„Sannur foringi gengur í öll verk og það á sannarlega við um Þórarin Ívarsson stofnanda Veraldarvina. Hann hefur unnið ótal þrekvirki, þegjandi & hljóðalaust, með um 20.000 sjálfboðaliðum frá 99 löndum!“
Þetta skrifar Hrafn Jökulsson rithöfundur og baráttumaður á Facebook en þar fer hann yfir árangur Þórarins í nátturvernd undanfarin ár. Að sögn Hrafns hefur Þórarinn unnið gífurlega mikilvægt starf í þágu lífríkis Íslands þrátt fyrir litla athygli.
Tíminn sem hefur farið í þetta verk er raunar ótrúlegur. „Lítum á tölurnar yfir STRANDHREINSUN Veraldarvina 2006-20. Samtals hafa liðsmenn Þórarins Ívarssonar lagt til 381.370 vinnustundir í fjörum Íslands. 381.370 vinnustundir í þágu strandlengju og lífríkis (fyrir utan öll önnur verk Veraldarvina í OKKAR þágu.),“ skrifar Hrafn.
Samtökin fá þó nær ekkert fé úr opinberum sjóðum. Tímakaupið er afleitt ef svo má að orði komast. „Hvað skyldu nú Veraldarvinir hafa fengið í opinbera styrki á Íslandi frá stofnun samtakanna? Jú, á 19 árum hafa Veraldarvinir fengið 1,6 milljón króna frá hinu opinbera. Það er semsagt minna en 100 þúsund kall á ári! Það vill til að Tóti býr yfir sjaldgæfu jafnaðargeði — og óþrjótandi húmor — en fyrst og fremst er hann einstakur gæðapiltur, knúinn áfram af löngun til að bæta heiminn. SAMAN ERUM VIÐ STERKARI.“