Frá Þýskalandi berast þau tíðindi að kannabisefni verði gerð lögleg innan tveggja ára þar í landi.
Ríkisstjórn Þýskalands hefur sett upp áætlun sem miðar að því að lögráða fólki verði leyfilegt að nota kannabisefni árið 2024.
Er gert ráð fyrir því að hverjum einstaklingi verði leyft að hafa í fórum sínum allt að 30 grömm af kannabis til eigin neyslu; að kaupa megi kannabisefni í apótekum sem og verslunum sem hafi til þess sérstakt leyfi til að selja efnið.
Eins og staðan er nú hefur áætlun ríkisstjórnarinnar ekki ennþá hlotið samþykki þýska þingsins; auk þess þarf Evrópuráðið að samþykkja breytinguna.
Af Evrópusambandsríkjum hefur aðeins Malta samþykkt og hrint í áætlun afléttingu banns við kannabisefnum.
Heilbrigðisráðherra Þýskalands, Karl Lauterbach, reiknar með því að líklegt sé að áætlunin fyrir árið 2024 standist.
Fram kemur að áætlun Þjóðverja gerir ráð fyrir því að leyfilegt verði að rækta kannabisplöntur heima við; sú ræktun mun þó takmarkast við þrjár plöntur á hvern lögráða einstakling á hverju heimili.
Lauterbach heilbrigðisráðherra sagði við kynningu áætlunarinnar að afglæpavæðing efnisins komi til með að vernda heilsu ungra Þjóðverja, þar sem bann gegn efninu hefði ekki átt „neinu láni að fagna“ síðustu ár, og að neyslan hefði aukist:
„Við viljum setja markaðinum stífar reglur,“ sagði ráðherrann og bætti við að það komi til greina að setja reglur um hámarksstyrkleika kannabisefna, sem seld yrðu yngra fólki en 21 árs, sem myndi þýða að fylgjast yrði sérstaklega með THC innihaldi þeirra.
Næsta skref Þjóðverja er að leggja áætlunina fyrir Evrópusambandið, sem myndi fara ítarlega ofan í saumana á því hvort hún stæðist löggjöf sambandsins.