn Oddsson táraðist.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -