Föstudagur 20. maí, 2022
8.8 C
Reykjavik

Þrautseigja og kærleikur fara vel saman

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Leikskólinn Hjalli varð þrjátíu ára þann 25. september síðastliðinn og það er í raun ótrúlegt að hugsa til þess að þrír áratugir séu liðnir síðan Hjallastefnan varð til. Á þessum árum hefur hún auðvitað þróast, tekið breytingum og aðlagast aðstæðum í samfélaginu en í grunninn er hugmyndafræðin þó í mjög sambærilegri mynd og hún var. Í tilefni afmælisins var mikið um dýrðir og tók Steingerður Steinarsdóttir Írisi Helgu Baldursdóttur, skólastýru Hjalla, tali vegna þessara tímamóta.

 

Á afmælisdaginn tók starfsfólk leikskólans Hjalla sig til og setti saman sögusýningu, þar sem hengdar voru upp myndir, minningar og ýmislegt annað frá árunum þrjátíu, í sal og á göngum skólans. Afmælisvikan var hátíðleg og viðburðarík. Fjölskyldur Hjalla heimsóttu skólann í fjölskyldukaffi þar sem börnin sungu, buðu á listsýningu og léttar veitingar.

„Hátíðleikinn og gleðin svifu yfir í skólanum þessa viku og stórir sem smáir tóku þátt í viðburðum vikunnar,“ segir Íris Helga. „Á afmælisdaginn sjálfan kom fólk og samgladdist okkur í Hjalla, skólastjórar Hjallastefnuskóla, skólastjórar leikskóla Hafnarfjarðar, fólkið sem vinnur mest með okkur á Skóla- og frístundasviði Hafnarfjarðarbæjar, bæjarstjórinn Rósa Guðbjartsdóttir og Þórdís Jóna framkvæmdastýra heiðruðu okkur með nærveru sinni og að sjálfsögðu frumkvöðull stefnunnar sjálfrar, hún vinkona okkar Margrét Pála.“

Hjallastefnan er uppeldis- og skólastefna sem rekur fjórtán leikskóla og þrjá grunnskóla. Í hverju er hún fólgin, í stuttu máli, og hvað leggið þið mesta áherslu á í uppeldi barna? „Hjallastefnan er kærleiksmiðuð og skapandi lýðræðisstefna þar sem við iðkum jákvæðni og kærleika jafnt til barna sem og samstarfsfólks, Hjallastefnan er mannræktarstefna þar sem fullorðnir fá einnig tækifæri til að iðka á sama hátt og börnin,“ segir Íris Helga. „Jafnrétti stúlkna og drengja skiptir okkur einna mestu máli og þar höfum við kynjanámskrá til að vinna eftir. Þar eru einnig teknir fyrir einstaklings- og félagslegir þættir sem markvisst er unnið með í starfi með börnum.

Unnið er með litla hópa þar sem hver einstaklingur fær að njóta sín á eigin verðleikum og unnið er að því að nálgast hvert og einn barn eins og það þarf.

Þetta er miklu meira en bara orðin tóm heldur teygjum við okkur langt til að lifa eftir þessum gildum sem einkennir allt okkar starf. Leikefni er nokkuð óhefðbundið í leikskólunum, en það er svokallaður opinn efniviður sem snýr að sköpunarkrafti og ímyndurnarafli barnanna fremur en að vera stýrandi í leik þeirra.“

Hverju hafa þau viðhorf og aðferðir sem hún notar breytt í menntamálum hér á landi? „Við stefnum alltaf að því að finna leiðir sem henta hverju barni í leik og þroska. Við erum öll misjöfn og viljum öll fá tækifæri til að æfa okkur og læra af mistökum. Þess vegna höfum við t.d. uppbyggileg orð yfir mistök og segjum að við ruglumst og það gangi bara betur næst. Þetta er markvisst notað og samkvæmt rannsókn sem var unnin af Háskólanum í Reykjavík kemur í ljós að börnin okkar hafa meiri seiglu en önnur börn og það er mikilvægur eiginleiki. Við viljum gefa hverju barni rými til að æfa, endurtaka og sleppa tökum af mistakaótta. Við viljum efla börn í að vera sjálfstæð, hugrökk og standa með sjálfum sér í leik og starfi,” segir Íris Helga. „Í Hjallastefnunni er, eins og áður sagði, unnið eftir kynjanámskrá. Hún er byggð upp á sex lotum yfir skólaárið, sem skiptast á að þjálfa einstaklings- og félagslega þætti barnanna.“

- Auglýsing -

Íris Helga segir að alla daga æfi kennarar og börn sig í að fara út fyrir boxið. Þau vilji að hvert barn geti víkkað sitt val, tilfinningalega og áhugatengt, án þess að vera stýrt í einhverja átt út frá kyni. „Við erum með kynjaskipt starf, en það er eingöngu verkfærið okkar að blöndun á jafnréttisgrundvelli. Kynjaskiptingin er í sjálfu sér ekki markmið heldur leiðin að því markmiði að börn, stúlkur og drengir, hafi frelsi til að vera eins og þau eru. Þar sem áhugi þeirra ræður för en ekki fyrirfram mótaðar hugmyndir um hvað hæfi þeim út frá kyni.

Aukning á kynjuðum fötum og leikföngum er gríðarleg ef eitthvað er nefnt, það er búið að setja börn í mót og mótaðan farveg út frá kyni strax við fæðingu.

Námskrá Hjallastefnunnar hefur notið sívaxandi velgengni og virðingar undanfarin ár og hefur fengið ýmis konar viðurkenningar vegna jafnréttismála. Árið 1996 hlaut Hjallastefnan viðurkenningu Jafnréttisráðs Íslands fyrir sérstakt átak í jafnréttismálum og Hjalli hlaut hvatningarverðlaun Jafnréttisnefndar Hafnarfjarðar árið 2001. Nú á dögunum hlaut Hjallastefnan svo verðlaun frá Manino og Viðskiptaráði Íslands fyrir byltingarkenndar stjórnunaraðferðir.

Hjallastefnan er nokkuð þekkt erlendis og skólarnir fá til sín mjög marga erlenda gesti á hverju ári auk þess sem Margrét Pála og starfsfólk Hjallastefnunnar hafa verið fengin til að tala á ráðstefnum víðs vegar um heiminn. „Við erum henni óendanlega þakklát fyrir kjarkinn, þrautseigjuna og óbilandi trú og staðfestu í að gera heiminn betri fyrir okkur öll.“

- Auglýsing -

„Það er eins og með allt, skoðanir fólks eru misjafnar og það er í góðu lagi. Það þarf ekki öllum að líka vel við allt, það er það dásamlega við að hafa val í skólakerfinu eins og á öðrum stöðum,“ segir Íris Helga aðspurð hvort skoðanir fólks hafi áhrif á starfið.

Íris Helga segir þau vera lánsöm að hafa stóran hóp fjölskyldna í þeirra samfélagi og markmið þeirra er að koma til móts við hverja einustu fjölskyldu eins og þau þurfa. Hvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkur? „Við lítum svo sannarlega björtum augum til framtíðarinnar og hlökkum til hennar, enda ekki annað hægt þegar börn eru annars vegar. Það eru forréttindi að vera í starfi þar sem kjarninn í öllu gengur út á að gera lífið betra og kærleiksríkara frá degi til dags,“ segir Íris Helga að lokum.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -