• Orðrómur

Tók þátt í fjölmennri og víðtækri leit að sjálfri sér við Eldgjá – Hafði skipt um föt og farðað sig

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sumarið 2012 flykktust ferðamenn til landsins og mokuðu dollurum, jenum, evrum og pundum í ríkiskassann. Alls heimsóttu 660 þúsund ferðamenn eldfjallaeyjuna það árið með tilheyrandi álagi á ferðamannastaði, lögreglu og björgunarsveitir, sem sífellt voru leitandi að illa útbúnu ævintýrafólki hist og her.

Konan hverfur

Morgun nokkurn, seint í ágústmánuði þetta árið, stoppaði langferðabifreið, full af erlendum ferðamönnum, við Eldgjá í Skaftártunguhreppi. Meðal farþega var ung kona af asískum uppruna sem yfirgaf bílinn ásamt öðrum ferðamönnum til að virða fyrir sér hina stórkostlegu náttúrufegurð. Konan skilaði sér aftur á móti ekki í rútuna þegar halda átti ferðinni áfram. Bílstjórinn beið í ríflega klukkustund en þar sem hvergi sást til ungu konunnar lét hann lögreglu vita og hélt síðan leiðar sinnar.

- Auglýsing -

Strax var gripið til aðgerða, kallað eftir liðveislu björgunarsveita og lýsing send út á konunni. Í henni var tiltekið að hún væri af asísk­um upp­runa, um 160 sentímetrar á hæð, dökkklædd og tal­aði góða ensku, að því kom fram í til­kynn­ingu lög­regl­unn­ar. Hún var talin vera á aldrinum 20-30 ára, með litla, ljósa hliðartösku og ferðaðist að öllum líkindum ein.

Ekki var talið útilokað að konan hefði fengið far með öðrum bíl á svæðinu og var biðlað til almennings um upplýsingar þess eðlis.

Björgunarsveitir og þyrla

- Auglýsing -

Björgunarsveit­in Stjarn­an úr Skaft­ár­tungu hóf leit á svæðinu um hádegið, jafnt á bíl­um og fjór­hjól­um, og könnuðu alla slóða í kring og upp með ánni en án árangurs. Voru þá all­ar sveit­ir í Rangár­valla- og Vest­ur-Skafta­fells­sýslu kallaðar til leit­ar svo og nærliggjandi lögregluembætti.

Leitin bar engan árangur. Það virtist svo sem jörðin hefði gleypt ungu konuna.

Þegar leið á stóðu menn frammi fyrir því að kalla til þyrlu til aðstoðar við leitina og var haft samband við Landhelgisgæsluna og óskað eftir liðveislu. Aftur á móti var þoka á leitarsvæðinu og skyggni með versta móti svo ekki þótti ráðlegt að senda þyrluna af stað.

- Auglýsing -

Björgunarsveitamenn og lögregla héldu ótrauð áfram leitinni allt til kl. 3 um nóttina og hafði hún þá staðið yfir sleitulaust í 15 klukkustundir. Allt í allt tóku rúmlega 50 björgunarsveitarmenn þátt í leitinni.

Leitaði að sjálfri sér

Leitinni var hætt þegar í ljós kom að týnda konan var alls ekki týnd, nema síður væri. Hún hafði setið hin rólegast fyrir allra augum í rútunni og tók meðal annars þátt í leitinni ásamt fleiri ferðamönnum vildi leggja hönd á plóginn.

Hún hafði aftur á móti ekki áttað sig á að hún væri að leita að sjálfri sér.

Ferðamaðurinn sem leitaði að sjálfri sér varð ekki bara fréttaefni á Íslandi heldur um heim allann. Bandaríska fréttastöðin CBS fjallaði um málið á vefsíðu sinni, sem og TIME og New York Daily News. Þá var nokkuð ítarleg umfjöllun um málið með skýringamyndum á vefsíðu breska blaðsins Daily Mail.

Nokkrar óheppilegar ástæður munu hafa orðið til þessa grátbroslega atviks. Má þar nefna að konan ferðaðist ein, hafði skipt um föt og sett á sig farða á salerninu áður en haldið var í rútuna og höfðu samferðarmenn hennar því ekki þekkt hana. Einnig höfðu mannleg mistök orðið til þess að rangt var talið í rútuna og í ofanálag þekkti konan ekki lýsinguna á sjálfri sér sem meðal annars var send til fjölmiðla.

Aldrei var gefið upp nafn né þjóðerni konunnar en það verður að vonast að Íslandsferðin hafi verið henni ánægjuleg.

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -