Þorleifur Jóhannsson, húsgagnasmíðameistari og trommuleikari, er látinn eftir skamma baráttu við krabbamein. Hann lést á Þorláksmessu og var 69 ára. Akureyri.net greinir frá þessu en þar bjó hann lengst af.
Þorleifur kenndi smíðar í Verkmenntaskólanum á Akureyri í seinni tíð en hann er helst þekktur á sviði tónlistar. Hann var oft kallaður Leibbi trommari en það hljóðfæri átti hug hans og hjarta.
Ekki er ólíklegt að það hafi verið ákveðinn hápunktur á ferli hans þegar hann, ásamt hljómsveitinni Bravó eða Bravó-bítlunum, hitaði upp fyrir bresku hljómsveitina Kinks á átta tónleikum í Austurbæjarbíói í Reykjavík árið 1965. Þá voru strákarnir í Bravó 13 og 14 ára.
Síðar lék Þorleifur með Hljómsveit Ingimars Eydal, Hljómsveit Finns Eydal og Hljómsveit Ingu Eydal, svo nokkrar séu nefndar.