Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

TikTok-perrinn herjar á Austurland – Sum börn komu með krók á móti bragði – Sjáðu bréfið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Foreldrar á Austurlandi, nánar tiltekið í Múlaþingi, eru varaðir við því að mörg dæmi séu um að fullorðinn maður hafi reynt að kaupa nektarmyndir af börnum gegn greiðslu. Maðurinn setur sig í samband við börn á miðlum svo sem TikTok, Snapchat, leikinn Among us, Telegram, Whats app, Discord, svo nokkuð sé nefnt. Hann lofar börnunum á bilinu 5 til 10 þúsund krónum fyrir myndina.

Þetta kemur fram í bréfi til foreldra sem er birt á vef Múlaþings. Nokkur umræða hefur verið um þennan glæpamann en sá er yfirleitt kenndur við TikTok. Bréfið til foreldra má lesa í heild sinni hér fyrir neðan en þar kemur meðal annars fram að nokkur börn hafi snúið á þennan mann. Sum börn hafi einfaldlega fundið nektarmyndir á netinu, sent pervertinum þær og fengið greitt. Í bréfinu er þó varað við þessu því best sé að hafa engin samskipti við manninn.

Bréfið til foreldra

Við viljum vekja athygli ykkar á nýrri birtingarmynd kynferðisbrota gegn börnum og unglingum sem vert er að vera vakandi fyrir. Komið hafa upp nokkur tilvik hérlendis á síðustu vikum þar sem fullorðnir einstaklingar hafa greitt ungmennum á grunnskólaaldri peninga eða önnur verðmæti fyrir kynferðislegar ljósmyndir.

Leið þeirra að samskiptum við ungmennin er í flestum tilvikum í gegnum spjall á netinu, oft í gegnum mjög vinsæl forrit sem bjóða upp á samskipti milli notenda. Þar má til dæmis nefna TikTok, Snapchat, leikinn Among us, Telegram, Whats app, Discord og fleiri forrit.
Greiðslur sem börnum eru boðnar fyrir myndir eru ýmiskonar. Það er þekkt að þeim sé borgað í gegnum millifærsluforrit eins og Aur og Kass, misháar upphæðir eftir því hvað sést á myndunum og hversu skýrar þær eru. Einnig eru dæmi um að börnum sé borgað í gjaldmiðli sem ekki er eins auðgreinanlegur fyrir foreldra, þar má nefna Roblox peninga, inneignir í tölvuleikjum og öðrum forritum.

Vitað er að fullorðnir aðilar sem verða sér út um eða kaupa ljósmyndir af börnum nota myndirnar sem kúgunartól til þess að fá sendar fleiri og grófari myndir. Þá er þekkt að þessir aðilar reyni að nálgast börnin enn frekar m.a. með því að gefa þeim gjafir og gera þeim einhvers konar greiða.

- Auglýsing -

Þannig reyna þeir að gera sambandið við börnin persónulegra, búa til sameiginleg leyndarmál og gefa börnunum þá tilfinningu að þau skuldi þeim eitthvað fyrir vikið.
Það er því miður þekkt að það getur reynst barni erfiðara að neita viðkomandi ef það hefur þegið gjafir eða peninga frá viðkomandi. Barnið getur upplifað skömm yfir fyrri samskiptum og það reynst barninu erfitt að segja frá því sem hefur gerst.

Börn geta upplifað sölu á nektarmyndum sem einfalda leið til að eignast smá pening án þess að gera sér nokkra grein fyrir hættunni. Vitað er að sum börn hafa stolið myndum af netinu og selt hinum fullorðnu en mikilvægt er að stöðva strax aðgengi þessara aðila að börnum.

Mikilvægt er að við séum öll vakandi fyrir þessum veruleika og að foreldrar eða forsjáraðilar taki spjallið með sínum börnum og séu meðvitaðir um hvað börnin gera á netinu. Það er nauðsynlegt að börn átti sig á hættunni en upplifi ekki skömm við að segja frá samskiptum sem þau hafa átt á netinu, eða aðrir sem þau þekkja til.

- Auglýsing -

Börn þurfa að vera viss um að þau beri ekki ábyrgð á því sem skeð hefur, það getur reynst
fullorðnum einstaklingi auðvelt að afvegaleiða barn af því að valdaójafnvægið milli þeirra er mikið. Ef börn segja frá eða þið hafið upplýsingar eða grun um mál af þessum toga þá getur verið um að ræða brot á hegningarlögum. Því ber að tilkynna málið tafarlaust til lögreglu og barnaverndar í síma 112.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -