Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Sverrir opnar sig um skelfilegasta dag ársins: „Eldri borgarar bera kvíðboga“ en „börn gráta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Engu er líkara en að búið sé að þróa nýja fíkn meðal þjóðarinnar, sprengifíkn. Var þó nóg af öðrum fíknum fyrir. Sprengifíknin leysist úr læðingi úti um allt, er meiri háttar og truflar alla. Eyðileggur meira og minna alla hátíðarstemmningu. Íþróttafélög og björgunarsveitir standa aðallega fyrir sölu á þessu dóti til að fjármagna lofsverða starfsemi sína. Þessir aðilar gera út á fíknina og stofna þar með andlegri og líkamlegri heilsu fólks í hættu til þess að afla fjár til að bjarga öðru fólki úr háska eða efla heilsu þess. Þetta er skrítin þversögn.“

Þetta skrifar Sverrir Ólafsson í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann gamlárskvöld vera orðið í hans huga skelfilegasta kvöld ársins. Hann rifjar upp hvernig þetta var þegar hann var ungur og það ætti ekki að koma neinum á óvart að það var betra þá að hans mati. Að vísu lýsir hann því hvernig heimatilbúin sprengja sprakk framan í lögreglumann.

„Gamlárskvöld var enda eitt mesta hátíðarkvöld ársins. Ærslafengnir unglingar, sem höfðu komið sér upp heimagerðum púðurkellingum og kínverjum, héldu niður í Austurstræti og skemmtu sér við að kveikja í þessu dóti þar. Að mestu gekk þetta vandræðalaust en stöku sinnum þurfti lögregla að láta til sín taka við misjafnar vinsældir. Yfirleitt jókst fjörið í réttu hlutfalli við afskipti lögreglunnar. Kínverji sprakk uppi í einum verði laganna með óskiljanlegum hætti svo að rifnaði út úr, sem segir tvennt: Lögreglumenn ættu ekki að vera mjög opinmynntir og sprengidót getur verið hættulegt. Sem betur fer tókst að lappa upp á lögreglumanninn og lágmarka varanlega skaða,“ skrifar Sverrir.

Hann vill snúa aftur til þess tíma. „Reyndar var sala á sprengidóti bönnuð á þessum árum af framangreindum ástæðum og full ástæða til. En ólætin voru staðbundin, yfirleitt minni háttar og trufluðu fáa. Nú er búið að snúa öllu þessu á haus. Vandamálin hafa stigmagnast með ári hverju. Á þessu kvöldi er sprengignýrinn þvílíkur, að engu er líkara en að styrjöld sé skollin á. Eldri borgarar bera kvíðboga fyrir þessu kvöldi og reyna jafnvel að koma sér í burtu.“

„Mengun er óskapleg er baneitruðum efnum er dælt út í andrúmsloftið fyrir brjóstveika og lungnasjúklinga til að anda að sér. Menn svíður í augu og háls. Börn gráta og fyllast skelfingu vegna djöfulgangsins. Um alllangt skeið nálægt miðnætti síðastliðið gamlárskvöld sást ekki yfir götuna við heimili höfundar þessa pistils vegna mengunar. Skrautlegir skoteldar hurfu upp í sortann og sáust ekki meir. Til hvers í ósköpunum var þá verið að standa í að skjóta þessu upp í loftið?,“ spyr Sverrir.

Hann hvetur svo björgunarsveitirnar til þess að hætta að selja flugelda: „Vonandi er að opinberir aðilar og umhverfisyfirvöld taki fast á þessum málum og sýni enga linkind við að draga úr heilsuspillandi hávaða, umhverfismengun, slysahættu og sóðaskap. Að verulegu leyti mætti hverfa aftur til fimmta áratugar síðustu aldar. Vonandi getur gamlárskvöld aftur orðið hátíðleg stund, sem fólk þarf ekki að kvíða fyrir og vona að komi aldrei aftur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -