Fimmtudagur 28. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Þórdís Sigurgeirsdóttir: „Komst í gegnum sorgina með því að lifa lífinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er bara svo skemmtilegt og gefandi að hræra í sálartetrinu og búa til karaktera; það er gaman að skapa karaktera frá grunni. Það er það sem er skemmtilegast. Það er líka gott að fá smáútrás og vera með fólki. Ég er frekar félagslynd og það gefur mér mikið að vera innan um fólk,“ segir Þórdís Sigurgeirsdóttir sem hefur um árabil leikið með Leikfélagi Kópavogs sem hefur að undanförnu sýnt leikritið Þjófar og lík.

Þórdís er spurð hvort henni finnist vera þægilegt að fara aðeins út fyrir rammann og vera þá einhver önnur en hún er sjálf. „Já, það er það svolítið. Það er áskorun að vera einhver annar en maður er sjálfur. Kannski er þetta líka sýniþörf að einhverju leyti. Maður stendur á sviðinu og sýnir sig. Það sama geri ég í vinnunni sem fararstjóri; ég segi þá frá.“

Þórdís segir að leiklistaráhuginn hafi kviknað snemma. „Ég var í leiklist í skóla og hef alltaf öðru hvoru verið viðriðin leiklist. Ég horfði mikið á leikið efni í sjónvarpinu – íslensk leikrit og myndir – og það var kannski það sem heillaði.“

Hana dreymdi um að verða leikkona og reyndi hún nokkrum sinnum í kringum tvítugsaldurinn að komast inn í Leiklistarskóla Íslands. „Ég komst ekki í gegnum síuna frekar en margir aðrir sem hafa reynt við þá prófraun.“

Hún lék með Stúdentaleikhúsinu í nokkur ár og svo byrjaði hún að æfa með Leikfélagi Kópavogs árið 2006.

Æfingatímabil eru yfirleitt sex til átta vikur og er þá æft flest kvöld og um helgar.

„Við setjum alltaf upp allvega eina uppfærslu á hverju ári. Við byrjuðum að undirbúa Þjófa og lík í fyrra og svo byrjuðum við að æfa í lok ágúst. Æfingatímabil eru yfirleitt sex til átta vikur og er þá æft flest kvöld og um helgar. Það er algengt að sýningar séu átta til tíu. Leikfélagið á hús en þar sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki verið að styðja fjárhagslega við bakið á áhugaleikfélögum eins og var gert áður þá höfum við þurft að grípa til þess ráðs að leigja húsið út til að geta rekið það. Og það hefur þar af leiðandi áhrif á hve mikilli starfsemi við getum haldið úti sjálf.“

- Auglýsing -
Þórdís Sigurgeirsdóttir
Úr sýningunni Þjófar og lík.

Kyrrðin

Hún er með BA-próf í dönsku og kennararéttindi og fyrir utan að dreyma um að verða leikkona dreymdi hana um að verða leiðsögumaður. Það hefur hún gert í áratug.

„Ég hef bara gaman af að ferðast og ég hef gaman af náttúrunni. Og ég hef áhuga á að segja frá. Það er það sem hefur dregið mig í þetta.“

- Auglýsing -

Hún er spurð um uppáhaldsgönguleiðina. Uppáhaldsgöngusvæðið. „Þau eru mörg en ætli ég nefni ekki helst Hengilssvæðið.“

Útivistin/hreyfingin, falleg náttúra/útsýnið og svo félagsskapurinn/það að kynnast fólki.

Hvað er það besta við göngurnar? Hvað er það skemmtilegasta? Og hvað gefa göngurnar henni?

„Það er eins og með leiklistina: Að vera með fólki. Það er oftast það skemmtilegasta við göngurnar. Maður telur yfirleitt upp þrennt: Það er útivistin/hreyfingin, falleg náttúra/útsýnið og svo félagsskapurinn/það að kynnast fólki. Það á að að njóta en ekki þjóta. Njóta þess að vera úti í fallegri náttúru með öðru fólki. Það er kannski það sem gefur manni mest.“ Hún nefnir líka að komast úr skarkalanum og fara út í náttúruna svo sem upp á fjall. „Það er róandi. Það kannski auðveldar fólki að tæma hugann að vera í svoleiðis aðstæðum.“

Besta hljóðið er náttúrlega kyrrðin.

Hvert er uppáhaldsblóm Þórdísar? Jú, það er þjóðarblómið sjálft. Holtasóleyin.

Hvað með uppáhaldshljóðið? „Besta hljóðið er náttúrlega kyrrðin. Það er ákveðið hljóð. Svo er það fuglasöngurinn. Hann kryddar kyrrðina alltaf. Kannski er fuglasöngurinn uppáhaldshljóðið.“

Með félögum í Veseni og vergangi.

Sorgin

Þórdís er ekkja og tveggja barna móðir. Talið berst að sorginni. Dauðanum. Fyrir utan að hafa misst manninn sinn hefur hún misst föður sinn og bróður. Hún segir að það sé misjafnt hvernig fólk tekst á við sorgina.

„Þetta hljómar svolítið klént en lífið hefur áfram og mér hefur tekist að komast í gegnum sorgina með því að lifa lífinu eins og ég gerði áður og minnast viðkomandi með hlýju. Þegar ég missti manninn minn þá leið einn og hálfur mánuður þar til ég var farin að æfa farsa með leikfélaginu. Ég held að það hafi haft svolítið að segja að þetta var farsi. Það hjálpaði mér mjög mikið að aðeins að flippa út og lifa lífinu lifandi eins og fólk segir.“

Þórdís segist horfa á lífið með öðrum augum en áður.

„Maður veit aldrei hvenær tíminn kemur. Þetta kennir manni kannski það að njóta lífsins á meðan það er. Maður veit aldrei sjálfur hvenær maður fer.“

Hvenær kallið kemur.

Það er aldrei of seint að byrja.

„Ef fólk langar til að gera eitthað þá á það að kýla á það. Ef einhverjum dettur í hug að fara í kór, í leikfélag eða út að ganga þá er bara um að gera að drífa sig. Það er aldrei of seint að byrja.“

Á Baldheiði á Kili 2018.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -