Fimmtudagur 25. maí, 2023
6.1 C
Reykjavik

„Það kom aldrei annað til greina en að gefa henni þetta frelsi“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Ronja Sif Magnúsdóttir er átta ára lífsglöð trans stelpa sem var fullviss um sitt rétta kyn um svipað leyti og hún fór að tala. Hún fékk nýtt nafn þegar hún var fjögurra ára og hefur blómstrað síðan sem er ekki síst að þakka víðsýni foreldranna og frábærum viðtökum samfélagsins í kringum þau. Hindranirnar eru samt æði margar fyrir trans fólk og ein þeirra er þátttaka þeirra í íþróttum og sundi.

Fjölskyldan býr á sveitabæ í Flóahreppi. Faðir Ronju, Magnús Baldursson, er vélvirki hjá kælismiðjunni Frost og móðir hennar, Stefanía Ósk Benediktsdóttir, er leiðbeinandi í leikskólanum Krakkaborg. Ronja á tvö systkini, Ásdísi Evu, tólf ára, og Sölva Þór, fjögurra ára, sem er á leikskólanum Krakkaborg. Þær systur ganga í Flóaskóla og Ronja æfir frjálsar íþróttir og glímu með íþróttafélaginu Þjótanda.

„Hún æfði fimleika í fyrra með ungmennafélagi Stokkseyrar og henni hefur verið tekið vel hjá báðum félögum. Hún hefur keppt á einu litlu fimleikamóti og keppti þá með stelpunum. Hún fer í klefa með stelpunum og það gerir hún einnig í leikfimi og sundi í skólanum. Hún fer inn á salernið í klefanum til að fara í sundfötin. Henni finnst það sjálfri best. Eins og er hafa ekki komið upp nein vandamál,“ segir Stefanía og er hæstánægð með móttökurnar sem Ronja hefur fengið í samfélaginu í kringum þau.

Ronja Sif með foreldrum sínum og systkinum, Ásdísi Evu, tólf ára, og Sölva Þór, fjögurra ára. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hún segist ekki vita hvernig staðan gagnvart öðru hérlendu trans íþróttafólki sé, telur það geta verið misjafnt eftir íþróttafélögum. „En upplifun okkar með allt sem tengist Ronju hefur verið góð. Auðvitað á að koma eins fram við alla. Ég ráðlegg forsvarsfólki allra íþróttafélaga að taka trans börnum eins og þau eru, gefa þeim tækifæri á þeirra forsendum og útbúa búningsaðstöðu sem þau upplifa sig örugg í. Þetta eru bara börn. Ég hef heyrt neikvæðar sögur, til dæmis af trans stelpu sem átti ekki að fá að spila með stelpunum því hún væri svo sterklega vaxin.

Það er ósanngjarnt þegar trans fólki að neitað um þátttöku í keppnum og íþróttum

Ég á erfitt með að trúa þessu, ég meina, erum við ekki öll misjafnlega vaxin? Ætti að banna strák að keppa í fótbolta því hann væri of hávaxinn eða of lágvaxinn? Þetta þarf ekki að vera svona flókið – bara að leyfa öllum að vera eins og þeir eru og æfa íþróttir með þeim sem þá langar til. Við erum of gjörn að setja allt í einhver fyrirframákveðin hólf. Ronja stundar íþróttir sér til gamans og er ekkert endilega með einhverja atvinnumennsku í huga núna en ef hún yrði tilneydd að hætta íþróttaiðkun vegna einhverra reglugerða myndi henni auðvitað ekki líða vel. Það er ósanngjarnt þegar trans fólki að neitað um þátttöku í keppnum og íþróttum. Og varðandi til dæmis sundstaði, þar sem sundmenning er mikil hér á landi, þá er málið litlu flóknara en að bæta við unisex-klefum. Gera þannig ráð fyrir öllum,“ segir Stefanía og á þar við kynhlutlausa einstaklingsbúningsklefa sem eru sums staðar í notkun en þeir hafa til dæmis veitt trans og kynsegin fólki ákveðið skjól bæði gegn árásum og háði. Þessir klefar hafa gert sumu trans fólki, sem annars forðast sund, kleift að geta farið þangað á ný.

Við lýstum barninu okkar fyrir henni og eftir gott spjall var okkur sagt að hún væri skólabókardæmi um trans stelpu. Við ættum bara að gefa henni frelsi til að vera eins og hún vildi vera.

Frelsi og nýtt nafn eftir fræðslu

Þrjú ár eru síðan Ronja fékk frelsi til að vera stelpa en aðspurð segir Stefanía að Ronja hafi sagst vera stelpa frá því hún fór að tala að einhverju viti.

- Auglýsing -

„Um þriggja til fjögurra ára aldurinn var hún farin að stelast í fötin hjá systur sinni, setti buff á höfuðið til að nota sem sítt hár og vildi nánast bara klæðast sokkabuxum og stuttbuxum því það virkaði líkt og hún væri í pilsi. Þegar hún var rúmlega fjögurra ára fórum við á fund með forsvarsfólki leikskólans sem vildi ræða hegðun hennar við okkur. Starfsfólk deildarinnar vissi ekki hvernig það átti að svara henni því hún sagðist vilja vera stelpa. Það vildi heyra hvernig við svöruðum henni og samræma þannig gerðir okkar allra. En málið var að við vissum heldur ekkert hvernig við áttum að tala við hana né hvað við áttum að segja. Við hittum sálfræðing sem benti okkur á að fá fund með Sigríði Birnu Valsdóttur, ráðgjafa hjá Samtökunum ´78, sem er sérhæfð í málefnum trans barna og -ungmenna,“ segir Stefanía og þau fengu fund með henni í lok nóvember 2015. Eftir hann gerðust hlutirnir hratt.

Strax í desember var hún farin að klæðast kjólum og milli jóla og nýárs var hún komin með nýtt nafn.

„Við lýstum barninu okkar fyrir henni og eftir gott spjall var okkur sagt að hún væri skólabókardæmi um trans stelpu. Við ættum bara að gefa henni frelsi til að vera eins og hún vildi vera. Við ættum einnig að segja öllum nákomnum frá frelsinu sem við gáfum henni. Tala við starfsfólk leikskólans og halda foreldrafund til að fræða foreldra deildarinnar. Við keyrðum heim úr bænum frekar ringluð enda vorum við ekki alveg viss um hvað trans væri. Auðvitað viljum við börnunum okkar það besta í heiminum svo það kom aldrei annað til greina en að gefa henni þetta frelsi. Eftir að hún fékk það gerðist allt rosalega hratt. Strax í desember var hún farin að klæðast kjólum og milli jóla og nýárs var hún komin með nýtt nafn.“

Gengu í gegnum sorgarferli

- Auglýsing -

Með fram því að sjá stelpuna sína blómstra í nýfengnu frelsi gengu foreldrar Ronju samt sem áður í gegnum ákveðið sorgarferli sem Stefanía segir eðlilegt í þessum aðstæðum. „Fyrst fannst mér ég eiginlega ekki mega vera sorgmædd því Ronja var miklu hamingjusamari og við höfðum í raun ekkert misst. Hluti af fræðslunni sem við fengum hjá Samtökunum ´78 var að sorgarferlið væri eðlilegt og við ættum að leyfa okkur að fara í gegnum það. Við vorum komin með framtíðarsýn af strák sem á stuttum tíma var orðin stelpa.“

Eins og fyrr segir tók samfélagið breytingunni vel strax frá byrjun. Leikskólinn breytti nafninu strax í tölvukerfinu, breytti öllum merkingum á hólfum og skúffum. Það sama má segja þegar Ronja byrjaði í skóla – nafninu var breytt áður skólaárið hófst og fræðsla var haldin fyrir starfsfólkið.

„Þar sem lögin banna Þjóðskrá að breyta nafni milli kynja fyrr en kynleiðréttingarferli er komið ákveðið langt á veg verðum við að semja við hverja stofnun fyrir sig um nafnabreytingu. Heilsugæslustöðin hefur til dæmis einnig breytt nafninu í kerfinu þeirra fyrir Ronju. Ég veit ekki hvað liggur að baki þessum lögum en þannig er staðan og ekkert sem við getum gert að svo stöddu. Okkur finnst þetta mjög leiðinlegt, það hlýtur að vera hægt að leyfa nafnabreytingu milli kynja með einhverjum skilyrðum, einhverjum reglum um að fólk geri þetta ekki endalaust fram og til baka. Það er ekki gaman fyrir þessa einstaklinga að fara til dæmis inn á heilbrigðisstofnun og vera kallaðir upp með sínu gamla nafni, hvað þá að þurfa að hafa sitt gamla nafn í skilríkjum á borð við vegabréf. Það er einfaldlega bara sárt fyrir þá,“ segir Stefanía.

Þegar Ronja fer að komast á kynþroskaaldurinn þarf hún að fá tíma hjá BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítalans) og hitta geðlækni til að fá samþykki fyrir „blockerum“, eins og það kallast, sem stoppar kynþroskann hennar. „Hún má ekki fara í neina aðgerð fyrr en hún er orðin sjálfráða og því alveg tíu ár í að hún megi breyta nafninu sínu í Þjóðskrá. Sem er virkilega langur tími. Þangað til er það undir náð og miskunn skólayfirvalda, hvort hún verður kölluð Ronja í sínum skólum í framtíðinni eða ekki. Til dæmis var hræðilegt að heyra um þegar skólayfirvöld í Menntaskólaum við Sund neituðu að breyta nafni trans stráksins Dalvins Smára Imsland í kerfi sínu. Einstaklingar sem vinna á svona stofnunum ættu ekki að láta fordóma bitna á aðilum sem eru ekki innan rammans.“

„Og varðandi til dæmis sundstaði, þar sem sundmenning er mikil hér á landi, þá er málið litlu flóknara en að bæta við unisex-klefum. Gera þannig ráð fyrir öllum.“

Svarar fullum hálsi

Stefanía segir að þau hafi lært mikið á þessum fjórum árum, mest hjá Hugrúnu Vignisdóttur sálfræðingi og Sigríði Birnu hjá Samtökunum ´78 sem hafi verið ómetanlegar í þessu ferli. Einnig þótti þeim afar fróðlegt að sækja ráðstefnuna Undir regnboganum, ráðstefnu um málefni trans barna á Íslandi sem haldið var í Iðnó í mars á síðasta ári. „Þar fengum við að heyra í foreldrum ungrar trans stelpu. Það er alltaf gott að vita að maður er ekki einn í svona stöðu. Einnig heyrðum við sögu ungra trans einstaklinga. Þau voru virkilega hugrökk að standa fyrir framan fullan sal af fólki og segja sína sögu.“

Flestir ættingjar og vinir fjölskyldunnar brugðust vel við frelsi Ronju þótt sumir hafi tekið fréttunum með tortryggni í fyrstu. „Flestir tóku þessu vel og Ronja veitti því litla eftirtekt að einhverjir væru ósáttir, ef svo má að orði komast. En ef hún var einhvern tímann kölluð strákur svaraði hún fullum hálsi að hún væri stelpa. Stóra systir Ronju, Ásdís Eva, tók þessu ótrúlega vel. Það eina sem truflaði hana í þessu öllu voru áhyggjur af því að Ronju yrði strítt. Ronja hefur alveg lent í einhverjum árekstrum í skólanum en þá fengum við góð ráð hjá Hugrúnu. Hún lét okkur kenna Ronju hvernig væri best að tækla þegar börn rifja upp að hún hafi verið strákur. Ronja ræður þá hvort hún vilji svara eða segja að hún vilji ekki ræða þetta.

Foreldrar mínir voru ekki sátt fyrst þegar við létum þau vita af frelsinu sem við gáfum Ronju. Þeim fannst við ýta undir þetta og við lentum í smárifrildi sem varð til þess að engin samskipti urðu okkar á milli í níu mánuði. Þá veiktist mamma, fékk krabbamein í háls, og fór í bráðaaðgerð. Eftir erfitt bataferli var hún komin með ventil til að geta tjáð sig. Þarna áttuðum við okkur á að lífið væri of dýrmætt til að eyða því í einhverja fýlu. Foreldrar mínir fóru að taka Ronju eins og hún er og allt hefur verið gott milli okkar síðan. En það fannst svo aftur krabbamein hjá mömmu síðasta vor og hún tapaði þeirri baráttu 14. ágúst 2018.“

Ronja Sif fékk nýtt nafn þegar hún var fjögurra ára og hefur blómstrað síðan. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Flóahreppur frábær

Þau hjónin hafa bjarta framtíðarsýn fyrir Ronju. „Trans börn eru bara eins og öll önnur börn. Þrátt fyrir að ýmsar hindranir geti orðið í veginum sjáum við framtíð Ronju í björtu ljósi. Vissulega höfum við einhverjar áhyggjur eins og eðlilegt er að foreldrar hafi af börnum sínum en ekkert endilega meiri áhyggjur af Ronju en af hinum börnunum okkar. Munu þau verða fyrir einelti? Hvernig mun þeim ganga í skóla? Og svo framvegis. Við sjáum einstaklega skapandi og frjálsa stelpu sem fer sínar eigin leiðir í lífinu. Hún er virkilega sterk og ekkert stoppar hana í að verða sú mannekja sem hún vill verða.

Með því að vera opin um málefnið vonumst við til að geta frætt aðra.

Við hjónin erum afskapalega ánægð með samfélagið sem við búum í. Flóahreppur er lítið samfélag og ég held að það sé ástæðan fyrir því að henni var tekið svona vel. Það eru allir vinir og félagar hérna. Ég tel að öll fræðsla sé góð. Fordómar eru ekkert annað en fáfræði. Við höfum alltaf verið opin með ferlið sem við gengum í gegnum með Ronju og vonandi hjálpar það öðrum foreldrum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við tjáum okkur opinberlega. Við höfum einnig sagt sögu okkar á fræðslufundum Hugrúnar Vignisdóttur og hitt aðra foreldra í sömu stöðu. Með því að vera opin um málefnið vonumst við til að geta frætt aðra. Umræðan og fræðslan er orðin meiri í dag og fólk því opnara fyrir öllum einstaklingum hvort sem þeir eru trans, samkynhneigðir eða eitthvað annað. Við vitum ekki hvernig Ronju hefði verið tekið fyrir til dæmis 20 árum síðan. Sjálf tökum við bara einn dag í einu og vinnum úr þeim verkefnum sem koma upp, þegar þau koma upp og höfum því litlar áhyggjur af framtíðinni. Vonandi verður fólk orðið enn fróðara um trans og hnökrarnir færri þegar Ronja verður orðin eldri. Við höfum upplifað afar fátt neikvætt eða leiðinlegt gagnvart henni Ronju Sif og fyrir það erum við þakklát.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -