Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Tökum Mike Pence fagnandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Framganga Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna hefur vakið verðskuldaða eftirtekt á alþjóðavettvangi. Ísland var þar í fararbroddi þjóða sem gagnrýndu Sádi-Arabíu fyrir svívirðileg mannréttindabrot og vöktu sömuleiðis athygli á kerfisbundnum aftökum án dóms og laga á Filippseyjum. Allt saman til fyrirmyndar.

Íslensk stjórnvöld vinna nú að undirbúningi fyrir heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands. Heimsókn þessi er gráupplagt tækifæri fyrir stjórnvöld til að sýna að þau láta mannréttindabrot í heiminum ekki afskipt, sama hvar þau eru framin. Þess vegna er heimsókn Mike Pence mikið fagnaðarefni.

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra gætu til dæmis byrjað á því að fordæma stefnu Bandaríkjanna í innflytjendamálum. Annars vegar hvernig forseti Bandaríkjanna kyndir undir rasisma og notar hvert tækifæri til að jaðarsetja alla þá hópa sem ekki eru hvítir á hörund og hins vegar viðurstyggilega framkomu ICE (innflytjendastofnunarinnar) gagnvart innflytjendum og flóttamönnum. Daglega má lesa fréttir um hvernig flóttamenn eru látnir hafast við í ömurlegum aðstæðum, þeir geymdir í búrum og börn aðskilin frá foreldrum sínum. Fulltrúar ICE keyra svo um götur borga og bæja og handsama alla þá sem mögulega gætu verið ólöglegir innflytjendur, jafnvel í viðurvist barna þeirra, og halda þeim í einangrun svo dögum skiptir.

Heimsókn þessi er gráupplagt tækifæri fyrir stjórnvöld til að sýna að þau láta mannréttindabrot í heiminum ekki afskipt, sama hvar þau eru framin.

Ísland hefur löngum stært sig af því að vera í fararbroddi ríkja heims þegar kemur að kvenfrelsi og kynjajafnrétti og þar ættu íslenskir ráðamenn að geta leiðbeint varaforsetanum um eitt og annað. Nokkur ríki Bandaríkjanna eru kerfisbundið að þrengja að rétti kvenna til þungunarrofs og notkun getnaðarvarna og útlit fyrir að í sumum ríkjum verði lagt blátt bann við þungunarrofi. Þessi stefna, sem er runnin beint úr smiðju Mike Pence og skoðanabræðra hans í Repúblíkanaflokknum, kemur vitaskuld verst niður á fátækum og minnihlutahópum. Ekki væri verra ef íslenskir ráðamenn myndu minnast á kerfisbundna mismunun gegn LBGT-fólki innan bandaríska hersins og í leiðinni sýnt honum myndir frá gleðinni sem einkennir hinsegin daga.

Listinn gæti vafalaust verið lengri. Það mætti til dæmis nefna hvernig forseti Bandaríkjanna reynir kerfisbundið að grafa undan frjálsri fjölmiðlun í landinu, hvernig stefna Bandaríkjanna í loftlagsmálum ógnar framtíð komandi kynslóða um allan heim eða hvernig galið byssublæti Bandaríkjamanna verður þúsundum að bana á ári hverju. Nú eða gegndarlausan fjáraustur til Sádi-Arabíu til að fjármagna grimmilegt og tilgangslaust stríð í Jemen á kostnað þúsunda óbreyttra borgara. Tilefnin eru ærin.

- Auglýsing -

Ætli íslensk stjórnvöld að vera samkvæm sjálfum sér og sýna að þeim er alvara með málflutningi sínum í ráðinu þá er óhjákvæmilegt að þessi mál verði á dagskrá heimsóknarinnar. Bandaríkin eru einn okkar helsti bandamaður á sviði efnahags-, öryggis- og varnarmála og við viljum flest að þau verði frábær aftur, sú vagga frelsis og lýðræðis sem þau gefa sig út fyrir að vera. En stefna núverandi Bandaríkjastjórnar er með öllu óboðleg og samræmist í engu þeim gildum sem okkur er umhugað um – mennréttindi, lýðræði og frelsi. Og ef íslensk stjórnvöld ætla að láta þessa stefnu óátalda, þá getur almenningur alltaf sagt sína skoðun á þann hátt að hún fari ekki framhjá varaforsetanum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -