Þorgrímur Þráinsson segir að „samkvæmt Morgunblaðinu stendur til að reisa í Vatnsmýrinni The Grimsson Centre – miðstöð rannsókna í málefnum norðurslóða, til heiðurs Ólafi Ragnari Grímssyni. Kostnaðurinn um 20 milljarðar.“
Bætir við að „á næstu blaðsíðu í Morgunblaðinu er sagt frá Ingó sem hefur styrkt dreng til náms í Marokkó í tæp 20 ár. Hann ætlar að aka frá Íslandi til að heimsækja drenginn og er með 30 bolta meðferðis. Hann langar til að útdeila boltum á leiðinni. Með ferðinni hyggst Ingó vekja athygli á Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir þá sem hafa fengið krabbamein.“
Þorgrímur nefnir að „fyrir tveimur árum spurði aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra mig;
„Hvað þýðir snemmtæk íhlutun?““
Bætir við:
„Nýlega opnaði Hús íslenskunnar en á sama tíma molnar undan tungumálinu sökum aðgerðarleysis. Kostnaður við húsið var um 10 milljarðar. Hefði verið skynsamlegt að Veröld og Hús íslenskunnar væru eitt og sama húsið?
Þá er fámennt í háskólum landsins, sökum fjarnáms. Kennarar halda erindi í tómum húsakynnum. Þar bergmálar rödd þeirra. Fjöldi ungra karlmanna þorir ekki í háskóla.
Okkur tekst ekki að reisa þjóðarhöll til þess að geta spilað löglega landsleiki í handbolta og körfubolta. Stuðningur við íþróttastarf barna og ungmenna er af skornum skammti. Aukinn kvíði, aukið þunglyndi, brotin sjálfsmynd, brottfall úr skólum, misnotkun lyfja, hnífaárásir – hugsanlega vegna þess að það hefur aldrei verið til fjármagn í SNEMMTÆKA ÍHLUTUN.
Í The Grimsson Center verða nöfn styrktaraðila birt með ÁBERANDI HÆTTI á vegg hússins!! Svo stendur til að byggja annað Gróskuhús, og djúptæknihús í Vatnsmýrinni. Hver veit nema þar rísi styttur af einhverjum. 33. forseti Bandaríkjanna skrifaði; „Það er með ólíkindum hverju þú færð áorkað í lífinu ef þér stendur á sama um hver fær heiðurinn af því.“ Athyglisvert!“