2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Tíu góð ráð fyrir barnaafmælið

Matarbloggarinn María Gomez deilir góðum ráðum sem koma sér vel fyrir þá sem eru að halda barnaafmæli.

María Gomez er snillingur í að halda veislur og er gestrisin með eindæmum. Á dögunum hélt hún glæsilegt afmæli fyrir dóttur sína sem varð þriggja ára. Veislan heppnaðist afar vel og fengum við því Maríu til að gefa lesendum góð ráð sem ættu að koma sér vel fyrir þá sem eru að fara að halda barnaafmæli.

„Heimagert gúmmelaði og þema í takt við áhugasvið barnsins er eitthvað sem ég legg ríka áherslu á þegar ég held barnaafmæli,“ segir María.

„Ég spyr kakkana mína alltaf hvernig köku þau vilja hafa og fæ oft mjög skýr svör,“ útskýrir María sem sníðir gjarnan afmælisþema í kringum afmæliskökuna sem börnin hennar biðja um. „Það dugir oft að hafa bara köku og servíettur í saman þema og þá er þetta komið.“

María tekur fram að það sé óþarfi að flækja hlutina. „Mér finnst að fólk eigi að njóta ferlisins og fara sínar leiðir í þessum málum. Ekki láta ýktar veislur, sem sjást oft á samfélagsmiðlum, hafa áhrif á það hvernig þeirra barnaafmæli á að vera.“

Mér finnst að fólk eigi að njóta ferlisins og fara sínar leiðir í þessum málum.

AUGLÝSING


Meðfylgjandi eru tíu góð ráð fyrir barnaafmælið:

1 – Byrjið undirbúninginn snemma, um það bil tveimur vikum fyrr. Þá er gott að vera búin að ákveða hvernig afmælisköku þið ætlið að hafa og svo er tilvalið að kaupa diska, skraut og servíettur í kringum kökuna.

2 – Byrjið að baka kökubotna og annað sem hægt er að frysta snemma. Ég t.d. gerði litlar kjötbollur í viku fyrir afmælið. Þær frysti ég hráar og tók út daginn áður og eldaði á afmælisdaginn í ofni. Takið svo út kökubotnana daginn áður og skreytið kvöldið fyrir veisluna. Það er alveg ótrúlegt hvað þetta léttir lífið að gera þetta svona.

3 – Ekki vera hrædd við að nota tilbúið kökumix á borð við Betty Crocker. Það er til gott úrval af slíku kökumixi sem bragðast afskaplega vel.

4 – Ef þið eruð ekki góð í að skreyta kökur má kaupa allskyns sniðugar sykurmassamyndir sem sett er ofan á kökuna. Svo er líka hægt að láta prenta mynd á sykurmassa til að setja á kökuna. Þá er líka hægt að kaupa tilbúin smjörkrem. Og ekki örvænta þó að kakan líti ekki út eins og hún sé keypt úti í bakaríi því það er langfallegast að sjá heimagerðar kökur foreldra sem gerðu sitt besta til að búa til fína köku handa barninu sínu.

Ekki örvænta þó að kakan líti ekki út eins og hún sé keypt úti í bakaríi.

5 – Ef þið treystið ykkur ekki í kökubaksturinn sjálf er ekkert að því að kaupa tilbúna köku og annað hvort skreyta sjálf eða kaupa hana tilbúna út í búð.

6 – Hafið meira af heitum réttum en kökum því þeir eru alltaf vinsælastir.

7 – Gerið heitu réttina daginn áður ef það er möguleiki. Ég mæli samt ekki með að gera rúllutertubrauðréttina fyrr en samdægurs.

8 – Dekkið borðið og skreytið ekki seinna en deginum fyrir afmælið.

9 – Leyfið afmælisbarninu að taka sem mestan þátt í undirbúningi og ferlinu því það gerir ofboðslega mikið fyrir barnið. Það skapar fallegar og góðar minningar.

10 – Að lokum reynið að njóta undirbúningsins. Ef þið gerið þetta allt tímanlega þá verður allt ferlið svo miklu skemmtilegra og maður nær að njóta afmælisins betur.

María deilir hér uppskrift að bragðsterkum brauðrétt sem hún segir fullkominn í barnaafmæli.

Bragðsterkur brauðréttur

Þessi réttur hentar vel í barnaafmæli.

 • 1 piparostur
 • 1 mexico-ostur
 • ca 100 gr rjómaostur
 • 4-5 dl matreiðslurjómi
 • 1 box af sveppir (250 gr)
 • 100 gr pepperoni
 • 1 beikonbréf
 • 2 dósir sýrður rjómi
 • 1/2 fransbrauð, tætt niður
 • Ananasdós
 • Rifinn ostur

Aðferð:

 1. Ostarnir og rjóminn eru settir í pott og bræddir, sýrða rjómanum síðan hrært saman við.
 2. Rífið brauðið niður og setjið í eldfast mót.
 3. Sveppir og beikon steikt á pönnu og raðað ofan á brauðið.
 4. Ananas skorin smátt og stráð yfir allt saman
 5. Pepperoni stráð þar ofan á og ostablöndunni hellt yfir.
 6. Að lokum er rifnum osti stráð yfir allt og gott er að setja ögn af papríkudufti yfir
 7. Bakað í ofni við 200°c í u.þ.b. 20-30 mínútur eða þar til allt er orðið gyllinbrúnt

Mynd af Maríu / Unnur Magna
Mynd af brauðrétt / María Gomez

Sjá einnig: Kom í jólafrí til Íslands en snéri ekki til baka

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is