2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Tannlækningar og söngur fara vel saman

Söngkonan og tannlæknirinn Kristín Stefánsdóttir hélt tvenna Burt Bacharach-tónleika í fyrra sem þóttu ákaflega vel heppnaðir. Hún ætlar nú að endurtaka leikinn í Bæjarbíói þann 23. maí næstkomandi en nú með lögum Noruh Jones. Að vanda verður landslið tónlistarmanna með í för og óhætt að lofa glæsilegum viðburði.

„Norah er ljúf og notaleg og við munum vera henni trú en samt setja svip okkar á lögin en það er mikilvægt að setja fingrafar sitt á allt sem maður gerir. Ég er með frábæra tónlistarmenn með mér og Hlynur Þór Agnarsson píanóleikari útsetur lögin,“ segir Kristín.

Tónlistarkonan Norah Jones kom fram á sjónarsviðið árið 2002 með plötunni Come away with me sem er blanda af jazz, kántrí og popptónlist. Hún fylgdi henni eftir með plötunni Feels like Home árið 2004. „Við munum aðallega flytja lög af þessum tveimur plötum á tónleikunum. Lög eins og Don´t know why, Sunrise, Come away with me og Turn me on munu hljóma á tónleikunum.“

Kristín er tannlæknir og rekur tannlæknastofu í Kópavogi. Hún segir að söngurinn og tannlækningarnar fari alveg ágætlega saman.

„Ég byrjaði að sinna þessari ástríðu minni fyrir um 15 árum síðan. Ég var í söngnámi hér heima og í Danmörku við skóla sem heitir The Complete Vocal Institute og ótrúlegir hlutir gerðust í kjölfarið. Þetta er þrotlaus vinna og krefjandi en alveg ótrúlega skemmtileg. Söngnámi fylgir mikil sjálfsvinna þegar komið er ákveðið langt í náminu en tæknin er auðvitað stór hluti og alltaf hægt að vinna í henni. Það sem mestu máli skiptir er að komast nær kjarnanum í sér og flytja tónlistina eins heiðarlega og manni er unnt. Snerta fólk á þann hátt að það komist nær sínum kjarna, það er takmarkið,“ segir Kristín og bætir við að fólk hafi sagt henni að hún hafi reynst því hvatning til að huga að sinni eigin ástríðu.

„Þetta er þrotlaus vinna og krefjandi en alveg ótrúlega skemmtileg.“

AUGLÝSING


„Það er ólýsanlega gefandi að heyra það. Heimurinn getur bara orðið betri ef sem flestir sinna sínum hjartans málum. Þó að ég hafi ekki áhrif nema á einn eftir hverja tónleika er það mér samt mikils virði. Það er mikilvægt í stóra samhenginu að fólk sé almennt að fást við það sem það elskar,“ segir Kristín að lokum.

Tónleikarnir eru sem fyrr segir í Bæjarbíói þann 23. maí næstkomandi og hefjast klukkan hálfníu.  Miðasala er á midi.is.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is