Börnin í Víkurskóla í Grafarvogi mæta í skólann klukkan tíu á mánudagsmorgnum. Þá mæta þau klukkan 8.40 hina fjóra dagana og er Víkurskóli eini skólinn á landinu með þessa reglu.
Í upphafi skólaárs var ákveðið að gefa börnunum aukinn tíma fyrir svefn á mánudögum áður en þau hefja skólavikuna.
Þuríður Óttarsdóttir, skólastjóri Víkurskóla, segir þennan nýja sið draga úr streitu nemenda og ekki síður kennara. Það hafi áhrif á heimili einstaklinga í heild.
Hún segir fyrirkomulagið líka bæta námsárangur barnanna en hefur Þuríður mikla reynslu af skólakerfinu.
Þetta minnki stress á heimilum á morgnana þar sem börnin þurfi ekki að vera mætt eldsnemma í skólann.
„Þetta fyrirkomulag léttir á streitunni. Þegar minni streita er hjá starfsfólki smitar það líka yfir í nemendahópinn,“ sagði Þuríður í viðtali við Fréttablaðið.