Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

„Þetta er nú bara djók“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Bára Halldórsdóttir

Það verður að segjast eins og er að það stakk mig að sjá í gær í einu aðalblaði landsins hæðst að nýlega samþykktu frumvarpi um kynrænt sjálfstæði með skopteikningu af karli í kvennaklefa í sundi. Konan mín er nefnilega trans og þorir ekki enn í sund og barnið mitt sem er líka trans er nýfarið að þora, rétt eins eins og þrír fullorðnir einstaklingar sem ég þekki. Fyrir þeim er það eitt að fara í búningsklefa ótrúlega erfitt skref m.a. af því að þau óttast að viðbrögð annarra kunni að verða eins og á umræddri teikningu. Sami óttinn og sumt fólk með „öðruvísi“ líkama, t.d. vegna fötlunar eða líkamsþyngdar, glímir við og veigrar sér því við að fara í sund.

Þegar umrædd teikning var gagnrýnd sem taktlaust grín fylltust kommentakerfin af ummælum eins og „hvað, eruð þið svona viðkvæm?“ og „þetta er nú bara djók“ og þar fram eftir götunum.

Ég var ekki í formi til að svara þessu.

Seinna sama dag sá ég svo fréttir þess efnis að um 4.000 manns hefðu mótmælt þúsund manna gleðigöngu í Póllandi og ekki bara mómælt heldur beinlínis ráðist á þátttakendur í göngunni.

Við það fann ég aftur illilega fyrir hnút í maganum sem gerði fyrst vart við sig fyrir rúmum tuttugu árum þegar ég og hinsegin vinir mínir þorðum ekki að fara út af hinsegin skemmtistað í Reykjavík nema para okkur saman, strákur – stelpa, svo við yrðum ekki fyrir áreiti. Þeir sem gengu einir eða með einhverjum af sama kyni áttu á hættu að setið væri fyrir þeim og þeir lamdir. Ég þekkti hann Móða sem var með járnplötu í höfðinu og fatlaður eftir að hópur manna barði hann í klessu fyrir að vera hommi. Vinir mínir Dísa, Örn og nokkrir aðrir kvöddu sjálf þennan heim. Ein vinkona mín varð fyrir stöðugu kynferðislegu áreiti frá yfirmanni sem nuddaði kynfærum sínum utan í hana eftir að hann frétti að hún væri lesbía. Flestir voru í felum nema í eigin hóp. Yndislegt fólk sem hafði ekki gert neitt af sér nema að geta ekki logið að sjálfu sér hver þau væru.

- Auglýsing -

En síðan liðu árin og smám saman fór mér að líða eins og afstaða samfélagins og heimsins alls til hinsegin fólks væri að skána. Að við værum að færast hægt og rólega fram á við í þessum málum. Að fólk gæti verið það sjálft án þess að hafa áhyggjur af því að verða fyrir ofbeldi.

Sú bjartsýni hefur dvínað og undanfarin ár hefur hnúturinn í maganum gert vart við sig með tilkomu manna eins og Trumps og Duertes. Fréttir af ástandinu í Póllandi og teikningin fyrrnefnda bæta ekki úr skák.

Ofbeldi og útilokun byrjar nefnilega með samþykki umhverfisins. Og það byrjar með því að dýfa tánni í laugina með litlum bröndurum sem virðast kannski ekkert voða hættulegir en senda minnihlutahópum þau skilaboð að hafa hægt um sig því umhverfið sé ekki öruggt. Þegar minnihlutahóparnir þora ekki að svara fyrir sig, „rugga bátnum“, „vera friðarspillar“ eða „eyðileggja sakleysislega grínið“ eru aðilar í samfélaginu sem sjá það sem merki um að það sé í lagi að ganga pínulítið lengra og þeir illgjörnustu grípa tækifærið og fara alla leið. Hoppa beint út í laugina með stórum magaskelli án þess að hugsa um fólkið sem er á bakkanum og fær yfir sig ískalda gusuna.

- Auglýsing -

Ofbeldi og mótlæti gegn hinsegin fólk er auðvitað ekkert nýtt af nálinni en svo virðist sem það sé farið að færast í aukana á nýjan leik. Og það skelfilega er að allt getur byrjað með „saklausum“ brandara.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -