2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Telur þjófótta mávinn hafa stolið veski fyrir misskilning

Fuglafræðingur segir að þrátt fyrir að mávur sé nú eftirlýstur af lögreglu fyrir þjófnað ættu íbúar svæðisins ekki að þurfa að óttast holskeflu mávaþjófa.

„Það er sagt um hrafna að þeir geti verið þjófóttir og tekið allskonar hluti sem glitra og eru áhugaverðir. Mávarnir eru fyrst og fremst að taka það sem er ætilegt,“ segir Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur og dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, aðspurður hvort algengt sé að mávar stundi vasaþjófnað.

„Það fer nú kannski ekki það orð af mávum að þeir séu þjófóttir eins og til dæmis hrafnar. Þeir eru fyrst og fremst að ná sér í eitthvað að éta. Þeir geta fyrir misskilning tekið eitthvað sem þeir telja að sé ætilegt en er það ekki. Um leið og þeir uppgötva það þá missa þeir áhugann. Ég veit ekki til þess að mávar séu það sem við köllum á mannamáli stríðnir. Þeir eru ekki að grípa hluti og færa þá til eins og maður hefur séð með til dæmis krumma.“

Lögreglumenn í almennu eftirliti veittu máv athygli á sunnudag. „Í fyrstu fannst þeim eins og að mávurinn væri með dýr í gogginum en þegar betur var að gáð sáu þeir að um veski var að ræða. Þeir veittu mávinum eftirför og náðu honum skammt frá þar sem hann lenti til að kíkja á feng sinn. Í veskinu voru skilríki og var hægt að hafa samband við eigandann. En hann hafði séð mávinn fljúga á brott með veskið sitt.  Eigandinn var himinlifandi með að endurheimta veskið en þessi sannkallaði glæpamávur er nú eftirlýstur hjá lögreglu,“ segir á Facebook-síðu lögregluembættisins.

Myndavél stolið vegna misskilnings

AUGLÝSING


Gunnar telur ásetning ólíklegan. Þú heldur að stuldurinn sé misskilningur? „Já, ég held að hann hafi fyrst og fremst verið að reyna að finna sér eitthvað ætilegt. Þegar hann uppgötvar að það er ekkert að hafa úr veskinu þá missir hann áhugann. Mávar hafa gert þetta. Það er fræg sena á netinu þar sem mávur grípur GoPro vél. Hann stelur vélinni og flýgur eitthvað í burtu og byrjar að gogga í hana. Um leið og hann áttar sig á því að það er ekkert ætilegt í þessu þá sleppir hann henni.“

„Þegar hann uppgötvar að það er ekkert að hafa úr veskinu þá missir hann áhugann.“

Steikur hverfa af grillum

Gunnar segir nokkur dæmi þess að mávar steli mat af grillum hjá fólki. „Þetta eru fyrst og fremst hettumávar og sílamávar sem ganga svona hart fram. Þetta eru þeir mávar sem lifa í hvað mestu nábýli við manninn. Aðrar mávategundr þær yfirleitt treysta sér ekki mjög nærri mannfólkinu. Sílamávurinn hefur verið skrifað svolítið um og þá að menn hafa lent í að missa steikur af grillinu. Það er bagalegt. Þeir hafa verið að kippa af grillum hjá fólki. Ég held að fæst af því sem er tekið sé gríðarlega verðmætt. Nema þá að þeir hafi tekið rosalega dýra steik einhvern tímann,“ segir Gunnar.

„Hataðist fugl landsins“ má varla við verri ímynd

Gunnar rannsakaði mávinn í nokkur ár og skrifaði doktorsverkefni um fuglinn. Hann segir líklega sé engin tegund jafn hötuð á Íslandi. „Ég tók mitt doktorspróf í sílamávinum. Ég eyddi gríðarlegum tíma í að rannsaka þá. Mörgum árum. Ég fann nú bara mjög fljótt fyrir því að hann átti bara enga bandamenn. Hrafninn er fugl sem menn hafa ýmsar skoðanir á. Það var samt alveg greinilegt að menn voru alltaf eitthvað til í að tala vel um hrafninn. Það var til fólk sem var hans bandamenn. Svo eru til þjóðsögur og eitthvað svona. Sílamávurinn átti bara engan bandamann. Ég hefði getað fullyrt á þeim tíma sem ég var að byrja 2004 þá hafi þetta verið hataðasti fugl landsins.“ Gunnar bendir á að fyrir nokkrum árum hafi sílamáv fjölgað mjög í Reykjavík vegna fæðuskorts. Þá hafi verið gengið hart fram í aðgerðum gegn honum. Meðal annars hafi verið eitrað fyrir honum og hann skotinn á tjörninni. Um það leiti hafi einhverjum blöskrað og fuglinn eignast bandamenn sem þótti of langt gengið.

„Þetta var alveg lygilegt þegar ég var að vinna að doktorsrannsókninni. Það þótti bara eðlilegasti hlutur að fólk gengi um og traðkaði á ungum og svo náttúrulega stanslaus skothríð á miðnesheiði. Hann er enn þá einn af fjórum tegundum á landsvísu sem má drepa árið í kring,“ segir Gunnar.

Vorboðinn hrjúfi

Gunnar telur fuglinn afar merkilegan. „Þetta er alveg stórmerkilegur fugl. Hann dvelur aðallega við spánar, Portúgal og Norð-Austur Afríku. Þetta er langflugs farfugl. Hann er eini mávurinn okkar sem flýgur svona langa vegalengdir milli varp og vetrarstöðva. Hann er fyrsti farfuglinn til að koma til landsins á vorin. Hann raunverulega er hinn eiginlegi vorboði. Hann kemur venjulega í lok febrúar. Meðal fuglaáhugamanna heitir hann vorboðinn hrjúfi.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is