- Auglýsing -
Þórdís nokkur er hundfúl í MS eftir nýleg viðskipti við fyrirtækið og svör þess þegar hún leitaði til þeirra óánægð. Hún keypti ost af fyrirtækinu sem hún segist geta rotað einhvern með þrátt fyrir að eiga ekki að renna úr fyrr en um miðjan mánuðinn.
Þórdís fjallar um óánægju sína í fjölmennu samfélagi matgæðinga á Facebook, Matartips! Þar segir hún:
„Þessi ljótur er merktur útrunninn um miðjan mars. Ég gæti gatað vegginn hjá mér með honum eða rotað einhvern. MS segir að hann eigi að líta svona út. Hann eigi að vera grænn og grjótharður með hvíta loðna myglubletti. Eins og ég hafi aldrei keypt hann áður eða borðað,“ segir Þórdís.

Fjölmargir meðlimir samfélagsins tjá sig um ostinn og viðskiptahætti MS. Auður er ein þeirra sem á varla til orð. „Þetta er ógeðslegt! En Ms virðist vera skítsama þó að vörur séu gallaðar þe ógeðslegar. Ég veit um nokkur dæmi þar sem sá sem svarar kvörtunum segir að ekkert sé að vöru,“ segir Auður.
Bryndís er líka mjög hissa. „Myndi fara með hann í MS og láta þá borða þetta fyrir framan þig, ætti ekki að vera vandamál fyrst hann á að vera svona,“ segir Bryndís. Og Elva nokkur tekur í sama streng. „Oj bara. Þetta lítur út eins og glæpavettvangur. Vantar bara lögregluborðann.“
Á endanum blandaði markaðsstjóri osta- og smjörvara MS sér í umræðuna, Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir. Hún bað Þórdísi um að koma með ostinn í höfuðstöðvar til að geta metið hann. „Þessi ostur lítur verr út en ætla mætti hvað Ljót varðar, líkur eru á að myglan hafi náð yfirhöndinni í þessu eintaki. Við munum skipta honum út fyrir annan ost og bæta þér ómakið. Þessi ostur er ekki i lagi sýnist mér á myndinni og okkur þykir leiðinlegt að þú hafir fengið gallaða vöru,“ segir Guðbjörg.