Föstudagur 19. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Svona kvaddi 10 ára gutti Fjölni afa sinn – Jónas deilir hugljúfri teikningu: „Bye afi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar áhugaverðan pistil á vefnum Lifðu núna um enskunotkun barna í dag. Hann segir sögu af því þegar barnabarn hans missti hinn hinn afa sinn þá hafi drengurinn skrifað hinstu kveðjuna á ensku. Hún hafi þó verið ákaflega hugljúf engu að síður.

„Hvað gerir 10 ára gutti sem stendur frammi fyrir því að kveðja afa sinn hinstu kveðju? Jú, hann kveður hann á sinn hátt, með elskulegri kveðju, en kannski – og að vonum – nokkuð undir áhrifum Youtube og þeirrar ensku sem nútímabörn læra sjálfkrafa með snjallsíma- og tölvunotkun. Því neitar enginn að börn á þessum aldri eru býsna glúrin þegar kemur að notkun þessara mögnuðu tækja, þótt deila megi um lengd þess tíma sem þau verja í símanum eða tölvunni. Og enskukunnáttan fylgir með. Nánast allt það efni sem börnin skoða í snjalltækjunum er á ensku og áður en nokkur veit eru þau mælandi á enska tungu löngu áður en til formlegs enskunáms kemur,“ segir Jónas.

Afi piltsins var Fjölnir Björnsson sem lést 3. október síðastliðinn. „Þessi tíu ára yngissveinn, sem að ofan er getið, er sonarsonur okkar hjóna en hann býr með foreldrum sínum og systkinum í Danmörku. Móðurafi hans, Fjölnir Björnsson, lést nú á haustdögum eftir skammvinn veikindi. Drengurinn kom því hingað til lands með sínu fólki vegna útfarar afa síns,“ segir Jónas.

Jónas segir að Fjölnir og barnabörnin hafi náð ákaflega vel saman. „Það var kært með móðurafanum og barnabörnunum enda var Fjölnir hlýr maður og umhyggjusamur. Það var því með sorg í hjarta sem börnin fylgdu afa sínum síðasta spölinn. Að lokinni kistulagningu og útför vildu þau minnast hans á sinn hátt. Fullorðið fólk sendir blóm, samúðarskeyti og þess háttar en annað hentar börnum betur. „Hvað eigum við að gera?” spurðu þau mömmu sína. „Þið getið perlað eitthvað fallegt eða teiknað mynd sem við getum sett á leiðið hjá afa,” sagði mamma þeirra,“ lýsir Jónas.

Börnin vildu það vissulega. „Börnin tóku hana á orðinu og hófust handa. Það dreifði huganum að búa eitthvað fallegt til fyrir afann sem þeim þótti svo vænt um. Þau gáfu sér góðan tíma og perluðu, m.a. fallegt hjarta og litla kanínu sem hægt var að leggja á leiðið. Tíu ára drengurinn vildi gera eitthvað annað svo mamma hans stakk upp á því að hann teiknaði mynd fyrir afa sinn sem leggja mætti á leiðið. Það leist okkar manni vel á svo hann fékk blað og og liti,“ segir Jónas.

Hann lýsir svo því sem börnin lögðu á leiðið. „Þegar allt var tilbúið fóru foreldrarnir með börnin að leiði afa síns. Perlu-kanínunni var komið fallega fyrir sem og litskrúðugu hjartanu. Síðan afhenti tíu ára pilturinn móður sinni teikninguna sem hann hafði lagt hug og hjarta í. Þar sást sól og jörð, flugvél á lofti sem væntanlega táknaði ferðirnar milli landanna tveggja, íslenski fáninn og loks skip á haffleti. Það var táknrænt því Fjölnir afi var fyrr á starfsferli sínum stýrimaður og skipstjóri,“ segir Jónas.

- Auglýsing -

Umrædd kveðjuorð voru þó mest áberandi að sögn Jónasar. „En mest áberandi á myndinni voru kveðjuorð til afa. Drengurinn er almæltur á íslensku – og dönsku, að sjálfsögðu, þar sem hann hefur gengið í skóla í Danmörku undanfarin ár – en hann ákvað engu að síður að minnast afa síns á ensku, sem hann kann vel eftir alla tölvuleikina og Youtube-áhorfið. Áhrif þess leyndu sér ekki þegar hann rétti mömmu sinni myndina til að leggja á leiðið en stóð þar skýrum stöfum:

Bye Fjölnir

you will

- Auglýsing -

be missed.

Efst í hægra horninu stóð, stutt og laggott: Love Viggó.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -