Sunnudagur 1. október, 2023
8.8 C
Reykjavik

„Þessi taktík er að ganga frá stöðugleikanum hér, enginn í ríkisstjórn stendur vörð um velferðina“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar að „eitt stærsta vandamál okkar tíma er vantraust og vantrú í garð stjórnmálamanna. Sú tilfinning að hvað sem er sé sagt, án ábyrgðar. Og að stöðugleiki í stjórnarfari sé keyptur með aðgerðaleysi í landsmálunum — eins og það skipti mestu máli að fólk í ríkisstjórn haldi út, en ekki hvað það gerir á meðan það situr í embættunum.“

Hún færir í tal að „upp á síðkastið hafa svo stjórnarþingmenn, og raunar ríkisstjórnin öll, sífellt oftar stillt sér upp í stöðu álitsgjafa — sem fylgist með og gerir athugasemdir, án þess að taka nokkra ábyrgð. Líkt og þau lendi bara í aðstæðum. En séu ekki meiriháttar gerendur í lífi hins almenna Íslendings. Það er 10% verðbólga, vextir nálgast 9% — og enginn vill bera ábyrgð.

Nú þarf nýja pólitík til forystu.“

Kristrún nefnir  að „við í Samfylkingunni skiljum nefnilega samhengi hlutanna, samhengi sem hæstvirt ríkisstjórn neitar að horfast í augu við. Brestir hafa myndast víða í velferðarkerfinu okkar á undanförnum árum. Sama hversu oft hæstvirtir ráðherrar þylja upp tölfræði um kaupmátt ráðstöfunartekna og ýmsa mælikvarða á tekjujöfnuð, þá dylur það ekki þá tilfinnanlegu staðreynd — sem blasir við flestum Íslendingum með reglubundnum hætti — að opinber þjónusta hefur versnað. Það er ekki vegna þess að starfsfólkið standi sig verr heldur vegna þess að aðgengið hefur minnkað, vegna álags, mannaflaskorts og kostnaðarþátttöku. Þessi verri gæði velferðarþjónustu mælast þó ekki í kaupmætti. Þetta er meiriháttar mál — enda stór hluti af velsæld fólks í velferðarsamfélagi.“

Hún segir einnig að „almenningur finnur líka fyrir brestum á húsnæðismarkaði. Það finnur fyrir því að í dag kostar meðalhúsnæðið 14-faldar meðalráðstöfunartekjur í landinu, m.v. 8-faldar tekjur á síðasta áratug. Þetta er helsta ástæða þess að vaxtahækkanir eru svona sársaukafullar — fólk skuldar svo mikið í húsnæði sínu að hvert prósentustig vegur þyngra. Og fólk finnur fyrir því að leigumarkaðurinn hér er einn sá óregluvæddasti meðal þeirra landa sem við berum okkur saman við. Hér er leiguhúsnæði sem rekið er á samfélagslegum grunni í lágmarki miðað við nágrannalöndin og leiguvernd af skornum skammti; hömluleysið á húsnæðimarkaði er rót verðbólgunnar í dag og helsta ástæðan fyrir ólgu á vinnumarkaði.“

Hún bendir á að „nú hefur hæstvirt ríkisstjórn kynnt fjármálaáætlun til næstu ára og það er orðið ljóst að öll fyrirheit um stórkostlega uppbyggingu í húsnæðismálum eru brostin – hér á ekki að byggja þann fjölda hagkvæmra íbúða sem lofað var fyrr en eftir að kjörtímabilinu lýkur. Hæstvirtur fjármálaráðherra hefur sjálfur ítrekað haft orð á því að fólkið í landinu hafi ekki trú á því að ríkisstjórnin geti náð tökum á ástandinu. Það sé sjálfstæður vandi. Af hverju ætli það sé? Hér ættu menn e.t.v. að líta í eigin barm og spyrja sig hvers vegna illa gengur að ala á samstöðu meðal þjóðarinnar til að takast á við verðbólguna.

- Auglýsing -

Fólk trúir einfaldlega ekki forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar. Enda hefur hún brugðist í þessum grundvallarmálaflokki; brugðist þegar kemur að því að tryggja húsnæðisöryggi fólks; þá hafa stjórnvöld brugðist þegar kemur að því að tryggja ákveðið öryggi í heilbrigðismálum. Samningsleysið við sérfræðilækna hefur kallað yfir viðkvæmasta hópinn í samfélaginu, öryrkja, margra milljarða króna aukareikning sem borga þarf af lægstu tekjunum í landinu. Fyrir þessu finnur reyndar allur íslenskur almenningur. Fólk þarf nú að borga fyrir öryggi sitt beint úr eigin vasa og það birtist meðal annars í auknum launakröfum.“

Bætir við:

„Ríkisstjórnin hefur brugðist þegar kemur að því að skilja að úrbætur í velferðarkerfinu okkar, í tilfærslukerfum – barnabótum, vaxtabótum, betri heilbrigðisþjónustu – allt eru þetta þættir sem eru betur til þess fallnir að styðja við fólk eftir þörf og tímabili í lífinu en almennar launahækkanir. Það er ástæða fyrir því að í velferðarsamfélögum í kringum okkur hefur gengið betur að semja um hóflegar launahækkanir, jafnt og þétt; því grunnvelferðin og grunntilfærslukerfin eru sterkari þar en hér. Þetta skilja líka atvinnurekendur á Norðurlöndunum. Samtryggingin dreifir fjármagni með skilvirkari hætti þegar áföll dynja yfir en almennar launahækkanir. En þegar samtryggingin er veik þá er lítið annað hægt að gera en að krefjast launahækkana.“

- Auglýsing -

Segir að „á þessu ástandi, og samhengi hlutanna, ber hæstvirt ríkisstjórn ábyrgð. En í stað þess horfast í augu við það bendir hún á vinnumarkaðinn — hneykslast á launafólki fyrir að bæta sér upp brestina í velferðarkerfinu með hærri kaupkröfum. Og í stað þess að axla sína ábyrgð, þá eftirlætur ríkisstjórnin ókjörnum embættismönnum í Seðlabankanum einum að taka risastórar ákvarðanir sem hafa verulega áhrif á daglegt líf fólks. Virðulegi forseti. Vextir eru mjög breitt tól. Vaxtahækkun spyr ekki um stöðu fólks. Vaxtahækkun á vissulega að hafa þau áhrif að efla sparnað — en ekki með því að gera fólki ókleift að borga fyrir nauðsynjar eða með því að draga úr húsnæðisöryggi fólks. Seðlabankinn hefur lögbundið hlutverk — sem er að tryggja verðstöðugleika — en hann hefur takmörkuð tól til að tryggja jöfnuð í landinu. Og hefur reyndar ekki einu sinni umboð til þess. Til þess eru kjörnir fulltrúar hins vegar.

Hlutverk ríkisins er að huga að stóru myndinni. Ekki eftirláta ókjörnum embættismönnum að ákvarða hvernig samfélagið þróast hérna.

Staðan í okkar velferðarsamfélagi er sú að ríkisstjórnin hæstvirt hefur farið þá leið að sannfæra íslenskan almenning um ágæti þess að lækka skatta. En á móti hefur hún tekið tugi milljarða út úr velferðarkerfinu okkar. Félagshyggjuflokkarnir svokölluðu sem gengu inn á efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins — sem tekur stærstu stefnumótandi ákvarðanir og hefur gert það í áratug — stæra sig jafnan af þeirri skattalækkunarvegferð sem ráðist var í.

Enginn stendur vörð um velferðarsamfélagið í þessari ríkisstjórn; enginn stendur vörð um samstöðuna. Það er nefnilega ábyrgðarhluti að ala ekki á hólfaskiptingu samfélagsins – að sjá stóru myndina á meðan heimili landsins, eðlilega, hugsa um heimilisbókhaldið sitt og treysta ráðamönnum fyrir heildarsamhengi hlutanna.

Já, ríkisstjórnin hæstvirt fjölgaði skattþrepum — en það var allt í takt við vilja hæstvirts fjármálaráðherra; með því að fjarlægja tugi milljarða króna út úr tekjustoðum ríkisins og með tilheyrandi áhrifum á velferðarkerfið okkar. Enginn vilji hefur verið fyrir því að mæta þessari skattalækkun með aukinni skattheimtu annars staðar — þó að sjóðir séu víða digrir. Og keyrt hefur verið á þeirri möntru, með stuðningi allra ríkisstjórnarflokka, að ráðstöfunartekjur fólks hafi aukist og þar með velsæld meðal-Íslendings vegna þessarar aðgerðar.

Minna fer fyrir umræðu, sem sannir velferðarsinnar myndu halda á lofti, að þessi aðgerð og þetta hugarfar hafi orðið til þess að kljúfa þjóðina í marga hluta — hólfa fólk af. Þar sem auknar tekjur fólks eftir skatta veiktu opinbera þjónustu og getu hins opinbera til að veita húsnæðismarkaði aðhald. Þau sem skilja þetta skilja hvers vegna aukinn kaupmáttur fólks, að meðaltali, hefur ekki aukið ánægju hins almenna Íslendings, hvað þá þeirra sem helst þurfa að reiða sig á velferðarþjónustuna.“

Kristrún er ekki ánægð með stöðu velferðarmál á Íslandi:

„Velferðarþjónustan sem eykur lífsgæði fólks hefur versnað. Og auknar ráðstöfunartekjur hverfa í auknum húsnæðiskostnaði hjá stórum hluta almennings. Þetta samhengi hlutanna skiptir máli, því að enginn í þessari ríkisstjórn stendur vörð um velferðina. Enginn vill skilja þetta samspil hins opinbera, vinnumarkaðar og atvinnulífs — og svo er fólk hissa á að það sé ekki sátt meðal almennings í núverandi umhverfi.“

Kristrún segir að það sé „ennþá tækifæri til að grípa til aðgerða fyrir þinglok; ég vil benda á að þó að jafnaðarfólk sé ekki við forystu í landinu og í velferðarkerfinu — og þó að stefnu samfélagsins verði ekki breytt yfir nóttu — þá er samt ennþá tækifæri til að grípa inn í fyrir þinghlé í sumar; til að sýna fólki að það sé skilningur hérna á því að ef ekki bætast við aðgerðir fyrir heimilin; aðgerðir sem vel er hægt að fjármagna og koma þannig í veg fyrir þensluáhrif – þá eykst hérna klofningurinn og hólfaskiptingin sem ríkisstjórnin hefur alið á. Þá veikist samstaðan enn meira.“

Hún nefndi að lokum að „kjarasamningsviðræður hefjast á verri stað í haust. Það gengur nefnilega ekki til lengdar, líkt og forseti ASÍ benti á um daginn, að ríkisstjórnin beiti sjálfsögðum umbótum í velferðarkerfinu alltaf sem skiptimynt á lokametrum kjarasamninga.

Sú taktík sem stunduð hefur verið hér öll ár þessarar ríkisstjórnar hæstvirtrar: að ýta undir ósætti og mæta stefnulaus ár eftir ár með fjárlög inn í þingið — til þess eins að skapa vanda sem hægt er að bjarga fyrir horn á síðustu stundu. Þessi taktík er að ganga frá stöðugleikanum hér í landinu. Ekki nema von að fólk vantreysti pólitíkinni og trúi svo ekki ráðamönnum þegar þeir fara að tala hér um þjóðarsátt. Það stendur ekki á okkur í Samfylkingunni að koma með lausnir. Við setjum okkur ekki upp á móti öllu né gerum við mál úr hverju sem er.

En þegar kemur að kjörum fólks, efnahag og velferð — þá höfum við skýra sýn og skiljum hvers vegna fólk vill sjá breytingar. Við munum leggja fram tillögur um vaxtabætur á næstu dögum og höfum ítrekað beðið ríkisstjórnina að setjast niður með verkalýðshreyfingunni sem fyrst til að útfæra tímabundna leigubremsu. Og við biðlum til ríkisstjórnarinnar að ekki sé gefið eftir í uppbyggingu húsnæðis. Ef farið verður inn í sumarið án þess að ríkisstjórnin sýni að hún skilji hér samhengi hlutanna þá bíður okkar erfiðari kjaravetur en ella.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -