Laugardagur 28. janúar, 2023
2.1 C
Reykjavik

Tálbeitur afhjúpa meinta afbrotamenn: „Hlutverk fjölmiðla að segja fréttir en ekki búa þær til“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Upp á síðkastið hefur verið fjallað um aðgang á TikTok þar sem tálbeitu er beitt við að afhjúpa meinta barnaníðinga. Á myndskeiðunum eru mennirnir meðal annars nafngreindir, aldur þeirra birtur og skjáskot sýnd af samskiptum þeirra við tálbeituna sem er á barnsaldri. Tálbeituaðferðin orkar lagalegs tvímælis og er jafnan notuð af dómstóli götunnar.  Í baksýnisspegli kvöldsins verður stiklað á stóru um samfélagslega umræðu sem átti sér stað á árunum 2007 – 2009 meðal annars vegna sjónvarpsþáttarins Kompás sem sýndur var á Stöð 2. Á þessum árum voru þeir í umsjón Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, Inga R. Ingasonar og Kristins Hrafnssonar. Fréttaskýringaþættirnir nutu mikilla vinsælda en þáttastjórnendur nýttu gjarnan tálbeituaðferðina. Í dag er Kompás enn í birtingu á Stöð 2 þó með breyttum áherslum.

Umsjónarmenn Kompás framleiddu yfir 100 þætti og er einn þeirra sérstaklega eftirminnilegur og náði hátt í samfélagslegri umræðu. Í þættinum var nýtt tálbeita til að leiða meinta barnaníðinga í gildru. Tálbeitan kynntist mönnunum í gegnum stefnumótasíðu og var aldur hennar undir lögaldri. Mennirnir voru svo myndaðir á vettvangi sem planaður hafði verið til stefnumóta.

 Lögreglan getur lítið aðhafst

Í Morgunblaðinu laugardaginn 27. janúar 2007 birtist frétt eftir Rúnar Pálmason þar sem útskýrt var hvers vegna lögreglan gæti ekki haft hendur í hári meintra barnaníðinga viðlíka og gert var í þættinum sem var sjónvarpað sunnudaginum 21. janúar 2007.

 Lögreglan hefði ekki getað notað tálbeitu með sama hætti og fréttaskýringaþátturinn Kompás gerði þegar hann egndi fyrir dæmdan barnaníðing við gerð þáttar sem sýndur var sl. sunnudag, að mati Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Á hinn bóginn gætu gögn sem fréttamenn Kompáss hafa undir höndum nýst lögreglu. Fréttastofa Stöðvar tvö afhendir lögreglu í gær gögnin, sem lögregla telur sig þurfa til að bera kennsl á 5 einstaklinga sem myndaðir voru í tengslum við umfjöllunina. Þótt Stefán telji ótvírætt að lögregla hefði ekki getað notað sömu aðferðir og Kompás er það alls ekki svo að lögregla geti ekki notað tálbeitur við störf sín. Þær verða einfaldlega að starfa með öðrum hætti.“

[…]

- Auglýsing -

Ekki hvaða tálbeita sem er

„Lögregla telur sér heimilt að nota tálbeitur en ekki hvaða tálbeitu sem er,“ sagði Stefán og vísaði sérstaklega til ofangreinds dóms Mannréttindadómstólsins sem væru lög hér. „Ég lít svo á að yfirvöld geti ekki notað tálbeitu með þeim hætti sem var gert í þættinum. Ég held að það sé hafið yfir allan vafa og nokkuð klárt að það myndi ekki standast Mannréttindasáttmála Evrópu ef yfirvöld gerðu þetta.“ Aðspurður hvort lögregla gæti notað gögn sem aflað var með þessum hætti, sagði Stefán að það væri a.m.k. ekki útilokað. Lögregla þyrfti annars vegar að kanna hvort sá einstaklingar sem fjallað var um í þættinum á sunnudag hefði framið refsiverð brot. Hins vegar lægi það fyrir, samkvæmt upplýsingum þeirra Kompássmanna, að karlmenn hefðu lýst yfir áhuga sínum, og gengið býsna langt í því, að óska eftir kynferðislegu samneyti við börn. „Við teljum mjög mikilvægt að fá nánari upplýsingar um það út frá almannahagsmunum, vegna öryggis borgaranna og barnanna,“ sagði Stefán. Aðspurður hvað lögregla myndi gera við þessar upplýsingar, sagði hann að m.a. yrði kannað hvort þeir kynnu að tengjast óupplýstum málum sem tengjast áreitni o.fl.

Lögbannskrafa á Kompás

- Auglýsing -

Í DV, mánudaginn 22. júlí 2008 var rætt við Benjamín Þór Þorgrímsson og lögmann hans Vilhjálm Hans Vilhjálmsson. En fyrirhuguð var birting Kompáss-þáttar sama kvöld, um handrukkara, þar sem afhjúpa átti Benjamín. Vildu þeir meina að Kompáss-menn hafi staðið fyrir leikriti þar sem Benjamín hafi verið leiddur í gildru. Þar af leiðandi væru þeir ekki að segja fréttir heldur að búa þær til.

„Menn eru þarna að búa til fréttir. Þessi maður er að leika fórnarlamb. Kompásmenn fá krimma til þess að setja upp gildru. Þarna var fullt samráð og allt planað. Ef þeir komast upp með þetta velti ég fyrir mér hvað þeir geri næst,“ segir Benjamín Þór Þorgrímsson líkamsræktarþjálfari sem verður í aðalhlutverki í Kompásþætti í kvöld þar sem fjallað er um handrukkara.

Benjamín kærði úrskurð Sýslumannsins í Reykjavík til Héraðsdóms eftir að hann lagði inn lögbannskröfu á útsendingu þáttarins sem Sýslumaðurinn í Reykjavík hafnaði. Þátturinn var birtur þrátt fyrir að ekki var búið að taka málið fyrir Héraðsdómi. 

Benjamín segir athyglisvert að Kompás ætli að ganga gegn lögbannskröfunni og lítilsvirða þannig lögin í landinu. „Ég á sama rétt og aðrir þjóðfélagsþegnar en þeim er slétt sama. Þeir ætla að sýna þáttinn og græða peninga á þessu leikriti sínu. Ég mun að sjálfsögðu lögsækja þá og krefja um háar skaðabætur. Ég er fórnarlamb í þessu máli.“ […]

„Þeir voru að gera bíómynd,“ segir Benjamín jafnframt. Vilhjálmur, lögmaður hans, tekur undir og segir þetta vera spurningu um orsök og afleiðingu. „Það er hlutverk fjölmiðla að segja fréttir en ekki búa þær til,“ segir Vilhjálmur og tekur fram að umbjóðandi hans sé afar ósáttur við að þátturinn verði sýndur áður en hann hefur færi á að klára málið fyrir dómstólum. Hann segir Kompásmenn hafa búið til fréttina frá a til ö og tekur fram að málið hafi á engan hátt snúist um handrukkun. Mennirnir hafi verið óvildarmenn, ósætti hafi verið þeirra á milli og þess vegna hafi svona farið. Vilhjálmur segir Kompásmenn hafa notað Ragnar til þess að segja og gera hluti sem hafi reitt Benna til reiði fyrir framan myndavélarnar. „Ef Kompás hefði ekki búið atburðarásina til, þá hefði þetta ekki gerst,“ segir hann ennfremur. „Hvar liggja mörkin, og hvað ætla fjölmiðlar að leyfa sér næst?“ spyr Vilhjálmur að lokum. 

Umsjónarmenn Kompás reknir

Stöð 2 hætti útsendingum og framleiðslu þáttanna janúar 2009. Í helgarviðtali við DV föstudaginn 31. júlí segir Jóhannes Kr. Kristjánsson: „Okkur var sagt upp í kringum 20. janúar þegar ég var í fæðingarorlofi. Ég átti tíu daga gamalt barn og hafði verið á vökudeildinni með drenginn í fjóra sólarhringa, dauðþreyttur og var bara feginn því að vera kominn heim með konu og barn. Kompás-teymið var þá kallað á fund til Ara Edwald. Þar var okkur sagt að ekki væru til peningar til að halda þættinum úti. Að okkar hlutverki væri lokið á stöðinni. Það sem við erum mest hissa yfir er að það var aldrei leitað til okkar og sagt að það þyrfti að draga saman og minnka kostnaðinn við þáttinn. Við vorum opnir fyrir öllum möguleikum. Það var bara tekin ákvörðun um að láta okkur fara,“ segir Jóhannes, augljóslega ósáttur við þessi vinnubrögð. „Á hátíðarstundum sagði Ari Edwald við okkur að Kompás væri eitt verðmætasta vörumerki Stöðvar 2. Þátturinn yki traust allrar stöðvarinnar,“ bætir Jóhannes við….“

 Í Morgunblaðinu 29. júlí 2009 var rætt við þáttastjórnendur Kompáss, þá Jóhannes Kr. Kristjánsson og Kristinn Hrafnsson. 

„Við fundum fyrir miklum áhuga, enda þáttur sem hafði töluvert áhorf og fylgi. Enda fundum við það þegar hann var lagður niður að sú krafa reis upp að þáttur af þessum toga yrði áfram í sjónvarpi,“ segir Kristinn Hrafnsson, einn aðstandenda fréttaskýringaþáttarins Kompáss. Kristinn og hinir aðstandendur þáttarins, þeir Jóhannes Kr. Kristjánsson og Ingi R. Ingason, hafa undanfarna mánuði reynt að finna þættinum farveg í íslensku sjónvarpi, en þátturinn var tekinn af dagskrá Stöðvar 2 í byrjun þessa árs. Leitin hefur hins vegar engan árangur borið, og allt útlit er því fyrir að dagar Kompáss séu taldir. 

Samningar þeirra félaga við RÚV og Skjá einn báru lítinn árangur. Framleiddir voru fyrir 100 þættir á árunum 2005 til 2008. Á þessum árum hlaut Kompás tvenn Eddu-verðlaun og tvenn verðlaun hjá Blaðamannafélagi Íslands. Stöð tvö hélt eftir rétti nafni þáttarins og eru þeir eins og áður hefur verið nefnt í birtingu sjónvarpsstöðvarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -