Mánudagur 20. janúar, 2025
2.2 C
Reykjavik

Telja söluna á HS Veitum ólöglega: „Alvarlegt brot á lögum sem varðar hagsmuni bæjarbúa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Minnihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar telur sölu Hafnarfjarðarbæjar á hlut sínum í HS Veitum vera ólöglega. Bærinn seldi í október 2020 15,42 prósenta hlut sinn í fyrirtækinu HS Veitum og fékk bærinn 3.5 milljarða í sinn hlut fyrir söluna.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn mynda meirihluta bæjarstjórnar með sex menn kjörna, en minnihlutinn samanstendur af fimm kjörnum mönnum, tveir frá Samfylkingu, einn frá Viðreisn, einn frá Miðflokki og einn frá Bæjarlistanum.

Mannlíf hefur undir höndum gögn sem málið varða. Þar kemur meðal annars fram að minnihlutinn telur „afgreiðslu málsins ekki hafa verið í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og málsmeðferðin því ólögleg og ákvörðun um sölu ógildanleg.“

Málið var mjög umdeilt á sínum tíma, en meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar keyrðu í gegn söluna þrátt fyrir hávær mótmæli víða.

Í gögnum sem Mannlíf hefur undir höndum kemur fram að minnihlutinn bendir á marga þætti málsins þar sem hann telur söluna hafa farið á svig við lög:

„Undirrituð vilja vekja athygli ráðuneytisins á vinnubrögðum sem meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks viðhafði við ákvarðanatöku varðandi sölu á hlut Hafnarfjarðarkaupstaðar í fyrirtækinu HS veitum hf. Við teljum afgreiðslu málsins ekki hafa verið í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og málsmeðferðin því ólögleg og ákvörðun um sölu ógildanleg.“

- Auglýsing -

Einnig að minnihlutinn telji það skyldu ráðuneytisins (Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið) „að bregðast við þessari ábendingu með því að hefja frumkvæðisrannsókn á málinu skv. 112. gr. sveitarstjórnarlaga, enda er um alvarlegt brot á lögunum að ræða sem varðar mjög mikilvæga hagsmuni bæjarbúa í sveitarfélaginu.“

Samkvæmt gögnunum er ljóst að meirihlutinn undir stjórn Rósu Guðbjartsdóttur knúði málið í gegn án þess að taka tillit til krafna minnihlutans um að málið yrði sett í dóm kjósenda:

„Bæjarfulltrúar þeirra fjögurra flokka sem sitja í minnihluta voru hvorki upplýstir um að söluferli væri hafið né heldur að Kviku banka hefði verið falið að sjá um það ferli enda hafði málið ekki verið tekið til umfjöllunar á vettvangi bæjarráðs, né heldur bæjarstjórnar. Þessar upplýsingar fengu bæjarfulltrúar minnihlutans því fyrst að lesa um í fjölmiðlum.“

- Auglýsing -

Lögð var fram frávísunartillaga frá minnihlutanum:

„Frávísunartillagan var felld með 6 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar en 5 fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokks og Bæjarlista greiddu atkvæði með tillögunni.“

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokks og Bæjarlista lögðu þá til að málið yrði lagt í dóm hafnfirskra kjósenda með íbúakosningu og töldu til þess ríkar ástæður:

„Engin umræða sér stað um eignarhlut Hafnfirðinga í HS Veitum eða öðrum fyrirtækjum fyrir kosningar. Einkavæðing opinberra orkuinnviða var ekki á stefnuskrá neins flokks. Enginn fulltrúi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar var kosinn til að framfylgja þeirri stefnu. Í öðru lagi fengu þeir flokkar sem mynda meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar færri atkvæði í síðustu kosningum en flokkarnir í minnihlutanum.

Þessi staðreynd hlýtur að setja þá kröfu á meirihlutann að hann sýni auðmýkt og samstarfsvilja en keyri ekki umdeild mál í gegn í krafti eins manns meirihluta í bæjarstjórn. Í þriðja lagi er um gríðarlega umdeilt mál að ræða sem snertir bæði framtíðartekjur bæjarins og fyrirkomulag eignarhalds á orkuinnviðum. Slíkt krefst mun meiri umræðu og samráðs við bæjarbúa en raun ber vitni í þessu máli.“

Minnihlutinn bendir á mikilvægi eignarhluta Hafnarfjarðarbæjar í HS Veitum, sem hefur gefið vel af sér og segir að bæjarráð hafi ekki haft veld til að opna söluferli á eignarhlutnum:

„Þá er verðmæti hlutarins svo mikið að ekki verður hjá því komist að telja sölu hans fela í sér meiri háttar fjárhagslega ráðstöfun. Það að bjóða eign til sölu og óska eftir tilboðum felur í raun í sér endanlega ákvörðun um sölu, hver sem verður svo hæstbjóðandi á endanum. Það er því ljóst að bæjarráð hafði ekki vald til þess skv. 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga að taka ákvörðun um að hefja söluferli án þess að samþykki bæjarstjórnar lægi fyrir.“

Sem stendur er málið á borði Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, og verður fjallað meira um málið á morgun.

Hér að neðan má lesa minnisblað frá minnihlutanum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar:

Hafnarfirði 5. nóvember 2020 Efni: Ábending um ástæðu til frumkvæðisathugunar vegna sölu Hafnarfjarðarkaupstaðar á hlut sínum í HS veitum hf. Um erindið

Undirrituð vilja vekja athygli ráðuneytisins á vinnubrögðum sem meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks viðhafði við ákvarðanatöku varðandi sölu á hlut Hafnarfjarðarkaupstaðar í fyrirtækinu HS veitum hf. Við teljum afgreiðslu málsins ekki hafa verið í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og málsmeðferðin því ólögleg og ákvörðun um sölu ógildanleg. Við teljum það skyldu ráðuneytisins að bregðast við þessari ábendingu með því að hefja frumkvæðisrannsókn á málinu skv. 112. gr. sveitarstjórnarlaga, enda er um alvarlegt brot á lögunum að ræða sem varðar mjög mikilvæga hagsmuni bæjarbúa í sveitarfélaginu. Málavextir Á fundi bæjarráðs þann 22. apríl sl. var málið fyrst tekið fyrir undir liðnum 2003508 – Covid 19, aðgerðaráætlun. Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks samþykkti á þeim fundi að hafinn verði undirbúningur að sölu hlutabréfa sveitarfélagsins í HS Veitum hf sem er 15,42% með það að markmiði að hlutabréf sveitarfélags verði seld. Málið kom til umræðu á fundi bæjarstjórnar 29. apríl en þar var tillagan um sölu hlutabréfanna ekki borin undir atkvæði. Þann 7. maí birtist auglýsing í fjölmiðlum um að hafið væri opið söluferli á hlutnum þar sem fyrirtækjaráðgjöf Kviku, fyrir hönd Hafnarfjarðarkaupstaðar auglýsti eftir kauptilboðum í 15,42% hlut bæjarins í HS Veitum. Bæjarfulltrúar þeirra fjögurra flokka sem sitja í minnihluta voru hvorki upplýstir um að söluferli væri hafið né heldur að Kviku banka hefði verið falið að sjá um það ferli enda hafði málið ekki verið tekið til umfjöllunar á vettvangi bæjarráðs, né heldur bæjarstjórnar. Þessar upplýsingar fengu bæjarfulltrúar minnihlutans því fyrst að lesa um í fjölmiðlum. Málið kom nokkrum sinnum til umræðu í bæjarráði eftir þetta, en engar frekari samþykktir voru gerðar í málinu. Í október sl. kom salan þrisvar sinnum til umræðu innan bæjaráðs undir málsnúmerinu 2004407 – HS Veitur hf, sala hlutabréfa, Á fundi ráðsins 22. október samþykkti meirihlutinn fyrirliggjandi tilboð í hlutinn og vísaði til staðfestingar í bæjarstjórn. Fulltrúar minnihluta greiddu atkvæði á móti. Í bæjarstjórn þann 28. október sl. var ákvörðun í málinu loksins borin undir atkvæði í bæjarstjórn. Sú ákvörðun sneri eingöngu að því, hvoru fyrirliggjandi tilboða ætti að taka. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti sölu á hlutabréfum Hafnarfjarðarkaupstaðar í HS Veitum hf. til HSV eignarhaldsfélags slfhf. sbr. fyrirliggjandi kauptilboð. Fimm fulltrúar minnihlutans greiddu atkvæði á móti. Fulltrúar minnihlutans lögðu fram frávísunartillögu á bæjarstjórnarfundinum þar sem bent var á að skv. 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga væri bæjarráði heimilt að fullnaðarafgreiða mál sem ekki varða verulega fjárhagslega hagsmuni:

„Byggðarráði er heimil fullnaðarákvörðun mála sem eigi varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans, enda sé eigi ágreiningur innan ráðsins eða við framkvæmdastjóra um ákvörðunina, en meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi fer byggðarráð með sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella.

Þá er heimilt að fela byggðarráði fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem samkvæmt samþykktum sveitarfélags hafa áður komið til umfjöllunar annarra nefnda sveitarstjórnar.“ Fulltrúar minnihlutans gerðu því þá kröfu að málinu yrði vísað frá þar sem ekki lá fyrir löglegt umboð til að bjóða hlutinn til sölu.

Frávísunartillagan var felld með 6 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar en 5 fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokks og Bæjarlista greiddu atkvæði með tillögunni. Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokks og Bæjarlista lögðu þá til að málið yrði lagt í dóm hafnfirskra kjósenda með íbúakosningu og töldu til þess ríkar ástæður:

„Í fyrsta lagi átti engin umræða sér stað um eignarhlut Hafnfirðinga í HS Veitum eða öðrum fyrirtækjum fyrir kosningar. Einkavæðing opinberra orkuinnviða var ekki á stefnuskrá neins flokks. Enginn fulltrúi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar var kosinn til að framfylgja þeirri stefnu. Í öðru lagi fengu þeir flokkar sem mynda meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar færri atkvæði í síðustu kosningum en flokkarnir í minnihlutanum.

Þessi staðreynd hlýtur að setja þá kröfu á meirihlutann að hann sýni auðmýkt og samstarfsvilja en keyri ekki umdeild mál í gegn í krafti eins manns meirihluta í bæjarstjórn. Í þriðja lagi er um gríðarlega umdeilt mál að ræða sem snertir bæði framtíðartekjur bæjarins og fyrirkomulag eignarhalds á orkuinnviðum. Slíkt krefst mun meiri umræðu og samráðs við bæjarbúa en raun ber vitni í þessu máli.“

Tillagan um að málið yrði lagt í dóm hafnfirskra kjósenda var einnig felld með 6 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar en 5 fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokks og Bæjarlista greiddu atkvæði með tillögunni. Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Bæjarlista og Miðflokks lögðu einnig fram tillögu um að málinu yrði frestað þar til fyrir lægi hver aðkoma ríkisins verði í grafalvarlegum rekstrarvanda sveitarfélaga. Frestunartillagan var felld með 6 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar en 5 fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokks og Bæjarlista greiddu atkvæði með tillögunni.

Ágallar á málsmeðferð

Telja verður að ákvörðun um að bjóða hlutinn í HS Veitum til sölu, sé ákvörðun um mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins. Um er að ræða gríðarlega mikilvæga innviði sveitarfélagsins sem skipta miklu máli fyrir hvern einasta bæjarbúa. Eignarhluturinn hefur gefið af sér góðan arð sem hefur verið mikilvægt innlegg í fjárhag sveitarfélagsins.

Þá er verðmæti hlutarins svo mikið að ekki verður hjá því komist að telja sölu hans fela í sér meiri háttar fjárhagslega ráðstöfun. Það að bjóða eign til sölu og óska eftir tilboðum felur í raun í sér endanlega ákvörðun um sölu, hver sem verður svo hæstbjóðandi á endanum. Það er því ljóst að bæjarráð hafði ekki vald til þess skv. 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga að taka ákvörðun um að hefja söluferli án þess að samþykki bæjarstjórnar lægi fyrir.

Enn fremur var tekin ákvörðun um það að fela Kviku banka að annast söluferlið. Sú ákvörðun var tekin án nokkurrar umræðu í ráðum og nefndum bæjarins. Samningur við Kviku um söluferlið var gerður án nokkurrar heimildar. Hvorki bæjarstjórn né bæjarráð hafði falið bæjarstjóra eða öðrum embættismönnum að gera samning við Kviku. Samningurinn skilar Kviku verulegum fjárhæðum í söluþóknun og ljóst er að samning sem þennan má ekki gera án þess að hafa skýrt umboð frá bæjarstjórn.

Viðeigandi úrræði

Eins og áður segir er hér um að ræða svo stórt mál og svo mikla galla á málsmeðferð að ráðuneytið hlýtur að verða að taka málið til athugunar skv. 112. gr. sveitarstjórnarlaga. Eðlilegast væri að ráðuneytið ógilti ákvörðun um sölu á hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum, skv. 1. mgr. 114. gr., en að lágmarki gefi út álit um ólögmæti sölunnar skv. 2. tölul. 2. mgr. 112. gr.

Kær kveðja Jón Ingi Hákonarson bæjarfulltrúi Viðreisnar Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi Bæjarlistans Sigurður Þ. Ragnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar Árni Rúnar Þorvaldsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingar

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -