Sunnudagur 2. október, 2022
8.8 C
Reykjavik

Þórdís er látin – Dúxaði í MR en strákurinn fékk verðlaunin – „Sveið alla tíð undan þessu“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Þórdís Þorvaldsdóttir verður borin til grafar í dag en hún lést þann 13. desember síðastliðinn. Hún var 92 ára og átti að baki glæstan feril sem bókavörður. Barnabarn hennar, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, skrifar minningargrein um hana og lýsir ævi magnaðrar konu sem sóttist í þekkingu þrátt fyrir mótlæti.

Þórdís var sæmd sænsku norðurstjörnunni 1975 og veittur minnispeningur, útgefinn í tilefni 150 ára afmælis finnsku Kalevala-þjóðkvæðanna 1985. Í Morgunblaðinu er ferli hennar lýst svo: „Hún var ritari hjá Náttúrugripasafni Íslands, síðan Náttúrufræðistofnun 1950-56, yfirbókavörður Norræna hússins í Reykjavík 1973-85, yfirbókavörður Nordens folkliga akademi í Kungälv í Svíþjóð 1980-82 og borgarbókavörður Reykjavíkur 1985-97“.

Þórdís Elva segir ömmu sína ekki hafa verið hefðbundna ömmu sem bakaði smákökur. „Sólarhring eftir að ég og maðurinn minn lentum á Íslandi í jólaheimsókn, klyfjuð af töskum og ferðalúnum smábörnum, lést amma mín Día. Hin upprunalega Þórdís Þorvaldsdóttir, þrumugyðjan sem ég hlaut þann heiður að vera skírð í höfuðið á. Hún var ekki svona amma sem stendur sveitt við að baka smákökur ofan í gesti og gangandi. Þess í stað markaði hún barnæsku mína með póstkortum frá fjarlægum löndum, þar sem hún var á ráðstefnum og málþingum því hún „þurfti alltaf að vera að læra eitthvað nýtt“, eins og hún sagði sjálf. Hún var ekki svona amma sem prjónaði peysur og leista á afkomendaskarann. Þess í stað gaf hún mér þykka doðranta með grískum goðsögnum, því „stúlkur þyrstir í fróðleik“,“ skrifar hún.

Þrátt fyrir mikla hæfilega þá mátti hún þola mótlæti vegna kyns síns. „Amma mundi eftir sér sitjandi uppi á ofnhillu rúmlega tveggja ára gömul, þar sem henni var tyllt til að forða henni frá því að spora út gólfið sem ráðskonan, móðir hennar, lá á hnjánum við að bóna. Til að barnið hefðist við uppi á hillunni stytti hún þeim stundir með því að hlýða hnátunni yfir stafrófið. Þannig var amma orðin læs þriggja ára og síðar meir hoppaði hún yfir tvo bekki í skólanum, en var þá settur stóllinn fyrir dyrnar því frekari námsafrek af hennar hálfu settu eldri nemendur í slæmt ljós. Þegar hún dúxaði engu að síður í Menntaskólanum í Reykjavík voru verðlaunin fyrir besta námsárangurinn látin fara til næsthæsta nemandans, því hann var strákur en hún stelpa. Hún bar höfuðið hátt, en sveið alla tíð undan þessu óréttlæti,“ segir Þórdís.

Hún lét hugmyndir um kynhlutverk sem vind um eyrun þjóta. „Amma fór í háskólanám í íslenskum fræðum á tíma þegar einungis tveir aðrir nemendur í því námi voru konur. Í kjölfarið var hún fyrirvinna fjölskyldunnar á meðan afi var í læknanámi og lét álit annarra og íhaldssamar hugmyndir um kynhlutverk sem vind um eyrun þjóta. Samhliða þessu eignaðist hún tvö börn, en þau áttu eftir að verða fimm samtals,“ segir Þórdís.

Að lokum varð Þórdís borgarbókavörður. „Þrátt fyrir sinn skerf af striti og sorg vann amma sig upp til æðstu metorða innan sinnar starfsstéttar og varð borgarbókavörður, þar sem henni var treyst fyrir því að halda úti einu öflugasta fræðslusetri borgarbúa. Ég get ekki ímyndað mér verðugri manneskju í það starf en ömmu. Hún skildi mikilvægi þess að brúa kynslóðabilið og vann ötullega að því að gera almenningsbókasöfn stafræn með tilkomu gagnagrunnsins Gegnis. Þannig var amma hluti af þeirri byltingu sem færði sögurnar, sem forfeður okkar hvísluðu við eldinn, til barna nútímans,“ segir Þórdís.

- Auglýsing -

Nafna hennar þakkar henni að lokum fyrir að flytja fjöll. „Sjálf var hún magnaður sögumaður. Þegar hún varð sjötug þurfti ég að vinna og missti af afmælisveislunni hennar, en frétti síðar að forsetinn, fyrrverandi forsetinn og borgarstjórinn voru öll meðal gesta. Þá var ég afbrýðisöm út í ömmu fyrir að þekkja svona merkisfólk. Núna er ég afbrýðisöm út í merkisfólkið fyrir að hafa komist í afmælið hennar ömmu. Þar sem glerþak var að finna braut amma það, samhliða því að lifa innihaldsríku lífi í faðmi stórrar fjölskyldu. Ég elska þig, amma mín. Takk fyrir að flytja fjöll, svo dætur þínar og barnabörn geti klifið þau. Útsýnið sem þú eftirlætur okkur er stórkostlegt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -