Þriðjudagur 23. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Svo óendanlega heppin í lífinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heiða Björg Jóhannsdóttir tónlistarkona hefur mörg járn í eldinum. Auk þess að semja tónlist, syngja og leika á klarínett með hljómsveit sinni Heida Björg & The Kaos starfar hún ötullega að mannúðarmálum í Marokkó, þar sem hún býr með eiginmanni og tveimur dætrum, heldur tónleika og tekur þátt í kvikmyndagerð.

Heiða Björg Jóhannsdóttir tónlistarkona starfar að mannúðarmálum í Marokkó, þar sem hún býr með eiginmanni og tveimur dætrum, heldur tónleika og tekur þátt í kvikmyndagerð.

Ástæða þess að hún er á Íslandi að þessu sinni tengist einmitt kvikmynd, myndinni Women sem franski ljósmyndarinn Yann Arthus Bertrand vinnur nú að, og er verkefni Heiðu Bjargar að finna íslenskar konur til að taka þátt í myndinni.

Heiða Björg er í miðju kafi við að taka undirbúningsviðtöl við íslenskar konur sem hugsanlega viðmælendur í myndinni Women þegar Mannlíf hefur samband við hana. Hún segir áhuga íslenskra kvenna á myndinni mikinn og gleðilegan. En um hvað snýst myndin? „Franski ljósmyndarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Yann Arthus Bertrand sem gerði myndirnar Home sem fjallaði um náttúruna, og Human þar sem hann tók viðtöl við fólk um allan heim til að sýna fram á fjölbreytnina í mannlífinu og hvað við erum öll tengd hvert öðru og náttúrunni. Þegar hann var að vinna þá mynd fór hann að hugsa um hvað konur hefðu miklu að miðla og ákvað að gera aðra mynd eingöngu um konur. Við vinnslu hennar fer hann til 50-60 landa og tekur viðtöl við 20-30 konur í hverju landi og þótt myndin sjálf verði ekki nema einn og hálfur tími er viðtalið við hverja konu tveir tímar, sem síðan er vinsað úr. Þannig að þetta er risastórt verkefni.“

Barátta við heilbrigðiskerfið í Marokkó
Heiða Björg er líka að leita að þýðanda sem getur þýtt íslensku viðtölin yfir á frönsku og hún kemur aftur seinna í maí til að ganga frá því máli. En hvernig lenti hún inni í þessu verkefni til að byrja með?
„Það er löng og dálítið flókin saga,“ segir Heiða Björg og hlær. „Ég bý í Marokkó, hef búið þar í þrjú ár eftir að hafa búið í Frakklandi í tólf ár, og hef þar gengið í gegnum dálítið massað tímabil hvað varðar þá fátæku. Ég finn það bara svo rosalega sterkt hvað ég er óendanlega heppin í lífinu yfirhöfuð og tala nú ekki um að vera fædd á Íslandi, og þegar ég rekst á fólk í Marokkó sem ég get hjálpað á einhvern hátt finnst mér ekki um annað að ræða en að reyna að gera mitt besta til að hjálpa þeim sem ég get.
Þegar við fluttum til Marokkó fylgdi ráðskona húsinu okkar og þótt Íslendingum finnist það skrítið þá er litið á það þannig að ef þú sem útlendingur ert ekki með fólk í vinnu þá ertu ekki að hjálpa láglaunastéttinni. Við erum svo heppin að þessi kona er alveg yndisleg og í dag er hún orðin partur af fjölskyldunni.

„Þegar hann var að vinna þá mynd fór hann að hugsa um hvað konur hefðu miklu að miðla og ákvað að gera aðra mynd eingöngu um konur.“

Fyrir rúmu ári lenti systurdóttir hennar í því að þurfa að henda sér út úr bíl á 80 kílómetra hraða til að komast hjá nauðgun. Hún braut nánast hvert bein í líkamanum auk alls kyns annarra meiðsla en það tók enginn spítali við henni. Staðan í Marokkó er bara sú að ef þú átt ekki peninga þá er ekkert gert fyrir þig svo ég tók það að mér að safna peningum og hjálpa henni að fá þá þjónustu sem hún þurfti, annars hefði hún bara verið látin deyja heima hjá sér. Það kostaði þriggja mánaða átök að fá læknana til að hjálpa henni á þann hátt sem hún þurfti, en ég gafst ekki upp. Á þeim tíma var ég að gefa út disk og undirbúa tónleika í París og fannst ég verða að gera „cover“ af einhverju lagi. Í þeirri leit fann ég lag sem heitir „Human“ eftir Rag’n bone man, sem fjallaði nákvæmlega um líf mitt á þessari átakastundu. Laginu var svo vel tekið á tónleikunum að ég ákvað að taka það upp. Einni vinkonu minni datt þá í hug að hefja samstaf með Yann Arthus Bertrand þar sem hann hafi gert mynd með sama nafni og væri að gera núna myndina Women. Mér fannst það alveg súrrealísk hugmynd að hann myndi vilja vinna með mér, svo rosalega eftirsóttur sem hann er, en mér tókst að fá símaviðtal við hann. Ótrúlegt en satt, þá kom hann sjálfur með þá hugmynd að við héldum tónleika í hans Good Planet Foundation í París, sem verða 2. júní, og í staðinn gæfi hann mér aðgang að öllum loftmyndum sem hann hefur tekið við gerð tónlistarmyndbandsins við cover-lagið Human. Í lok símtalsins spurði hann mig hvort ég þekkti ekki einhverjar íslenskar konur sem gætu hentað sem viðmælendur í Women. Auðvitað hóf ég strax leit. Ég er alltaf til í að taka að mér verkefni sem eru áskorun fyrir mig.“

Eina markmiðið að geta gifst
Heiða Björg segir markmið myndarinnar Women vera að sýna líf kvenna frá öllum heiminum frá A-Ö, bæði hvað þær búa við ólíkar aðstæður en ekki síður hvað við eigum í raun margt sameiginlegt. Það sé alls ekki lögð áhersla á að einblína á hið neikvæða, þótt það sé mikilvægt að koma því til skila, heldur sé verið að segja alls konar sögur og koma þeim skilaboðum áleiðis að þótt alls konar erfiðleikar steðji að megi konur ekki missa móðinn.

Talandi um erfiðleika sem konur lenda í verð ég auðvitað að spyrja hvernig stúlkan sem Heiða Björg hjálpaði að fá læknisaðstoð hafi það í dag. „Ég er ánægð að geta sagt frá því að núna, einu ári síðar, eftir að hafa verið rúmliggjandi í níu mánuði, er hún laus við hækjurnar og orðin ótrúlega heilbrigð líkamlega. Sem er alveg stórkostlegt. Næsta skref sem ég er byrjuð að vinna í er að hjálpa henni að láta eitthvað verða úr sér. Hún er 21 árs og er bara að bíða eftir því að geta gifst, sem fátækar konur í Marokkó sjá sem eina markmið sitt í lífinu. Þær eru algjörlega heilaþvegnar hvað þetta varðar og það er ekki nema þær fæðist með einhverja náðargáfu sem þær sjá ástæðu til þess að leita einhverra annarra leiða í lífinu. Það er meira en að segja það að breyta því viðhorfi, en ég ætla ekki að gefast upp.“

- Auglýsing -

Má ekki gleyma sjálfri sér

Heiða Björg segir markmið myndarinnar Women vera að sýna líf kvenna frá öllum heiminum frá A-Ö, bæði hvað þær búa við ólíkar aðstæður en ekki síður hvað við eigum í raun margt sameiginlegt.

Auk allra þessara verkefna er Heiða Björg að setja á stofn vefsíðu með það að markmiði að fólk geti styrkt beint fátækar mæður eða fjölskyldur í Marokkó til að sjá sér og börnum sínum farborða, gefa út disk númer tvö, semja disk númer þrjú með hljómsveit sinni og sinna dætrum sínum tveimur og fjölskyldu, er hún kannski þessi margumtalaða ofurkona sem oft er vísað til?

„Já, algjör ofurkona,“ segir Heiða Björg og skellihlær. „Nei, nei, ég held við séum afskaplega margar svona. Ég á voðalega bágt með að vera „bara“ heima með börnin, þótt það hljómi rosalega illa að segja „bara“ í því samhengi og ég sé ósammála sjálfri mér um leið og ég segi þetta. Það er alveg óendanlega gefandi hlutverk. Ég hef meira verið að spila í brúðkaupum og taka á móti sjúklingum í músíkþerapíu undanfarin ár, semja lög, fara á ráðstefnur hér og þar, og í leit að bókara fyrir hljómsveitina til þess að hafa meiri tíma með stelpunum sem eru núna fimm og tveggja ára gamlar.

„Ég held nú að það séu holl skilaboð fyrir dætur mínar að mamma þeirra sé að vinna við það sem skiptir hana raunverulegu máli í lífinu.“

- Auglýsing -

En núna ætla ég að leyfa mér að hugsa aðeins meira um sjálfa mig og minn starfsferil og lofa mér að túra aðeins meira. Maður má ekki gleyma sjálfum sér. Ég er samt mjög stolt af þeim konum sem sjá það að vera mamma sem helsta hlutverk sitt í lífinu og mér finnst það ofboðslega fallegt. Ég átti yndislega æsku og ólst sjálf þannig upp að móðir mín hætti að vinna til að vera heima og sjá um okkur systkinin og það er óendanlega stór gjöf. Mig langar að gefa börnunum mínum þá gjöf, en svo finn ég það líka með árunum að mamma gleymdi sjálfri sér svolítið og ég hefði viljað að hún hefði hugsað meira um sig. Ég held að börn langi þegar þau verða eldri að finna að móðir þeirra blómstri. Maður verður að horfast í augu við það hver maður er og tónlistin hefur verið minn heimur síðan ég man eftir mér.

Þegar ég fór í framhaldsnám í klarínettuleik í París á sínum tíma ætlaði ég reyndar í innanhússarkitektúr með, en það er svo sterkt í mér að vinna að því að hjálpa manneskjum að ég ákvað að fara í músíkþerapíu í staðinn. Þannig að nú er ég músíkþerapisti, klarínettuleikari, söngkona, tónsmiður og mamma, auk þess að reyna að gera mitt besta til að hjálpa öðru fólki að eignast betra líf til að þakka fyrir það í verki hvað ég hef átt ofboðslega gott líf. Ég held nú að það séu holl skilaboð fyrir dætur mínar að mamma þeirra sé að vinna við það sem skiptir hana raunverulegu máli í lífinu. Við gerum jú allar, og öll, okkar besta.“

Myndir: Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -