„Það eina sem hann langaði til að gera var að fróa sér og borða konfekt.“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Listamaðurinn Ragnar Kjartansson segir að heimurinn sé sitt stóra áhugamál en þaðan fær hann einmitt hugmyndir – úr heiminum sjálfum. Sýning eftir Ragnar, Fígúrur í landslagi, var nýverið opnuð í i8 Galleríi og fram undan eru spennandi sýningar víða um heim.

„Sýningin samanstendur af sjö vídeóskjáum og einkennir erkitýpískt landslag hvern og einn. Þetta eru handmálaðar leikmyndir þar sem fólk í læknasloppum gengur fram og til baka,“ segir Ragnar.

„Hvert myndband er 24 klukkutímar; hefst á miðnætti og lýkur á miðnætti næsta dag. Þannig að það má líka segja að verkin séu einhvers konar klukkur. Ég var að hugsa um 20. aldar veggmyndir sem sýna framfarir þar sem fólk í hvítum sloppum er í hetjulegum aðstæðum tengdum vísindum og framförum. Þetta er meðal annars undir áhrifum frá sovéskri áróðurslist sem og bandarískum áhrifum; það má sjá hetjulega myndlist sem sýnir framfarir, vísindi, menntun og vinnu í verkum út um allan heim frá miðbiki 20. aldar. Þetta fjaraði svo út þegar framfaratrúin rann af fólki. Mér finnst þetta vera heillandi og sorglega fyndið fyrirbæri og mér fannst áhugavert að fara inn á þessar lendur með nútímalegu, níhílísku tvisti. Fólkið er bara að vafra þarna um fram og til baka. Það er eitthvað ljóðrænt tilgangsleysi yfir þessu öllu saman. Þetta eru fáránlega löng myndbönd með fólki sem er eiginlega ekki að gera neitt,“ segir hann, en hugmyndin að verkinu varð til þegar Ragnar tók þátt í samkeppni fyrir listaverk í Maersk-turninum sem er nýbygging heilbrigðisvísindasviðs Kaupmannahafnar-háskóla. Verkið var vígt þar 29. janúar og sýningin var opnuð svo tveimur dögum síðar í i8.

Ragnar Kjartansson hefur sýnt verk sín erlendis við góðan orðstír árum saman og orðið hvað þekktastur fyrir gjörninga og myndbandsinnsetningar sínar. Mynd / Elísabet Davíðsdóttir

Ragnar játar að verkið sé flókið tæknilega og það hafi verið fjölmargar áskoranir sem þurfti að yfirstíga til að þessi hreyfanlegu málverk yrðu að veruleika. „Þótt þetta sé myndbandsverk þá mætti líka líta á þetta sem málverkasýningu,“ segir hann. „Þetta eru málverk sem eru gerð með gömlum aðferðum í bland við splunkunýja stafræna möguleika nútímans. Það er samt ekkert stafrænt við þessi verk útlitslega en formið er bara til vegna tækninnar í dag. Einnig eru þessi verk undir áhrifum skjámynda og skjáhvíla sem eru allt í kringum okkur í daglegu lífi.“

Rekinn áfram af fegurðarþrá
Fram undan og yfirstandandi eru svo ýmsar aðrar sýningar listamannsins víða um lönd. Nú standa til dæmis yfir sýningar á verkum hans í Phoenix og Los Angeles. Sýningu í Peking var að ljúka og í vor verður hann með yfirlitssýningu í Stuttgart en Ragnar hefur sýnt verk sín erlendis við góðan orðstír árum saman og orðið hvað þekktastur fyrir gjörninga og myndbandsinnsetningar sínar. Á hvað leggur listamaðurinn áherslu í verkum sínum?
„Ég held ég leggi mesta áherslu á fegurðina og einhverja heimspekilega afstöðu sem hefur líka með fegurðina að gera. Ég held að ég sé alltaf að vinna með þrá. Einhverja fegurðarþrá. Það að vinna við myndlist gefur mér mjög mikla ánægju. Því fylgir ljóðræna að vera að vinna í list sinni og vera alltaf að pæla í list annarra. Það gefur mér rosamikið að lifa í þessu ríkidæmi ljóðrænunnar sem listin er.“

Hann segir að í raun sé heimurinn sitt stóra áhugamál. „Stóra áhugamálið er að reyna að nýta hverja sekúndu sem maður er á lífi til að upplifa heiminn – að verja tíma með fólki, að lesa bækur, að fara á sýningar og að skoða einhverja hluti og fá sér Camel og kaffi við sólarupprás.“

Sýning Ragnars Kjartanssonar, Fígúrur í landslagi, var opnuð í i8 Galleríi 31. janúar og stendur til 16. mars. Þar eru sjö myndbandsverk sem hvert og eitt er 24 klukkustunda langt.

Hvítvín og Leonard Cohen
Talið beinist inn á aðrar brautir, þar á meðal draumfarir og Ragnar að það hafi gerst tvisvar að hann hafi dreymt listaverk. „Mig dreymdi einu sinni að ég væri í kirkjugarðinum við Suðurgötu og sá þar hvítan legstein sem á stóð: „Það eina sem hann langaði til að gera var að fróa sér og borða konfekt.“ Mér fannst þetta dálítið fallegt og gerði síðar slíkt minnismerki, nema að textinn er á þýsku.“
Ragnar segir frá öðrum draumi sem varð að einu af hans fyrstu listaverkum. „Mig dreymdi einu sinni að það væri lítil auglýsing í Mogganum í stað teiknimyndarinnar „Ást er“ og þar stóð þessi tilkynning: Því miður mun Ragnar Kjartansson ekki geta tekið þátt í þessari sýningu. Í staðinn mælum við með því að þið farið heim og drekkið hvítvín og hlustið á Leonard Cohen.“

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Kardemommubærinn loksins frumsýndur-Leikarar hafa vaxið upp úr skóstærðum

Kardemommubærinn verður loks frumsýndur á Stóra sviði Þjóðleikhússins á laugardag. Vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins hefur frumsýningu verið frestað...