Miðvikudagur 29. júní, 2022
9.8 C
Reykjavik

Þórdís Jónsdóttir bróderar blóm í púða og myndir: „Ég leyfi mér að fara út af sporinu“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Þegar ég var stelpa var ég í skátunum og þar var tenging við náttúruna meðal annars fólgin í alls kyns útiveru; gönguferðum og útilegum allt árið um kring og þar var okkur kennt að bera virðingu fyrir náttúrunni og vera vakandi fyrir fegurð landsins og breytileika. Í uppvextinum voru foreldrar okkar duglegir að fara með okkur systkinin í bílferðir og fegurð landsins skoðuð. Ég minnist þess að ég átti litlar bækur, en ég tíndi villt blóm og pressaði og þurrkaði þau í bókinni og lagði á minnið hvað blómin hétu. Kannski það hafi verið upphafið að blómaáhuga mínum, því síðar fór ég að bródera blóm í púða og myndir,“ segir Þórdís Jónsdóttir sem í mörg ár hefur vakið athygli fyrir gullfallega púða sem hún hannar og saumar og nú á lengsta degi ársins blómstra blómin í náttúrunni sem og á púðunum hennar.

„Þegar grunnskólagöngu minni lauk var ég svo guðslifandi fegin að þeim kafla í lífi mínu væri lokið og ég gat ekki hugsað mér að halda áfram á þeim vegi svo ég réð mig til starfa í blómabúð og að vera innan um ilmandi blóm þótti mér gleðilegt. Að ganga inn á vinnustaðinn að morgni og finna ilminn af afskornu blómunum er ljóslifandi minning. Ég hugsaði stundum um það á þessum tíma mínum í blómabúðinni að það gæti verið gaman að læra blómaskreytingar, en það að þurfa að setjast aftur á skólabekk ýtti þessari hugmynd út af borðinu. Þannig að nú bródera ég blóm; þó ekki ilmandi, en litfögur og svei mér ef ég kannski bara finn ekki ilminn af þeim þegar ég sit í eigin heimi og sé þau spretta í rólegheitunum, spor eftir spor, þar til fullvaxið blóm er komið á textíl.“

Þórdís Jónsdóttir

Þórdís segir að hugmyndirnar komi úr öllum áttum. „Ég er kannski að hjóla úti í náttúrunni og þá fer hugurinn á flug um hvað verði næsta verkefni og þá er bara spennandi að koma heim og setjast við verkið.“

Á gráum rigningardögum er til dæmis gaman að hafa glaða liti á nálinni.

Hvað með litaval?

„Litavalið í verkin mín ræðst stundum bara þegar ég er búin að teikna mynstrið. Á gráum rigningardögum er til dæmis gaman að hafa glaða liti á nálinni. Annars finnst mér allir litir fallegir og gefa mér góða orku.“

- Auglýsing -

Þórdís Jónsdóttir

Meira líf

Þórdís Jónsdóttir á ekki langt að sækja áhugann á útsaumi, en þess má geta að systur hennar eru Margrét Jónsdóttir, leirlistakona á Akureyri, og María Jónsdóttir listmálari en viðtal við hana birtist á mannlif.is 20. júní.

- Auglýsing -

„Ömmur mínar voru miklar handavinnukonur og móðuramma mín bjó í næsta húsi við fjölskylduna þannig að mér þótti svo gott að fara til ömmu og sitja hjá henni og sjá hvað hún var að gera í höndunum. Stundum hlustaði hún á tónlist eða síðdegissöguna í útvarpinu og það var alltaf eitthvað svo góð ró yfir. Svo fór ég að fá að sauma út líka og þannig held ég að þessi kunnátta mín hafi síast inn ómeðvitað því að ég hef aldrei farið og sótt mér kunnáttu í útsaum í formi námskeiða eða skóla.

Það fyrsta sem ég byrjaði að bródera og selja voru litlar myndir, en svo um 1998 fórum við mágkona mín í samstarf við að framleiða flísfatnað á börn og svo seinna bættum við fullorðinspeysum og sjölum fyrir konur inn í línuna okkar. Verkaskiptingin var þannig að ég sá um útsauminn og mágkona mín meira um hönnun á sniðum og vélsauminn. Þetta var skemmtilegur tími og enn þann dag í dag erum við að sjá þessar flíkur í notkun, sem gleður okkur og segir okkur líka að við vorum með gæðavöru. En svo kom að því að við snerum okkur báðar að öðrum verkefnum, en hver veit nema við eigum eftir að gera eitthvað saman í framtíðinni.

Þórdís Jónsdóttir

Svo var það 2007 sem að ég byrjaði á púðasaumnum. Þá saumaði ég nokkra púða fyrir veitingastað sem var verið að opna á Akureyri, en þá óraði mig ekki fyrir hvað boltinn á þessu sviði ætti eftir að rúlla. Ég hef eiginlega ekki lagt frá mér nálina síðan ef svo má segja. Ég áttaði mig alls ekki á því lengi vel að ég væri að gera eitthvað sem alls ekki allir gætu gert. Mér fannst eins og allir kynnu að bródera en ég hef áttað mig á því núna að ég fékk þessa góðu vöggugjöf sem ekki er öllum gefin og ætla aldeilis að nýta mér hana áfram. Og það er gaman að sjá hve margir listamenn eru farnir á grípa í útsaum í verkum sínum. Auðvitað tek ég mér pásur, en það er alltaf eftirspurn; fólki finnst gaman að færa blómin inn í híbýli sín í formi púða eða mynda og þessi blóm standa um ókomna tíð. Ég hef reynt að velja gæðaefni í verkin mín svo þau haldi sér vel og standist tímans tönn og mér finnst gott þegar ég heyri að púðarnir frá mér séu alltaf eins og nýir. Ég nefnilega segi oft við fólk að auðvitað eigum við að nota púðana sem stuðning við bakið, hrista þá svo bara til eftir notkun og þá eru þeir eins og nýir. Hvað er betra en leggja höfuðið á útsaumaðan púða og láta sig dreyma?“

Útsaumurinn er meðal annars kannski orðinn frjálsari.

Hvernig hafa verkin þróast?

„Mynstur hafa þróast í áranna rás og útsaumurinn er meðal annars kannski orðinn frjálsari. Ég leyfi mér meira að fara út af sporinu og þá finnst mér ég ná meira lífi í verkin.“

Þórdís Jónsdóttir

Handverksmaður ársins

Hvað gefur saumaskapurinn Þórdísi?

„Það að velja grunnefnið, ákveða mynstrið og svo litasamsetninguna veitir mér mikla gleði og ég er alltaf jafn spennt að byrja á nýju verkefni. En stundum legg ég af stað í verkið, en finn að ég ætti kannski að hafa eitthvað öðruvísi og þá er bara að finna aðra liti og láta sköpunarkraftinn ráða ferðinni. Það þarf stundum ekki nema nokkra þræði af öðrum lit til að breyta og ná meiri dýpt. Auðvitað hætti ég ekki fyrr en ég er fullkomlega sátt við útkomuna og ég get stolt látið verkin mín af hendi á nýtt heimili.“

Ég fékk eitt árið útnefninguna „handverksmaður ársins“ og annað ár fékk ég Hvatningarverðlaun ársins.

Þórdís selur ekki verkin sín í neinum verslunum. „Það hefur gefið mér mest að taka þátt í sýningum, meðal annars á vegum Handverks og hönnunar sem hefur verið haldin í Ráðhúsi Reykjavíkur og einnig á Handverkshátíðinni í Eyjafjarðarsveit þar sem ég fékk eitt árið útnefninguna „handverksmaður ársins“ og annað ár fékk ég Hvatningarverðlaun ársins. Svona útnefningar gleðja og hvetja mann til að halda áfram því sem ég hef verið að gera. Ég hef eignast góðar vinkonur sem eru að vinna við hönnun og handverk og höfum við haldið nokkra hönnunar- og handverksmarkaði á Eyjafjarðarsvæðinu og hafa þeir viðburðir verið vel sóttir. Við hittumst reglulega og skiptumst á hugmyndum og hvetjum hver aðra áfram í því sem við erum að vinna að. Það er góð vinátta sem hefur myndast hjá okkur.“

Þórdís Jónsdóttir

Gömlu útsaumshefðirnar

Þórdís segist yfirleitt vinna að einum púða í einu. „Mér hefur fundist það henta mér best. En meðan ég vinn þann púða þá vakna yfirleitt hugmyndir að þeim næsta og jafnvel þeim sem kæmi þar á eftir og litavali og mynstri sem ég hef í huga. En hugurinn vinnur hraðar en hendurnar og þegar maður hefur bara tvær hendur til að vinna þetta verk þá er bara um að gera að njóta hvers spors. Því það er þannig með útsauminn að það er ekkert hægt að flýta sér, þetta tekur sinn tíma og ég nýt hvers spors sem ég sting niður og sem fetar sig í átt að fullsprottnum blómum. Ég teikna öll mín mynstur sjálf; ég hef þó aldrei verið góð að teikna en blómum og mynstrum hefur mér tekist að skila frá mér. Ég er held ég bara betri að teikna með nál og þræði. Mynstrin í íslenska kvenbúningnum hafa heillað mig og ég hef unnið nokkuð út frá þeim mynstrum. Svo fæ ég hugmyndir að mynstrum úti í náttúrunni og víða svo sem af öðrum útsaumsverkum. Ég reyni að halda í gömlu útsaumshefðirnar en þó með mínum hætti til að gera hvert verk að mínu.“

Fallegir litir hafa góð áhrif á mig.

Þórdís segir að útsaumsþræðir hennar liggi til fortíðar. „Handverkshefðir formæðranna eru mér ofarlega í huga þegar ég þræði nálina og byrja á nýju verki. Það að sjá litskrúðug blóm verða til við hvert spor sem ég sting niður nálinni með litfögru garni veitir mér lífsgleði. Fallegir litir hafa góð áhrif á mig og ég fæ aldrei leiða á að sitja og bródera. Það sem kannski er verst er að stundum er vinnugleðin svo mikil að ég gleymi mér og átta mig ekki á því hvað ég hef setið lengi; fyrr en ég ætla að standa upp en þá er smástífni í baki og herðum sem þarf að mýkja upp.“

Þórdís Jónsdóttir

Algerlega í núinu

Þórdís situr heima og saumar og hún segir sér líða vel að vera heima hjá sér með sínu góða fólki.

„Ég er svo heppin að ég á góða fjölskyldu sem ég nýt að hafa nálægt mér. Við hjónin eigum þrjú uppkomin börn og fimm barnabörn og allar samverustundir með þeim eru kærkomnar. Svo kem ég úr stórum systkinahópi; við erum sex systkinin og erum mjög samrýmd og góðir vinir þannig að samvera með stórfjölskyldunni er alltaf gleðileg.“

Þessi hreyfing tel ég að geri það að verkum að ég hef getað sinnt útsaumnum eins lengi og mikið og ég geri.

Hver eru áhugamál konunnar sem situr svo oft með nálina og býr til listaverk?

„Hjólreiðar á sumrin eiga hug okkar hjóna; það er gott að eiga áhugamál með maka sínum. Við förum bæði í stuttar og lengri ferðir á hjólunum. Stundum bara við tvö en svo eigum við góða vini sem við ferðumst með og þá eru hjólin tekin með og landið skoðað frá öðrum víddum því að það er allt annað að skoða landið úr bíl eða á hjóli. Þegar maður hjólar þá sér maður landið í öðru ljósi og finnur ilminn af nýslegnu grasi, blómaangan og lyktina af hestunum á túninu sem hjólað er fram hjá og heyrir hnegg og jarm og allur fuglasöngurinn fyllir mann ótrúlegri gleði. Þetta eru yndislegar stundir. Á þessum stundum er maður algjörlega í núinu og nýtur lífsins til fulls. Með þessu áhugamáli hefur vinahópur okkar stækkað til muna og undanfarin ár höfum við farið erlendis að hjóla með stórum hópi og er fyrirhuguð ferð í lok ágúst til Króatíu og er tilhlökkunin mikil. Svo á veturna tek ég fram gönguskíðin og fer í ræktina. Þessi hreyfing tel ég að geri það að verkum að ég hef getað sinnt útsaumnum eins lengi og mikið og ég geri. Svo eigum við sumarbústað með tengdafjölskyldunni. Hann er í sælureit í Fnjóskadalnum og þangað er gott að koma og njóta náttúrunnar og fegurðar dalsins en þar er fegurð allt árið um kring.“

Þórdís Jónsdóttir

Tekur á

Þórdís hitti ástina í lífi sínu, Sigurð Sigurðsson, þegar hún var 16 ára og hann 17 ára.

„Saman höfum við gengið lífsins veg og náð að þroskast saman og erum góð tvenna. Við vinnum vel saman að því sem þarf að gera og njótum þess að vera saman. Við eignuðumst eldri son okkar ung, ég nítján og hann tvítugur, og mér fannst ég svo algjörlega fullkomlega tilbúin í móðurhlutverkið, enda hafa börn alltaf átt stóran stað í hjarta mínu. Ég passaði mikið krakka þegar ég var stelpa og fannst ég alveg tilbúin að verða móðir þegar að því kom þótt ung væri. Svo seinna eignuðumst við dóttur og annan son. Þannig að við erum rík og stolt af þeim og þeirra fjölskyldum og því sem þau hafa tekið sér fyrir hendur. Ég er svo heppin að lífið hefur verið mér gott og ég vakna alla daga þakklát fyrir það. Ég er lífsglöð kona og held að allir þessir litríku litir sem ég vinn með hjálpi bara við að halda við gleðinni.“

Þórdís Jónsdóttir

Hvað er það erfiðasta sem Þórdís hefur gengið í gegnum?

„Móðir mín greindist með Alzheimer og tekur það sannarlega á að sjá sjúkdóminn vera að ná henni inn í annan heim þar sem ekki er rúm fyrir okkur, ástvini hennar. Við erum samt heppin að enn þá þekkir mamma okkur og gleðst þegar við heimsækjum hana þó svo að orðunum fækki en ástúðin og hlýjan í augunum hennar gefur manni mikið. En þá kemur aftur að því hvað gott er að eiga góða stórfjölskyldu sem hjálpast að og við styðjum við hvert annað og reynum að styðja við pabba okkar sem hefur staðið sig svo vel í þessari erfiðu stöðu.“

Maður hefur þurft að horfa á eftir ástvinum fara allt of fljótt.

Hverjir eru draumarnir varðandi bæði lífið og listina?

„Lífið hefur kennt manni að það er ekki sjálfgefið að fá að eldast. Maður hefur þurft að horfa á eftir ástvinum fara allt of fljótt. Tengdamamma mín lést úr krabbameini rúmlega sextug og mikið vildi ég að við hefðum fengið að hafa hana í lífi okkar mikið lengur. Ég á mér þann draum og ósk að maður verði svo heppinn að hafa góða heilsu og hamingju sem ferðafélaga ásamt öllum þeim sem ég elska. Hvað listina varðar þá vona ég að ég haldi áfram að þróast og njóta áfram að gera það sem mér finnst gaman.“

Hefur Þórdísi dreymt púða?

„Mig hefur ekki dreymt púða í svefni en dagdraumar eru góðir og þá fæðast oft góðar hugmyndir sem ég fylgi svo eftir þegar ég sest niður til að bródera.“

 

https://www.facebook.com/Handbr%C3%B3dera%C3%B0ir-p%C3%BA%C3%B0ar-%C3%9E%C3%B3rd%C3%ADs-J%C3%B3nsd%C3%B3ttir-274758459224705/

Þórdís Jónsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -