Frá því að Þór Saari hætti á þingi hefur hann hvergi fengið hefðbundna launavinnu. Síðan þá eru liðin sjö ár og hefur hann fengið um 200 hafnanir um störf. Í mörgum tilfella telur hann sig hafa verið hæfastan í starfið.
Frá þessu greinir Þór í færslu á Facebook þar sem hann gerir að umtalsefni bók Ólínu Þorvarðardóttur þjóðfræðingi sem hætti einmitt á þingi á sama tíma og hann. Umfjöllunarefni bókarinnar er það sem Þór kallar „vinnubann“ sem snýr að því að fólk sem tekið hefur þátt í stjórnmálum eða viðrar stjórnmálaskoðanir sínar, eða aðrar skoðanir sem ekki eru þóknanlegar krónprinsum atvinnulífsins, gangi atvinnulaust um göturnar til lengri tíma. Það segir Þór ömurlegt á sama tíma og það sé viðkvæmt í umræðu. „Margt af þessu fólki er mjög hæft, með mikla og góða starfsreynslu og menntun, en einhverra hluta vegna fær það hvergi vinnu. Það er hreinlega frekar ömurlegt að hugsa til þess að þroskastig íslensks atvinnulífs sé ekki meira en svo að það haldi að fólk með sérfræðiþekkingu sé óhæft vegna þess að það hafi komið að stjórnmálastarfi, eða þá að fólk sem hefur pólitískar skoðanir sé einhverra hluta vegna þess vert að útiloka það af vinnumarkaði,“ segir Þór sem bendir á alvarlegar afleiðingar:
„Afleiðingin er ekki bara að fólk veigrar sér við stjórnmálaþáttöku og umræðu, heldur einnig að tap samfélagsins er umtalsvert vegna þeirrar vannýttu auðlindar sem þetta fólk er. Þetta snýst nefnilega um miklu meira en það hvernig efnahagskerfi við viljum búa við, þetta snýst um að frjálsar manneskjur geti búið í frjálsu samfélagi, geti haft skoðanafrelsi og tjáð þær skoðanir opinberlega án þess að gerð sé aðför að afkomu þess. Þetta býr líka til og viðheldur hinni alræmdu „klíkuvæðingu“ starfa þar sem stjórnmálamenn „leggja inn“ hverjir hjá öðrum upp á framtíðina að gera.“
„Þetta snýst um að frjálsar manneskjur geti búið í frjálsu samfélagi, geti haft skoðanafrelsi og tjáð þær skoðanir opinberlega án þess að gerð sé aðför að afkomu þess.“
![](https://www.mannlif.is/wp-content/uploads/2020/10/121092652_10221757055809911_4495580707895009988_o-300x225.jpg)
Þór segist ekki hafa fengið hefðbundna launavinnu frá því að hann lauk störfum á Alþingi árið 2013. Frá þeim tíma hefur hann fengið í kringum 200 neitanir um störf. „Í mörgum tilfellum hef ég augljóslega verið hæfasti umsækjandinn og tafsið, tuðið og blaðrið sem ég hef fengið að heyra, sérstaklega frá opinberum stofnunum, þegar ég hef óskað eftir rökstuðningi, hefur hreinlega verið með ólíkindum. Á undanförnum árum hef ég hitt marga fyrrverandi kollega af þinginu og staðan er sú hjá mörgum þeirra að þeir hafa enn ekki fengið neina fasta launavinnu og sjálfur hef ég fengið eins og sagði, um tvö hundruð nei. Dæmin sem Ólína telur upp eru mörg og óhugnanleg og lýsa kerfi sem er algerlega siðlaust og mannfjandsamlegt,“ segir Þór.