Miðvikudagur 27. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Tekur slaginn fyrir náttúruna og dýrin í landinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ragnheiður Þorgrímsdóttir, bóndi á Kúludalsá í Hvalfirði, hefur þurft að láta fella nítján hross síðan sumarið 2007 vegna veikinda sem hún telur stafa af flúormengun frá álverinu á Grundartanga. Hún höfðaði mál gegn Norðuráli vegna mengunarslyss sem varð í álverinu árið 2006, tapaði því fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á síðasta ári og í síðustu viku staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms og fríaði Norðurál allri ábyrgð.

Ragnheiður hefur staðið í stríði við opinberar stofnanir síðan árið 2009, finnst henni ekki slítandi að tala endalaust fyrir daufum eyrum?
„Ég held það sé nú ekki hægt að tala um dauf eyru, því þeir vita örugglega alveg upp á sig skömmina,“ segir hún ákveðin. „Ég er ekki í nokkrum einasta vafa um það að menn vita að það er eitthvað að hérna sem ekki er hægt að skýra með mínum klaufaskap eða EMS-sjúkdómi. Þeir ætla bara ekki að taka undir það, vilja ekki sjá það.

Það gefur mér kraft til að halda áfram að ég veit að þetta er vegna mengunar. Það kom greinilega fram í niðurstöðum sérfræðinga atvinnuvegaráðuneytisins að flúormengun sé líkleg orsök veikinda hrossanna enda mælist fjórfalt flúormagn í beinsýnum hrossanna hér miðað við hross á ómenguðum svæðum. Og þó hrossin hafi verið á aldrinum 8 til 26 vetra þegar þau voru felld, er flúormagnið svipað í þeim öllum, sem merkir að þau urðu fyrir flúorálagi á sama tíma.

„Það kom greinilega fram í niðurstöðum sérfræðinga atvinnuvegaráðuneytisins að flúormengun sé líkleg orsök veikinda hrossanna enda mælist fjórfalt flúormagn í beinsýnum hrossanna hér miðað við hross á ómenguðum svæðum.“

Jakob og Sigurður eru auðvitað traustir vísindamenn sem forðast upphrópanir en þeir sögðu að það þyrfti frekari rannsóknir, sem eðlilegt er. Eftir að skýrsla þeirra kom út vildi Umhverfisstofnun bæta Kúludalsá inn á vöktunarplan vegna álversins, en þeir gera aldrei neitt með þær niðurstöður sem koma út úr vöktuninni, þannig að ég sá ekki ástæðu til þess að fara á byrjunarreit gagnvart stofnuninni, heldur vildi ég að hún héldi áfram þar sem rannsókn atvinnuvegaráðuneytisins hætti. Ég hef sjálf látið mæla flúor í grasi og heyi og þær tölur eru til og hægt að nýta þær.

Í fundargerð sem gerð var um þennan fund stóð hins vegar að ég hefði neitað Umhverfisstofnun um mælingar á bænum. Ég skrifaði þeim strax og bað þá vinsamlegast að segja satt, ég hefði ekki neitað þeim, heldur sagt að ég vildi að þeir héldu fyrrnefndri rannsókn áfram. Umhverfisstofnun tók þessa beiðni til greina.

Lögmanni Norðuráls fannst samt bitastætt að taka þessa klausu úr samhengi og leggja hana fyrir Landsrétt og margendurtók þetta atriði. Þannig að ég stend við það að þarna hafi ekki verið heiðarlegur málflutningur heldur reynt að láta minn málstað líta illa út. Þeir hafa ekki neitt á mig og fara þessa lúalegu leið til að finna einhvern höggstað á mér.“

Ragnheiður segist vera ósátt við dóm Landsréttar, telur hann byggja á að málsgögnin hafi ekki fengið hlutlæga meðferð og nefnir annað dæmi. „Í starfsleyfi Norðuráls frá 2003 stendur skýrum stöfum að hreinsibúnaður eigi alltaf að vera í gangi, en í mengunarslysinu lá búnaðurinn niðri í einu hreinsivirkinu í allt að einn og hálfan sólarhring. Þetta er mjög sérkennileg niðurstaða hjá Landsrétti.“

- Auglýsing -

Þessi barátta hefur væntanlega litað allt líf Ragnheiðar síðustu árin, er hún ekkert nálægt því að gefast upp?
„Ég hef sem betur fer alltaf getað hlegið og tekið þátt í einhverju skemmtilegu,“ segir hún. „Ég læt þetta ekki draga mig niður í svartnætti, alls ekki. Það sem kannski hefur verið erfiðast er að upplifa að sumir kunningjar, fólk sem þekkir mig, virðist trúa því sem stofnanirnar halda fram, að þetta sé mér að kenna. Það hef ég tekið nærri mér. En þú skalt ekki voga þér að reyna að láta mig líta út eins og eitthvert fórnarlamb í þessu viðtali. Ég er ekki fórnarlamb, ég er baráttukona og ég mun halda áfram að berjast.

„Í starfsleyfi Norðuráls frá 2003 stendur skýrum stöfum að hreinsibúnaður eigi alltaf að vera í gangi, en í mengunarslysinu lá búnaðurinn niðri í einu hreinsivirkinu í allt að einn og hálfan sólarhring. Þetta er mjög sérkennileg niðurstaða hjá Landsrétti.“

Álverið hefur haft gríðarlegt olnbogarými hér, á kostnað umhverfisins alls. Ég vil að það verði hægt að stunda búskap á þessu svæði í framtíðinni. Náttúran og dýrin eru undirstaða búsetu í þessu landi og ég mun halda áfram að taka slaginn fyrir þeirra hönd, svo lengi sem á þarf að halda.“

Sjá einnig: Í stríði við stofnanir og stóriðju

- Auglýsing -

Mynd / Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -